Frú Vigdís Finnbogadóttir, til hamingju með daginn.

 

Frú Vigdís í ræðupúlti á 75 ára afmæli Blindrafélagsins

Sumir marka dýpri spor í samtíð sína en aðrir, fólk sem með atgervi sínu og innsæi lesa í hjartslátt tímans og verða öðrum fyrirmynd með verkum sínum og lífsviðhorfum. Þannig manneskja er afmælisbarn dagsins, frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands sem markaði söguleg tímamót í jafnréttismálum með því að verða fyrsta konan til að verða kosinn þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum.

Alúð hennar og ástríða fyrir íslenskri tungu, menningu og listum hefur mótað viðhorf heilu kynslóðanna og reynst ómetanlegur stuðningur þeim sem láta sig þau málefni varða.

Vigdís var verndari talgervlaverkefnis Blindrafélagsins um smíði á nýjum íslenskum talgervlaröddum, Karli og Dóru sem hún sýndi mikinn áhuga. Hún tók virkan þátt í verkefninu og lagði því ómetanlegan stuðning.

Á 75 ára afmælishátíð Blindrafélagsins þann 19 ágúst 2014 var frú Vigdísi Finnbogadóttur veittur Gullampi Blindrafélagsins fyrir ómetanlegan stuðning við málefni blindra og sjónskertra einstaklinga á Íslandi.

Gulllampinn er æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins. Merkið er veitt þeim einstaklingum sem hafa skarað fram úr vegna starfa sinna í þágu blindra og sjónskertra.

Blindrafélagið óskar frú Vigdísi Finnbogadóttur allra heilla á afmælisdaginn og þakkar fyrir gifturíkt samstarf og velvilja í áranna rás

Sigþór U. Hallfreðsson
Formaður Blindrafélagsins.