Velferðarsvið Reykjavíkur hefur nú afgreitt erindi Blindrafélagsins frá því í vor um hækkun á fyrsta kostnaðar þaki í ferðaþjónustu blindra í Reykjavík. Fallist er á að þakið hækki úr 3500 krónum í 4000 krónur. Mun breytingin taka gildi frá og með 1 október 2012.
Tilefni erindisins er að þeir notendur ferðaþjónustunnar sem búa í úthverfum austurborgarinnar voru í síauknum mæli farnir að nota tvær ferðir í erindi sem ávalt hafa kostað eina ferð. Afleiðingarnar eru að kostnaðarhlutdeild notenda vex mikið og leyfilegur ferðafjöldi skerðist.
Ferðaþjónusta blindra í Reykjavík er rekin í samstarfi Blindrafélagsins, Hreyfils og Reykjavíkurborgar, sem ber lagalegan ábyrgð á ferðaþjónustu við fatlaða Reykvíkinga sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur. Markmiðið er að tryggja að fatlaðir einstaklingar geti lagt stund á nám, atvinnu og tómstundir. Lögblindir einstaklingar eru í þessum hópi.
Ferðaþjónusta blindra í Reykjavík
Ferðaþjónusta blindra er ferðaþjónusuúrræði, sem nýtir leigubílaþjónustu. sem komið hefur verið á í fjölda sveitarfélaga þar sem lögblindir íbúar eru búsettir. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra bera sveitarfélög ábyrgð á að bjóða þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur ferðaþjónustu sem gerir þeim kleyft að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Í upphafi árs 2011 var gerð sú breyting á 1. grein laga um málefni fatlaðra, að nú er kveðið á um að við framkvæmd laganna skyldi litið til alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 20 grein samningsins er fjallað um ferlimál einstaklinga, í greininni segir m.a.:
"Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,"
Kostnaðarþátttaka notenda í ferðaþjónustu blindra er mun hærri en kostnaðarþátttaka notenda í ferðaþjónustu fatlaðra. Þjónustustigið er jafnframt mun betra í ferðaþjónustu blindra. Í ferðaþjónustu blindra er til dæmis hægt að hringja á leigubíl og fá ferðaþjónustu fyrirvaralaust á meðan að yfirleitt þarf að panta bíl með allt að 24 klst fyrirvara í ferðaþjónustu fatlaðra.
Samkvæmt úttekt Reykjavíkurborgar á annarsvegar kostnaði borgarinnr við hverja ferð í ferðaþjónustu blindra og hinsvegar í ferðaþjónustu fatlaðra á árinu 2010, kom í ljós að hver ferð í ferðaþjónustu fatlaðra er um 69% dýrari en hver ferð í ferðaþjónustu blindra.
Í dag annast Blindrafélagið,ferðaþjónustu blindra í Reykjavík í samvinnu við Hreyfil/Bæjarleiðir og Strætó bs. Sveitarfélögin á Seltjarnarnesi, Álftanesi, Akureyri og í Hafnarfirði bjóða einnig upp á ferðaþjónustu í samstarfi við Blindrafélagið. Þá eru samningar við Ísafjörð, Skaftárhrepp og Mosfellsbæ bundnir við einstaklinga búsetta í þessum sveitarfélögum.
Þeir einstaklingar sem rétt eiga á þjónustunni, skila til Blindrafélagsins vottorði frá Þjónustu og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga um rétt sinn til þjónustunnar.
Þjónustan felst í því að notendur panta leigubíl frá Hreyfli/Bæjarleiðum (BSO á Akureyri) og skrifa reikninginn á Ferðaþjónustu blindra, sem annast alla skráningu og sendir út reikninga til hlutaðeigandi mánaðarlega. Notendur greiða sem samsvarar einu strætisvagnafargjaldi fyrir hverja ferð, þ.e. hverja viðkomu. Þó er þak á fjárhæð hverrar ferðar. Sveitarfélögin niðurgreiða einungis ferðir sem farnar eru á þjónustutíma strætó. Utan þjónstutímana greiðir notandi fullt gjald fyrir þjónustuna að frádregnum umsömdum afslætti.
Í Reykjavík og Seltjarnanesi er fyrirkomulagið þannig að notandi á rétt á 60 ferðum á mánuði, á Álftanesi eru ferðirnar 40, þar af mega 18 vera vegna einkaerinda, aðrar ferðir þurfa að vera vegna vinnu, náms eða læknisheimsókna. Fyrir hverja ferð upp að 3999 krónum er kostnaðarþátttaka notenda 350 krónur, fyrir ferð á bilinu 4000 - 4999 krónur er kostnaðarþátttaka notenda 700 krónur, fyrir ferð sem kostar 5000 - 5999 krónur er kostnaðarþátttaka notenda 1050 kr. o.s.frv. Á Akureyri greiða notendur 350 krónur fyrir hverja ferð og allan kostnað sem fer fram yfir 1500 krónur. Einstaklingsmiðaðar lausnir og samningar eru í gangi gagnvart bæði Mosfellsbæ og Hafnarfirði.
Þeir félagsmenn Blindrafélagsins sem búa í sveitarfélögum sem ekki hafa samið um ferðaþjónustu blindra, eða eru ekki skilgrgreindir lögblindir, eiga kost á að sækja um heimild til að taka leigubifreið og skrifa hjá Ferðaþjónustu blindra. Þannig fá þeir afslátt sem Hreyfill/Bæjarleiðir gefur, auk þess sem þeir greiða umsýslugjald fyrir hverja ferð til Blindrafélagsins.