Samningur undirritaður milli Blindrafélagsins og Vinnumálastofnunar vegna Blindravinnustofunnar.
Fimmtudaginn 21. janúar var skrifað undir samning milli Blindrafélagsins og Vinnumálastofnunnar um starfsemi Blindravinnustofunnar til næstu tveggja ára. En um síðast liðin áramót rann út samskonar samningur sem var til þriggja ára. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Blindravinnustofunnar og að lokinni undirskrift var starfsmönnum Blindravinnustofunnar, Blindrafélagsins og félagsmönnum sem voru í staddir opnu húsi, boðið til kaffisamsætis í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.
Að sögn Kristins Halldórs Einarssonar, framkvæmdastjóra Blindrafélagsins og Blindravinnustofunnar er þessi samningur mjög mikilvægur rekstri Blindravinnustofunnar. Unnið hafi verið að samningnum frá því á miðju seinasta ári og nú væri samningurinn kominn í höfn. Kristinn sagði að samningurinn mætti þeim þörfum sem að stjórnendur Blindravinnustofunnar töldu nauðsynlegt að yrði mætt, það væri mjög mikilvægt. Gissuri Péturssyni forstjóra VMST var þakkaður sá skilningur sem að hann hafi sýnt aðstæðum vinnustofunnar í samningaferlinu.
Gissur Pétursson forstjóri VMST sagði að hann væri afskaplega ánægður með þennan nýja samning og að á VMST gerðu allir sér grein fyrir sérstöðu Blindravinnustofunnar og mikilvægi starfsemi hennar fyrir þá fjölmörgu starfsmenn sem þar starfa og raunar væri það svo að ekkert gæti komið í stað Blindravinnustofunnar.
Halldór Sævar Guðbergsson, starfandi formaður Blindrafélagsins, sagðist binda miklar vonir við að aukin samvinna við VMST gæti skilað sér en enn fleiri atvinnutækifærum fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.
Markmið samningsins er að stuðla að aukinni þátttöku fatlaðra í samfélaginu og auknu fjárhagslegu og félagslegu sjálfstæði þeirra. Stuðningi VMST við starfsemi Blindravinnustofunnar er ætlað að mæta kostnaði við sérhæfðan stuðning við starfsmenn vinnustofunnar vegna skertrar starfsgetu þeirra.
Blindravinustofan - Stuðningur til sjálfstæðis!
Blindravinnustofan er vinnu-og starfsþjálfunarstaður blindra, sjónskertra og annarra fatlaðra einstaklinga
Blindravinnustofan gegnir mikilvægu hlutverki í því að skapa blindu, sjónskertu og öðru fötluðu fólki atvinnu og starfa þar um 30 fatlaðir einstaklingar. Mikilvægasti hluti starfseminnar er pökkun á hreinlætisvörum sem seldar undir merkjum Blindravinnustofunnar.
Tilvist Blindravinnustofunnar hvílir því á vilja verslana til að bjóða vörur vinnustofunnar til sölu og vilja neytenda til að kaupa vörurnar. Önnur verkefni vinnustofunnar eru: bastvöggugerð, ljósmyndaskönnun, pökkun og flokkun og strimlakústagerð.
Í gildi er þjónustusamningur við Vinnumálastofnun um hlutverk Blindravinnustofunnar sem verndaðs vinnu-, starfsþjálfunar- og hæfingarstaðar. Blindravinnustofan var stofnuð, af blindu fólki, árið 1941. Í dag er Blindravinnustofan einkahlutafélag að fullu í eigu Blindrafélagsins. Tilgangur félagsins er að veita blindum og sjónskertum atvinnu, þjálfun og endurhæfingu með rekstri heildsölu, innflutningi, smásölu og framleiðslu ræstinga- og hreinlætisvara og skyldri starfsemi.
Með því að kaupa vörur eða þjónustu Blindravinnustofunnar leggur þú þitt af mörkum til þess að styðja blint og sjónskert fólk til sjálfstæðis.