Tilgangurinn með veitingu Samfélagslampans er vekja athygli á fyrirtækjum, stofnunum og/eða tilteknum aðgerðum eða verkefnum, sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.
Samfélagslampi Blindrafélagsins, er einstakur gripur, handsmíðaður af Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.