Alþjóðlegur dagur stafræns aðgengis, 21. maí 2020.

Fimmtudagurinn 21. maí 2020 er alþjóðlegur dagur stafræns aðgengis (Global Accessibility Awareness Day). Tilgangur dagsins er að vekja almenning til vitundar um mikilvægi stafræns aðgengi og fá fólk til að tala, hugsa og læra um aðgengi fyrir vefsíður, hugbúnað, farsíma, spjaldtölvur o.s.frv..

Aðgengi að vefnum verður mikilvægara með hverjum degi þar sem flest öll þjónusta í dag fer fram í gegnum einhverskonar vefgátt. Blindir og sjónskertir eru full færir um að bjarga sér og lifa sjálfstæðu lífi í netheimum ef rétt er farið að hönnun vefsvæða. Til þess að svo sé þarf að fylgja ákveðnum stöðlum sem tryggja að stoðbúnaður blindra og sjónskertra virki rétt.

Blindrafélagið veitir stofnunum, fyrirtækjum, skólum og einstaklingum ráðgjöf og aðstoð við að finna upplýsingar, tæki og tól sem stuðla að bættu og fullnægjandi aðgengi að stafrænni þjónustu og upplýsingum.

W3C (The World Wide Web Consortium) er alþjóðlegt samfélag hönnuða sem vinna að skapa staðla fyrir þróunarvinnu. Hjá þeim er hægt að leita að stöðlum fyrir næstum allt sem tengist forritun fyrir vefsíður, farsíma, spjaldtölvur, heimilistæki, snjall-úr og margt fleira. Staðlar eins og WCAG (Web Content Accessibility Guidelines) eru nauðsýnlegir fyrir forritara að fylgja svo hönnun þeirra sé aðgengileg fyrir alla.

Á aðalfundi Blindrafélagsins, 11. maí 2019, var samþykkt ályktun um innleiðingu Evrópsku aðgengistilskipunarinnar á Íslandi sem var samþykkt hjá Evrópusambandinu árið 2016. Á Íslandi er engin löggjöf til staðar sem tryggir að aðgengi að upplýsingum og þjónustu sé fyrir alla, en ekki bara suma.

Ef þú villt taka þátt í deginum og átta þig betur á því hversu mikilvægt aðgengi er, höfum við hér nokkrar hugmyndir fyrir þig.

Slepptu músinni.

Prófaðu að kippa músinni úr sambandi og notaðu eingöngu lyklaborðið (tab/shift tab, örvalyklar, enter og bilslá) til þess að fara um í tölvunni og skoða uppáhalds heimasíðurnar þínar.

Ef þú ert forritari eða hönnuður, hvetjum við þig til þess að fara á vefsvæði sem þú hefur tekið þátt í að skapa og skoða eftirfarandi:

  • Er sýnilegt áherslumerki (sem sýnir þér hvar þú ert) þannig að þú getir farið um síður með tab takka?
  • Getur þú unnið með allt á síðunni með því að nota eingöngu lyklaborð?
  • Ef það er virkni í einhverju sem birtist venjulega þegar músarbendill fer yfir það, getur þú framkallað þessa virkni með því að nota eingöngu lyklaborð?

Stækkaðu leturgerðina.

Sjáðu hvort vefsvæðið þitt er aðgengilegt sjónskertum. Farðu í vafrastillingar og stækkaðu textann um 200%. Skoðaðu nú vefsíður og sjáðu hvort eitthvað efni eða aðgerðir hafi nú horfið út af stækkuninni.

Prófaðu að nota skjálestrarbúnað.

Það eru til nokkrar gerðir af skjálestrarbúnaði og sumar þeirra kosta ekkert. Fyrir Windows er hægt að ná í forritið NVDA (NonVisual Desktop Access) en fyrir Mac er hægt að nota innbyggt forrit sem heitir VoiceOver. Skoðaðu síðuna fyrir VoiceOver til að læra á lyklaborðsskipanir og hægt er að skoða lista yfir lyklaborðsskipanir fyrir NVDA á síðu hjá Blindrafélaginu. Það eru einnig innbyggð kerfi í Windows 10 sem auðvelda aðgengi og hægt er að lesa um þau á heimasíðu Microsoft.

Evrópska aðgengistilskipunin innleidd á Íslandi.

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 11. maí 2019, skorar á íslensk stjórnvöld að innleiða án tafar vefaðgengistilskipun Evrópusambandsins (Web Accessability directive). Jafnframt þá skorar fundurinn á allar þær menntastofnanir sem að kenna tölvunarfræði og/eða forritun að taka efni aðgengistilskipunarinnar inn í kennsluefni sitt. Enn fremur skorar félagið á vefhönnuði, forritara og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu að taka frumkvæðið í sínar hendur og innleiða markviss vinnubrögð til að tryggja gott aðgengi. Meðal annars að kynna sér og nota WCAG staðalinn í allri stafrænni hönnun og stuðla þannig að bættu aðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga að upplýsingum og þjónustu á vefnum og um leið að auknum lífsgæðum þeirra.

Greinargerð.

Stafræna byltingin hefur aukið til muna möguleika blindra og sjónskertra einstaklinga á samfélagslegri virkni langt umfram það sem áður hefur verið möguleiki á. Tölvutækni hefur frá upphafi verið blindum og sjónskertum aðgengileg með aðstoð hjálparbúnaðar. Það hefur leitt af sér tækifæri sem hefði reynst torsótt að nýta án tölvutækninnar. Þannig er hægt að sinna störfum, sækja sér þjónustu og leita upplýsinga án þess að þurfa að beita sjóninni. Þróun undanfarinna áratuga hefur hins vegar verið sú að hönnun og uppsetning vefsvæða er blindum og sjónskertum oft óaðgengileg. Þannig hafa tækifæri sem felast í aukinni atvinnuþátttöku og almennri virkni blindra og sjónskertra einstaklinga farið forgörðum með tilheyrandi verðmætasóun. Eingöngu vegna þess að almennum og einföldum aðgengiskröfum um virkni staðlaðs stoðbúnaðar er ekki mætt. Þar með eru blindir og sjónskertir einstaklingar settir til hliðar í þeirri stafrænu byltingu sem á að tryggja þeim betri tækifæri og aukið sjálfstæði. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gert sér grein fyrir þessum vanda og hafa sett löggjöf sem tryggir rétt blindra og sjónskertra að aðgengilegum veflausnum. ESB hefur þegar sett lög um aðgengi að opinberri stafrænni þjónustu innan ESB og á leiðinni eru lög um aðgengi að þjónustu á almennum markaði. Þessi löggjöf er hluti af EES samningnum og ber því að innleiða hana hér á landi. Innleiðing þessara aðgengislöggjafa er grundvöllur þess að blindir og sjónskertir einstaklingar geti unnið á almennum vinnumarkaði, fyrir sjálfstæðri búsetu og almennum lífsgæðum. Einnig er mikilvægt að vefhönnuðir, forritarar og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu séu vel kunnugir þeim stöðlum sem aðgengis löggjöfin byggir á. Reynslan af að beita WCAG staðlinum í rafrænni hönnun sýnir að það bætir ekki aðeins aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga heldur tryggir það einnig aðgengilega og góða hönnun sem er öllum til hagsbóta. Þannig geta algild hönnunarviðmið í stafrænni þjónustu leitt af sér aukin þægindi og betri upplifun fyrir alla notendahópa.