Nafni Daufblindraféalgsins breytt í Fjóla, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

„Tillaga að breytingu á nafni Daufblindrafélags Íslands.
Lögð fram á framhaldsaðalfundi félagsins 3. júní 2011

Framhaldsaðalfundur Daufblindrafélags Íslands, haldinn að Hamrahlíð 17, 3. júní 2011, samþykkir að nafnið Daufblindrafélag Íslands verði aflagt og ekki notað meira. Fundurinn samþykkir að hér eftir skuli nafn félagsins vera,Fjóla – félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Nafnabreytingin tekur þegar gildi og skulu pappírar, bæklingar og annað efni er viðkemur félaginu, svo og lög þess, leiðrétt til samræmis við þessa samþykkt.

Reykjavík, 3. júní 2011”

 

Í samræmi við þessa samþykkt tilkynnist hér með að félagið ber nú nafnið Fjóla – félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Breytingar á nafni félagsins hafa verið til umræðu í mörg ár, en það er ekki fyrr en nú að menn eru tilbúnir og sáttir við að stíga skrefið.

Nafnið Daufblindrafélag Íslands þykir óhentugt og menn eru þess fullvissir að það hafði ákveðinn fælingarmátt sem olli því m.a. að félagsmönnum félagsins hefur lítið fjölgað frá stofnun þess árið 1994. Gamla nafnið ber það með sér að félagsmenn félagsins séu bæði blindir og heyrnarlausir, en nánast allir félagsmenn hafa sjón og heyrn og nýta sér hvor tveggja til gagns. Það er margsannað að fólk sem hefur sjón og heyrn, þó skert sé, er ekki tilbúið að ganga til liðs við félag sem ber svo villandi heiti.

Nafnið Fjóla er aftur á móti fallegt, jákvætt og mun, væntanlega í hugum flestra, tengjast blóminu sem er, þrátt fyrir að vera lítið og sýnast kannski veikbyggt, harðgert og verður ekki svo auðveldlega upprætt. Í því felast ákveðin dulin skilaboð um að félagsmenn Fjólu séu harðgert fólk sem stendur styrkum fótum hvað sem á bjátar. Nauðsynlegt er þó að hafa undirtitil í nafni félagsins, „félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu”, þannig að fólk átti sig á hverjir eiga aðild að Fjólu.

Í vinnslu er nýtt merki (logo) félagsins í samræmi við þessa nafnabreytingu svo og leiðréttingar á ýmsu öðru s.s. tölvupóstfangi og fleiru.