Á vettvangi Blindrafélagsins skal vera starfandi fagráð um meðferð kynferðisbrota, hér eftir nefnt fagráð. Stjórn Blindrafélagsins skipar í fagráðið sem hefur það hlutverk að styðja við þolendur.
Í þeim tilgangi að skapa aðstæður sem stuðla gegn því að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað á vettvangi Blindrafélagsins er mikilvægt að öllum sé það kunnugt að þolendur eigi stuðning fagráðs félagsins vísan. Fagráðið er ekki rannsóknaraðili.
Kvörtunum um kynferðisbrot skal beina til fagráðs á netfangið: fagrad@blind.is
- Með hugtakinu kynferðisbrot í reglum þessum er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga.
Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun. Kynferðisleg áreitni skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu og samskipta hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Hún er ekki gagnkvæm og ekki á jafnræðisgrundvelli. - Innan Blindrafélagsins eiga þolendur kynferðisbrots, sem kann að hafa átt sér stað innan félagsins, kost á að leita beint til fagráðs félagsins.
- Leiti þolandi til starfsmanna félagsins vegna kynferðisbrots á vettvangi félagsins skulu þeir leiðbeina þolanda við að vísa máli sínu til umfjöllunar hjá fagráði.
- Komi upp mál sem snúa að börnum (undir 18 ára), ber skv. gildandi lögum um tilkynningaskyldu nr. 80/2002 að vísa slíkum málum umsvifalaust til barnaverndaryfirvalda.
- Stjórn Blindrafélagsins skipar (þrjá) aðila í fagráð. Í því skulu vera fulltrúar af báðum kynjum og aðilar með menntun á sviði félagsráðgjafar, lögfræði og heilbrigðisgreina eða aðili með sambærilegan bakgrunn. Hlutverk fagráðs er að fjalla um þau mál sem vísað er til þess, leiðbeina þolanda og gera tillögu um viðbrögð til tilheyrandi aðila. Ákvörðun um viðbrögð og næstu skref eru alltaf að höfðu samráði við þolanda. Fagráð skipar einn úr sínum hópi til að vera formaður fagráðsins.
- Fulltrúi frá fagráði skal hafa samband við þolanda svo fljótt sem auðið er eftir að máli er vísað til fagráðs. Fagráð vinnur með þolanda og aðstoðar við að koma máli í viðeigandi farveg í fullu samráði við þolanda. Mæli lög ekki á annan veg er fagráði og öðrum þeim sem að málunum koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.
- Stjórn Blindrafélagsins er skylt að taka til umfjöllunar og úrskurða í málum sem fagráð félagsins hefur vísað til stjórnarinnar. Úrræði stjórnar taka óhjákvæmilega mið af stöðu gerenda, þ.e. hvort hann er stjórnarmaður, starfsmaður, félagsmaður eða utanaðkomandi aðili Eigi stjórnarmaður aðild að máli, sem meintur þolandi, gerandi eða trúnaðarmaður þolanda, skal hann víkja af fundi á meðan málið er tekið fyrir innan stjórnar. Það sama skal gilda ef almennar vanhæfisreglur eiga við um einhvern stjórnarmann.
- Þessar reglur eru settar og samþykktar af stjórn Blindrafélagsins.