Reynslusagan mín: Að gefast upp er ekki til í minni orðabók

Þetta byrjaði allt með miklum hamagangi einn laugardagsmorgun. Ég hafði byrjað að sturta í mig miklu magni af fæðubótarefnum, en ég veit ekki af hverju ég gerði það, líklega því það bragðaðist vel. Allaveganna þá fer ég í einhverja maníu og byrja að fleygja hlutum niður af svölunum. Þetta var sjónvarp, glerborð, kolagrill og leikjatölva. Einnig klíndi ég þessu geli sem ég tók inn upp um alla veggi og rústaði íbúðinni sem ég var að leigja.


 
Við þennan hamagang vakti ég nágranann sem hafði fengið hálfa búslóðina mína á pallinn hjá sér. Ég mæti honum á bílaplaninu og reyni að tala hann af því að hringja í lögregluna. Því næst hleyp ég  til nágranna míns  sem hleypir mér inn og ég fer í kalda sturtu hjá honum. Nágranninn sem ég hitti á bílaplaninu elti mig uppi að húsi þess nágranna sem ég fór í sturtu hjá og hafði hringt í lögregluna. Bankar þá ekki lögreglan á hurðina hjá nágrannanum og þeir ryðjast inn með miklum hamagangi og rífa mig  úr sturtuklefanum en lögreglumennirnir voru þrír. Við þennan æsing missa þeir mig á harðar flísarnar og ég fæ hjartastopp í kjölfar þess í 20 mínútur. Því næst er ég  fluttur með sjúkrabíl niður á sjúkrahús og er settur í öndunarvél í 10 daga. Meðan ég lá á gólfinu á baðherberginu stóðu þeir yfir mér og hlógu að mér og vissu ekkert hvað þeir ættu að gera.

Það var sagt við foreldra mína að ég ætti eftir að vera fastur í hjólastól það sem eftir væri en ég afsannaði það. Ég seldi fljótt stólinn og var farinn að hlaupa um á göngunum. Um þetta bil var ég kominn á Grensásdeild og var kominn í góða þjálfun.

Staðan hjá mér í dag er allt önnur: ég er nýbyrjaður að vinna í sumarvinnu hjá blindrafélaginu og er að fara að byrja í stífum æfingum á Reykjalundi. Eftir það klára ég skólann í MH um áramótin.

Samt sem áður er ég með skerta sjón og hreyfigetu. Fyrst eftir að ég vaknaði var ég með mjög slæma sjón sá allt bara í rauðum eða bláum röndum út um allt en í dag þá er þetta orðið mun skárra en ég hef töluverða skerta sjón samt sem áður.

Auðvitað eru eftirmálar eftir svona mál. Tryggingarfélagið hefur átt mjög erfitt að afgreiða þetta mál. Fyrst neituðu þau að bæta mér þetta upp vegna þess að þeir töldu mig vera með  hjartagalla en svo var það afsannað. Því næst var sagt að ég hafi streist á móti handtökunni.

 Ég get ekki lengur sinnt mínum hellstu áhugarmálum sem voru golf, snjóbretti, mótorkross og vélsleði að sökum sjónskerðingar og hreyfigetu. En þá taka önnur áhugarmál við sem eru t. d. að fara í bíó eða sund, fara í ræktina eða bara vera í góðum vinahópnum.

Að sjálfssögðu hafði þetta áhrif á fjölskylduna. Það leið til dæmis yfir bróður minn þegar hann sá mig fyrst og pabbi minn missti vinnuna af því að hann var alltaf að sinna mér. Í kjölfarið missti ég kærustuna mína en við höfðum verið saman í þrjú ár. En í dag lít ég bara björtum augum á framtíðina og verð bara sterkari fyrir vikið.

Ívar Ívarsson