Minnisblað um hagnað af atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra

Í liðinni viku hafði Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, samband við undirritaðan og bað Talnakönnun að taka saman minnisblað um þjóðhagslegan hag af þátttöku blindra og sjónskertra í atvinnulífinu. Í kjölfarið hittumst við ásamt formanni Blindrafélagsins og fórum yfir gögn um málið, en úttektin er gerð að frumkvæði stjórnar félagsins.

Gögn

Fyrir liggur ný könnun á atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra einstaklinga hér á landi sem sýnir mikla atvinnuþátttöku þessa hóps í alþjóðlegum samanburði. Könnunin er gerð af Þjónustu – og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Virkni blindra og sjónskertra einstaklinga á atvinnualdri 18 – 67 ára (Virkni blindra), er lögð til grundvallar útreikningunum sem heimild um atvinnuþátttöku og aldursdreifingu hópsins. Jafnframt koma þar fram gagnlegar upplýsingar um atvinnuþátttöku sambærilegra hópa í öðrum löndum. Einnig er höfð hliðsjón af skýrslu sem nefnist Avoidable Visual Impairment – A Human, Social, and Developmental Issue frá WHO, útg. 2007. Við áætlun launa er tekið mið af upplýsingum frá Ríkisskattstjóra um laun eftir aldri.

Atvinnuþátttaka sjónskertra í ýmsum löndum

Í skýrslunni um virkni blindra kemur fram: „Í Danmörku var atvinnuleysið 69%, Finnlandi 55%, Noregi 68%, Þýskalandi 72%, Króatíu 50%, Ungverjalandi 77% og Póllandi 70%. Atvinnuleysi á meðal blindra og sjónskertra Bandaríkjamanna hefur ævinlega verið mikið (Bell og Mino, 2013). Vinnumálastofnun Bandaríkjanna, The Bureau of Labor Statistics, safnaði saman tölum um stöðu blindra og sjónskertra á vinnumarkaði árið 2010. Samkvæmt þeim voru 38% blindra og sjónskertra á aldrinum 16-64 ára í vinnu, 13% voru atvinnulausir og 56% voru skilgreindir sem ekki á vinnumarkaði, það er, hvorki atvinnulaus né í vinnu. Árið 2012 var atvinnuþátttaka blindra og sjónskertra í Bandaríkjunum komin niður í 31% (American Foundation for the Blind, 2014).“

Í rannsókn Ólafíu K. Guðmundsdóttur frá árinu 2007 fyrir Blindrafélagið var könnuð staða félagsmanna Blindrafélagsins á aldrinum 18-67 ára, í atvinnu- og menntamálum. Alls fengust svör frá 127 manns og af þeim reyndust þá 63% vera í vinnu, 5,5% í námi og 31,5% heima.

Samkvæmt skýrslunni um virkni blindra voru það um 186 einstaklingar sem á atvinnualdri 18-67 ára árið 2013 og glímdu fyrst og fremst við sjónskerðingu eða blindu og nutu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar. Þar af voru 102 karlar og 84 konur. Byggt er á þessum hópi við útreikningana, þ.e. lögð er til grundvallar aldursskipting og atvinnuþátttaka þessa hóps og tekið mið af tekjum einstaklinga skv. upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Í skýrslunni kom eftirfarandi fram: Af fólki á aldrinum 18-67 ára voru 47,3% vera í vinnu, 13,3% í námi, 11,7% í annarri virkni, 12,2% í engri virkni, 2,1% voru skráð atvinnulaus og voru því í atvinnuleit og ekki var vitað um virkni 13,3% notenda.

Í ljós kom að virknin er mismunandi eftir aldri. Í yngsta aldurshópnum, 18 – 30 ára, voru 16% að vinna, hjá notendum á aldrinum 31 – 59 ára reyndust 57,9% vera í vinnu og hjá notendum á aldrinum 60-67 ára reyndust 35,7% vera í vinnu.

Útreikningar

Með því að skoða aldursdreifingu í hópi notenda (mynd 1 í skýrslunni um virkni sjónskertra) og tengja hana má áætla hverjar atvinnutekjur hefðu orðið miðað við að allur hópurinn hefði verið virkur og með meðaltekjur miðað við sinn aldurshóp (m.v. tekjur einstaklinga árið 2012). Þá fæst að ef allir hefðu verið virkir væri framlagið 532 milljónir króna á ári. Miðað við upplýsingar um atvinnuþátttöku eru tekjur þeirra sem vinna um 261 milljón króna á ári eða um 49%. Þetta er hærra hlutfall en miðað er við hlutfall þeirra sem eru í vinnu í hópnum öllum, sem kemur til af því að þeir sem eru í vinnu eru almennt eldri en hinir sem eru t.d. í námi og laun hærri á þeim aldri.

Berum þessa tölu saman við atvinnuþátttöku í öðrum löndum. Samkvæmt framansögðu virðist atvinnuþátttakan nær alls vera minni en hér á landi (nema í Króatíu þar sem hún er svipuð, ef marka má tölurnar), frá 23% (Ungverjaland) í 45% (Finnland). Algengt virðist að hlutfallið sé nálægt 30% (Þýskaland, Noregur, Danmörk , Bandaríkin). Ef miðað er við þá tölu sést að virknin hér á landi umfram þessi nágrannalönd sem virðast að mörgu leyti svipuð fæst að framlag Íslendinga í þessum hópi er um 101 milljón króna meira árlega en hjá hinum í hópnum.

Samkvæmt könnun sem gerð var í Ástralíu árið 2004 og vitnað er til í skýrslu WHO (bls. 5) er umönnunarkostnaður um blinda og sjónskertra um helmingur af töpuðu vinnuframlagi. Því má ætla að hér sparist um 50 milljónir árlega vegna meiri atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra.

Alls leiðir aukin atvinnuþátttaka þessa hóps hér á landi umfram það sem annars staðar er til um 150 milljóna króna meiri verðmæta en af því sem er í sambærilegum löndum. Heildarhagnaður samfélagsins af atvinnuþátttöku hópsins er um 800 milljónir króna á ári og dreifist á ríkið, gegnum aukna skatta og minni útgjalda, lífeyrissjóði, aðstandendur og einstaklingana sjálfa.

Niðurlag

Það er öllum mikils virði að vera virkur í þjóðfélaginu. Því er mikilvægt að blindir og sjónskertir hafi sem best tækifæri til þess að vinna og njóti til þess menntunar og endurhæfingar. Þeir sem vinna eða stunda nám eru mun ánægðari með stöðu sína en þeir sem óvirkir eru og eru heilbrigðari til sálar og líkama. Auk þessara gæða sem fylgja atvinnuþátttöku sýna framangreindir útreikningar að þjóðfélagið hefur beinan hag af henni í krónum og aurum reiknað.

Reykjavík, 14. nóv. 2014

Benedikt Jóhannesson, Ph.D.