Bylting í tónlistarnámi blindra

Ný kennslubók í punktaletursnótum í fyrsta sinn á Íslandi.

Nú hefur í fyrsta sinn verið gefin út íslensk kennslubók í tónfræði og punktaletursnótum sem er bæði á hefðbundnu letri og punktaletri. Í þessari kennslu- og ævingabók er einnig gerð grein fyrir tónfræði á punktaletri. Punktaletursnótur hafa verið til nánast jafn lengi og punktaletrið sjálft en það var Louis Braille sjálfur sem setti þær fram nokkrum árum eftir að hann kynnti punktaletrið, sem var fyrir rúmum 200 árum. Punktaletursnótur notast við sama 6 punkta kerfi og venjulegt punktaletur en merking táknanna breytist.
Hingað til hafa punktaletursnótur ekkert verið notaðar á Íslandi og ekkert efni verið til um þær. Bókin er því stórt skref í áttina til þess að blindir hafi jöfn tækifæri og sjáandi jafningjar þeirra til að stunda tónlistarnám og ná langt á því sviði. Erlendis hafa punktaletursnótur talsvert mikið verið notaðar af fagtónlistarmönnum, m.a. á norðurlöndum.
Það voru þeir Eyþór Kamban Þrastarson og Hlynur Þór Agnarson, tónlistarmenn og félagar í Blindrafélaginu,  sem settu námsefni saman.

Mynd af hefðbundnum nótum og punktaletursnótum

Verkefnið var unnið með stuðningi frá: Stuðningi til sjálfsæðis – styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
Í tilefni útgáfunnar þá býður Blindrafélagið til útgáfusamsætis miðvikudaginn 19 september kl.16:00 í Húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, fundarsalnum annarri hæð.