Guðrún Ásmundsdóttir leikkona og vinur Blindrafélagsins hafði veg og vanda að dagskránni og var veislustjóri.
Halldór Sævar Guðbergsson starfandi formaður Blindrafélagsins flutti ávarp og brá upp hvernig fjölmiðlun fyrir blint og sjónskert fólk var í árdaga og hversu miklar framfarir orðið hafa í aðgengi blindra og sjónskertra að fjölmiðlaefni. Halldór færði svo Gísla Helgasyni, sem hefur verið viðloðandi Valdar greinar frá upphafi, og er núverandi ritstjóri, þakklætisvott frá stjórn félagsins fyrir sitt dýrmæta framlag til Valdra greina í 40 ára sögu þeirra.
Sigríður Thorlacius söngkona og Guðmundur Óskar Guðmundsson gítarleikari fluttu alveg dásamlega tónlist eftir Jón Múla við ljóð Jónasar Árnasonar.
Þá las Guðrún úr minningum Helgu Ólafsdóttur, fyrrum forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands, þar sem Helga sagði frá sjónmissi móður sinnar Steinunnar Ögmundsdóttur, og hvernig Blindrafélagið skipti sköpum í lífi hennar, ásamt fleiru. Þau hjónin, Steinunn og Ólafur Pálsson voru einstök öðlingshjón og gáfu fjármuni til þess að rita sögu blindra á Íslandi, sem Þórhallur Guttormsson ritaði.
Farið var fljótt yfir sögu Valdra greina og brugðið upp gömlum hljóðmyndum af fyrstu Völdum greinum og fyrstu tilkynningunum.
Fleira var til gleðiauka og meðal annars þá flutti Arnþór Helgason sem átti þátt í tilurð Valdra greina ásamt núverandi ritstjóra ávarp .
Athöfnin tókst í alla staði mjög vel og var vel mætt.