Þriðjudaginn 26. janúar var skrifað undir þjónustusamning milli Blindrafélagsins og Seltjarnarnesbæjar um að Blindrafélagið, taki að sér að reka ferðaþjónustu fyrir Seltirninga sem eru greindir lögblindir af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar.
Fyrir hönd Blindrafélagsins skrifaði Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri félagsins undir samninginn og fyrir hönd Seltjarnaresbæjar Snorri Aðalsteinsson félagasmálastjóri bæjarins.
Í samningnum eru einnig ákvæði þess efnis að Seltjarnarnesbær geti boði öldruðu fólki eða fólki með aðrar fatlanir upp á að nota ferðaþjónustu Blindrafélagsins.
Ferðaþjónusta Blindrafélagsins er þjónustu úrræði, sem nýtir leigubílaþjónustu sem fyrir er í samfélaginu en reiðir sig ekki á sérlausnir. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra bera sveitarfélög ábyrgð á að bjóða þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur ferðaþjónustu sem gerir þeim kleyft að stunda atvinnu, nám og tómstundi.
Sjá frekari upplýsingar um Ferðaþjónustu Blindrafélagsins.
Viðbót 4.2.2016:
Arnþór Helgason, sem búsettur hefur verið á Seltjarnanesi í fjöldmörg ár vildi koma eftirfarandi á framfæri í tengslum við þesa frétt:
"Það var ánægjulegt að lesa um samningsgerðina við Seltjarnarnes.
Í fréttinni hefði mátt standa að Seltjarnarnes varð á sínum tíma fyrst sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að taka þátt í ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík. Í félagsmálaráði ríkti jafnan einhugur um þessa þjónustu og þar voru fyrst bornar fram tillögur um notkun leigubíla, en það var í framhaldi þess að Ástgeir Þorsteinsson, núverandi formaður Frama og Sigfús Bjarnason, þáverandi formaður, báru þessa tillögu upp við Öryrkjabandalagið.
Ekkert varð úr þessu þar sem þáverandi formaður bandalagsins hætti en Blindrafélagið kom þessu síðan í framkvæmd árið 1998, ef ég man régg.
Seltjarnarnes gekk strax inn í þennan samning."