Frásögn Ívars Ívarssonar 26 ára, sem er sumarstarfsmaður Blindrafélagsins, af hræðilegri lífsreynslu sem hann lenti í 11 maí 2010 og gjörbreytti lífi hans.
Ég hafði tekið inn fæðubótarefni sem hafði ekki góð áhrif á mig, allaveganna þá fer ég í einhverja maníu og byrja að fleygja hlutum niður af svölunum hjá vini mínum. Þetta var sjónvarpið, glerborð, kola grill og leikjatölva einnig klíndi ég þessu fæðubótargeli sem ég tók inn upp um alla veggi. Við þennan hamagang vakti ég nágranann sem hafði fengið hálfa búslóðina á pallinn hjá sér.
Ég mætti honum á bílaplaninu og reyni að tala hann af því að hringja í lögregluna. Því næst hleyp ég í næsta hús og er hleypt inn og fer ég í kalda sturtu. Nágranninn sem ég hitti á bílaplaninu elti mig uppi að húsi þess nágranna sem ég fór í sturtu hjá og hafði hringt í lögregluna. Bankar þá ekki lögreglan á hurðina hjá nágrannanum og þeir riðjast inn með miklum hamagangi og rífa mig úr sturtuklefanum handjárna á höndum og fótum en lögreglumennirnir voru þrír. Þeir missa mig síðan á harðar flísarnar og ég fæ hjartastopp í kjölfar þess í 20 mínútur. Því næst er ég fluttur með sjúkrabíl niður á sjúkrahús og er settur í öndunarvél í 10 daga. Ef Sæmi rokk hefði verið á vakt væri ég heilbrigður einstaklingur í dag. Meðan ég lá á gólfinu á baðherberginu stóðu þeir yfir mér og hlógu að mér og vissu ekkert hvað þeir ættu að gera. Foreldrum mínum var tilkynnt að ég ætti eftir að vera fastur í hjólastól en með mikilli vinnu og aðstoð frá Grensás og pabba tókst það afrek að standa uppúr honum Ég seldi fljótt stólinn en þarf að ganga með stafi í dag og á mjög erfitt með allar hreyfingar.
Staðan hjá mér í dag er allt önnur, ég er ný byrjaður að vinna hjá Blindrafélaginu og er ég að fara að byrja í stífum æfingum á Reykjalundi svo eftir það fer ég að klára skólann í MH um áramótin
Samt sem áður er ég með skerta sjón og mjög takmarkaða hreyfigetu.
Auðvitað eru eftirmálar eftir svona mál. Tryggingafélagið hefur verið mjög erfitt með þetta mál og neita bótum. Fyrst neituðu þau að bæta mér þetta upp vegna þess að þeir töldu mig vera með gallað hjarta en svo var það afsannað eftir að ég fékk fullt heilbrigðisvottorð gagnvart hjartanu ég hef alltaf verið heilsuhraustur og sterkur, máltækið Ef þú ert tryggður þá færðu það bætt virðist taka langan tíma því nú eru meira en þrjú ár síðan slysið átti sér stað en ég veit að það mun hafa farsælan endi og trúi að það skili sér á endanum nógu erfitt er að glíma við að vera kipptur út úr öllu á svipstundu.
Ég get ekki sinnt mínum helstu áhugarmálum lengur sem voru: golf, snjóbretti, mótorkross og vélsleði sökum sjónsskerðingar og hreyfigetu.
En þá taka önnur áhugarmál við sem eru t.d fara í bíó eða sund, fara í ræktina eða bara vera í góðum vinahópnum.
Að sjálfsögðu hafði þetta áhrif á fjölskylduna, það leið til dæmis yfir bróðir minn þegar hann sá mig fyrst og pabbi minn missti vinnuna af því að hann sinnti mér mikið eftir slysið og í kjölfarið missti ég kærustuna mína en við höfðum verið saman í þrjú ár. En í dag lít ég bara björtum augu á framtíðina og verð bara sterkari fyrir vikið.
Fyrst eftir að ég vaknaði var ég með mjög slæma sjón sá allt bara í rauðum eða bláum röndum út um allt en í dag þá er þetta orðið mun skárra en ég hef töluverða skerta sjón samt sem áður.
Ívar Ívarsson