Misskilningur Mosfellsbæjar varðandi ferðaþjónustu við fatlaða einstaklinga

Í fréttum RUV í hádeginu í dag var fjallað um kæru Alexanders Hrakfellssonar á Mosfellsbæ vegna vanrækslu Mosfellsbæjar við að bjóða honum lögbundna ferðaþjónustu. Í fréttinni er talað við Unni V. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs hjá Mosfellsbæ. Hún segir að blindum sé ekki boðið upp á akstur með leigubifreiðum svo jafnræðis sé gætt í þjónustu við fólk með fötlun og sumum ekki boðin meiri þjónusta en öðrum.Unnur segir að reglur, sem bæjarstjórn hefur sett um ferðaþjónustu fyrir fatlaða eigi, sér stoð í lögum um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna sé að gera fólki sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar kleift að stunda vinnu og nám og njóta tómstunda. Ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk sé ígildi almenningsvagnaþjónustu. Rök sveitarfélagsins fyrir því að bjóða blindu fólki ekki upp á ferðaþjónustu á hærra þjónustustigi en annað fólk með fötlun fær, eru þau að gæta verði jafnræðis. Ekki eigi að mismuna fólki eftir því hvers eðlis fötlunin er.

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins hefur svarað málsvörn Mosfellsbæjar með eftirfarandi hætti: Það er með ólíkindum hvernig sveitarstjórnarfólki í bæði Mosfellsbæ og Kópavogi tekst að misskilja út á hvað þetta mál gengur. Það snýst ekki upp fötlunarhópa og að einhverjir hópar fá meira en aðrir hópar. Þetta mál snýst um einstaklinga, aðstæður þeirra og þarfir og að sveitarfélögum ber lagaleg skylda að útvega hverjum og einum ferðaþjónustu sem gerir viðkomandi kleyft að stunda vinnu, nám og sinna tómstundum. Til að það sé tryggt að markmið laga um að ferðaþjónustu við fatlaða einstaklinga sé uppfyllt þarf að uppfylla einstaklingsbundnar þarfir, en ekki einhverjar meðaltalsþarfir lítt skilgreindra hópa. Þarfir fatlaðs fólks eru ekki einsleitar og það er beinlínis rangt og niðurlægjandi að nálgast þarfir þeirra eins og um einsleitan hóp sé að ræða sem hægt er að afgreiða með einhverri lausn: "það sama fyrir alla".