Laugardaginn 24. október kl 12:30 blés Norðurlandsdeild Blindrafélagsins til félagsfundar að Skipagötu 14, í sal Lionsklúbbsins Hængs. Megin tilefni fundarins var að veita tveimu heiðursmönnum sem haldið hafa starfi norðurlandsdeildarinnar gangandi um áratugaskeið, Gulllampa Blindrafélagsins. Þessir heiðursmenn eru Karl Ásgeirsson og Pálmi Stefánsson. Vel var mætt á fundinn.
Á fundinum flutti Sigþór Hallfreðsson formaður Retina Ísland (RP deilda Blindrafélagsins), kynningu á starfi Retina Íslands og ýmsum af þeim rannsóknum og tilraunum sem nú eru í gangi í þeim tilgangi að finna meðferðir við arfgegnum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu.
Fundargestum var boðið upp á súpu og brauð á fundinum.
Halldór Sævar Guðbergsson, starfandi formaður Blindrafélagsins, gerði grein fyrir rökstuðningi stjórnar og afhendi þeim Karl og Pálma Gulllampa Blindrafélagsins.
Rökstuðningur fyrir Gulllampaveitingunni.
Karl Ásgeirsson: Karl hefur verið einn af máttarstólpum og driffjöður norðurlandsdeildar allt frá stofnun deildarinnar frá árinu 1988, sem spannar yfir tæp 30 ár. Fyrir þann tíma tók hann virkan þátt í félagsstarfi félagsins með ýmsum hætti. Karl sat í varastjórn Blindrafélagsins á tíunda áratug síðustu aldar. Einnig hefur hann starfað sem trúnaðarmaður félagsins til fjölda ára á norðurlandi í sjálfboðavinnu. Karl hefur verið duglegur í gegnum tíðina að rækta tengsl við félagsmenn Blindrafélagsins á norðurlandi og opnaði oft heimili sitt til fundarhalda og til að sýna fólki hjálpartæki. Karl skipulagði til fjölda ára fjáraflanir Blindrafélagsins á Akureyri, svo sem happdrættissölu og jólakortasölu, með því að fá sölufólk og halda utan um hana og selja sjálfur.
Pálmi Stefánsson: Pálmi hefur setið í stjórn Blindrafélagsins um árabil og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Pálmi hefur setið í stjórn norðurlandsdeildar og verið þar gjaldkeri um mjög langt skeið. Hann hefur alltaf verið boðinn og búinn að aðstoða félagið þegar á þarf að halda. Pálmi rak eigin fyrirtæki í áratugi og farnaðist vel og var því góð fyrirmynd fyrir blint og sjónskert fólk á Íslandi. Tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í lífi Pálma og hafa félagsmenn Blindrafélagsins oft notið góðs af því.
Ofangreindur rökstuðningur var samþykkur samhljóða af aðal og varastjórnarmönnum Blindrafélagsins á stjórnarfundi þann 7. október 2015.
Hér má sjá myndir frá fundinum.