Siðareglur Blindrafélagsins eru meðal annars byggðar á gildum félagsins en þau eru:
Jafnrétti - Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.
Sjálfstæði - Stuðlar að virkni og ábyrgð.
Virðing - Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.
Umburðalyndi - Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.
1. gr. Tilgangur siðareglna.
Að veita Blindrafélaginu, félagsmönnum, stjórnendum, starfsfólki og sjálfboðaliðum, stuðning í hlutverki sínu við að vinna að heill félagsmanna í gegnum hagsmuna og réttindagæslu, þjónustu, félagsstarf og jafningjastuðning.
Að styrkja ímynd Blindrafélagsins, viðhalda og auka traust almennings á starfi félagsins með því að upplýsa um gildi og markmið sem móta starfið.
Að efla gegnsæi, góða stjórnarhætti og faglegt starf í þágu félagsmanna og almennings.
Að veita stjórn og starfsmönnum viðmið um breytni og þá faglegu ábyrgð sem á þeim hvílir umfram lagalegar skyldur.
2. gr. Virðing.
Ábyrgð gagnvart hvert öðru.
Félagsmenn skulu halda tryggð við gildi félagsins, efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna af sér gott fordæmi.
Félagsmenn skulu sýna hver öðrum virðingu og kurteisi í samskiptum og viðhafa yfirvegun og hóf í orðræðu um menn og málefni, bæði í ræðu og riti.
Félagsmenn skulu sýna af sér háttvísi í framkomu. Ólíðandi hegðun eins og einelti og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er ekki liðin innan Blindrafélagsins.
3. gr. Heilindi.
Ábyrgð gagnvart almenningi, fjölmiðlum og samfélagi.
Upplýsingar sem Blindrafélagið veitir skulu vera áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum upplýsingum til almennings.
Blindrafélagið starfar sjálfstætt að markmiðum sínum, með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, án þrýstings frá eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum.
Blindrafélagið skal hafa umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýna með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.
4. gr. Ábyrg starfsemi.
Ábyrgð gagnvart styrktaraðilum, þjónustunotendum og samstarfsaðilum.
Blindrafélagið ber ábyrgð á starfi sínu og skal sýna þjónustunotendum, styrktaraðilum og öllum öðrum samstarfsaðilum bæði virðingu og trúnað.
Áreiðanlegar og skýrar upplýsingar eru veittar fúslega og án óþarfa tafa. Notendum þjónustu eru gefnar aðgengilegar upplýsingar um alla þætti og þeim auðveldað að nota hana.
Blindrafélagið mismunar ekki þeim sem félagið á í samskiptum við hvorki á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars sem er ólíkt með fólki.
Blindrafélagið misnotar ekki stöðu sína sem þjónustuveitandi eða úthlutunaraðili gæða og bregst ekki trausti þeirra sem til félagsin leita.
5. gr. Ábyrgir starfshættir.
Ábyrgð stjórnarmanna, starfsfólks og sjálfboðaliða.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar halda tryggð við gildi, markmið og orðstír Blindrafélagsins.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins nýta ekki trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til framdráttar.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins veita þjónustu og fyrirgreiðslu á faglegum forsendum en ekki vegna persónulegra tengsla eða vensla.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins virða störf annarra félaga og samtaka og kynna sig í krafti eigin starfs.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins sýna hver öðrum virðingu, samstarfsvilja og stuðning og stuðla að framgangi verkefna.
6. gr. Ábyrg fjármál.
Meðferð fjármuna, endurskoðun, upplýsingagjöf, fjáraflanir.
Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga er í höndum kjörinna skoðunarmanna og löggiltra endurskoðenda.
Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru settar fram á skýran og aðgengilegan hátt í ársreikningum félagsins.
Blindrafélagið er ráðvant og tekur ekki við styrkjum frá aðilum sem með framgöngu sinni eða starfsemi, vinna gegn baráttumálum félagsins.
Blindrafélagið aflar ekki fjár með ósiðlegum hætti og ávallt er skýrt til hvers fjár er aflað og tilskilin leyfi fyrir fjáröflunum fengin.
Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar gæta ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.
7. gr. Siðrof.
Málsmeðferð vegna ætlaðs brots.
Vakni grunur um eða verði ljóst að siðareglur þessar hafi verið brotnar má hver sem þess verður var, tilkynna það til stjórnar Blindrafélagsins. Erindi um brot á siðareglunum má aldrei bitna á sendanda þess og stjórn getur ákveðið að sendandi erindis njóti nafnleyndar.
Stjórn skal leita skýringa og frekari upplýsinga eftir því sem tilefni er til. Málsmeðferð skal haga í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð. Sá sem sakaður er um að hafa brotið siðareglur þessar skal ávallt eiga þess kost, meðan mál hans er til umfjöllunar, að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og upplýsingu.
Ef stjórnarmaður á hlut að máli og ef málavextir gefa tilefni til getur stjórn leitað til óháðs sérfræðings/sérfræðinga til að gefa ráðgefandi álit á því hvort siðareglur hafi verið brotnar.
Brjóti félagsmaður, stjórnarmaður, starfsmaður eða sjálfboðaliði Blindrafélagsins gegn siðareglum þessum skal hann í samráði við stjórn Blindrafélagsins bæta fyrir brotið eins og hægt er með því að birta, leiðrétta upplýsingar eða gera aðra þá bragarbót sem þurfa þykir.
8.gr. Miðlun siðareglna.
Birting, umræður og endurskoðun.
Starfsmönnum og sjálfboðaliðum Blindrafélagsins, þar með talið stjórnar- og nefndarmönnum, eru kynntar þessar reglur í upphafi starfs síns fyrir félagið.
Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í stjórn Blindrafélagsins við upphaf kjörtímabils hverra stjórnar og endurskoðaðar ef þörf þykir á.
Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi Blindraféla