Sannleiksnefnd Blindrafélagsins

Gengið hefur verið frá skipun Sannleiksnefndar Blindrafélagsins og hittist hún á sínum fyrsta fundi miðvikudaginn 22.  október 2015. Nefndin er skipuð í kjölfar samþykktar félagsfundar Blindrafélagsins sem haldinn var þann 30 september 2015. Tilefni fundarins var að fjalla um vantrauststillögu sem stjórn félagsins samþykkti á formann félagsins, Bergvin Oddsson, á stjórnarfundi 22. september 2015.

Félagsfundurinn samþykkti meðal annars að setja á fót „Sannleiksnefnd“ sem skyldi skipuð þremur utanaðkomandi aðilum sem stjórn og formaður væru sammála um. Nefndin á að skila áliti til stjórnar og félagsmanna fyrir næsta aðalfund sem halda á fyrir 1. febrúar.

Skipan nefndarinnar.

Samkomulagi hefur orðið um skipan nefndarinnar og sömuleiðis hafa neðangreindir aðilar samþykkt að taka sæti í nefndinni:

  • Gestur Páll Reynisson (f. 1974), stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur.
  • Helga Baldvins og Bjargardóttir (f. 1981) , lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks hjá Stígamótum.
  • Salvör Nordal (f. 1962) forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Hlutverk nefndarinnar:

Sannleiksnefndin hefur það hlutverk að fara yfir og leggja mat á öll gögn tengd atvikum, sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins lýsti yfir vantrausti á Bergvin Oddsson, formann félagsins þann 22. september. Sannleiksnefndin skal skila áliti sínu og tillögum til stjórnar og félagsmanna Blindrafélagsins í tíma fyrir næsta aðalfund og skulu niðurstöður nefndarinnar kynntar á félagsfundi sem haldinn verði fyrir aðalfund félagsins 2016.

Jafnframt skal nefndin taka viðtöl við þá málsaðila sem hún telur tilefni til að ræða við og bjóða þeim sem svo kjósa að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum með skriflegum hætti treysti þeir sér ekki til að mæta í viðtöl.

Til að geta sem best rækt hlutverk sitt hefur nefndin aðgang að öllum gögnum málsins svo sem eins og fundargerðum Blindrafélagsins, hljóðupptökum af félagsfundinum 30. september, lögum félagsins, stefnumótun, tölvupóstum, bréfum og gögnum sem að tengjast Fasteignafélaginu Hnjúk kt. 690515-0830 og öðrum gögnum sem að málinu kunna að tengjast.

Nefndinni skal skila Blindrafélaginu opinberri skýrslu og kynna hana fyrir félagsmönnum Blindrafélagsins á opnum félagsfundi. Í skýrslunni skal lagt mat á:

  • Hvort að viðbrögð stjórnar félagsins hafi í ljósi atburðarrásarinnar verið rétt eða röng með hagsmuni félagsins að leiðarljósi eða hvort stjórnin hafi farið offari.
  • Hvort að viðbrögð stjórnarinnar megi fyrst og fremst rekja til valdabaráttu innan Blindrafélagsins og stjórnar þess.
  • Að hvað miklu leiti stjórnhættir kunni að hafa skipt máli í umræddri atburðarrás.

Starfsmaður.

Blindrafélagið leggur nefndinni til starfsmann, sem er Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson. Hlutverk starfsmanns er að skrá niður viðtöl, halda utan um gögn málsins og gera uppkast af skýrslu. Starfsmanni mun standa til boða aðstoð við ýmis ritarastörf á skrifstofu Blindrafélagsins.

Þeir sem vilja koma að ábendingum eða athugasemdum til nefndarinnar geta gert það í gegnum tölvupóstfangið sannleiksnefnd@blind.is eða í símanúmerið 8946101 sem er hjá starfsmanni nefndarinnar.

Trúnaður og meðferð gagna.

Nefndin er bundin trúnaði um allar þær upplýsingar sem hún fær vitneskju um í störfum sínum. Sama gildir um starfsmann nefndarinnar. Trúnaðargögn sem nefndin kann að fá í hendur við vinnu sína skal eytt að lokinni vinnu nefndarinnar. Önnur gögn skulu vera skjöluð hjá Blindrafélaginu.

Tímamörk.

Að því skal stefnt að nefndin skila af sér niðurstöðu eigi síðar en í janúar 2016.