DAISY – (Digital Access Information SYstem) samtökin eru alþjóðleg aðgengis samtök sem vinna markvisst að því að auka aðgengi blindra, sjónskertra og annarra að prentuðu máli. Markmið samtakanna er að þessi hópur hafi aðgang að sömu bókum, á sama tíma og á sama verði og aðrir. Samtökin vinna nú m.a. að því að fullgera aðgengisstaðal EPub3 bóka, sem miðar að því að allir geti tileinkað sér efni bókanna með einhverjum hætti, í gegnum stækkað letur, hljóð eða punktaletur. Samtökin hafa lagt grunn að alþjóðlegum samningi, TIGAR, þar sem útgefendur og framleiðendur bóka um allan heim leggja sitt af mörkum. Gagnagrunnurinn samanstendur af tugþúsundum bóka á rafrænu formi og er Hljóðbókasafn Íslands aðili að samningnum.
DAISY samtökin eru afar virt en í stjórninni sitja 22 aðilar frá öllum heimshornum. Einna þekktastur stjórnarmanna er Dr. George Kersher, en segja má að hann sé stjarna á þessu sviði. Kersher hefur verið heiðraður af forseta Bandaríkjanna sem „Champion of Change“ enda hafa aðgengismál blindra og sjónskertra verið köllun hans og ævistarf.
Það þykir mikill heiður að halda fund samtakanna en Hljóðbókasafn Íslands skipuleggur fundinn að þessu sinn. Á fundinn koma að öllu jöfnu áheyrendur hvaðanæva að úr heiminum og geta áhugasamir sótt um að gerast áheyrandi á fundinum hjá Hljóðbókasafni Íslands hjá hbs@hbs.is.
Nánari upplýsingar um DAISY samtökin má finna á www.daisy.org