Nýr alþjóðafulltrúi og foreldraráðgjafi tekur til starfa hjá Blindrafélaginu

Í desember sl. auglýsti Blindrafélagið laus störf alþjóðafulltrúa og foreldrafulltrúa í 50% starfshlutfalli hvort. Síðara starfið er nýtt en því fyrra hefur Helena Björnsdóttir gengt en hún hefur látið af störfum af persónulegum ástæðum.

Nú hefur Inga Dóra Guðmundsdóttir verið ráðin í bæði störfin. Inga Dóra þekkir vel til málefna blindra og sjónskertra því hún er félagsmaður í Blindrafélaginu og móðir 8 ára blindrar stúlku. Hún er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og masterspróf (MA) í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Leiden í Hollandi. Inga Dóra hefur undanfarið verið búsett í Hollandi en undirbýr nú að flytja til Íslands. Hún mun taka við starfi alþjóðafulltrúa 1. febrúar n.k. Í júní verður hún komin í fullt starf sem alþjóðafulltrúi og foreldraráðgjafi.

Stjórn Blindrafélagsins er afar ánægð að fá þessa ungu konu til starfa og telur að menntun hennar í alþjóðasamskiptum og reynsla af þjónustu við blint barn heima og erlendis muni efla félagið í baráttunni fyrir betri þjónustu.

Inga Dóra er boðin velkomin til starfa.

Netfang Ingu Dóru er: inga@blind.is