Málsvörn bæjarstjóra Kópavogs svarað
Rök bæjarstjóra Kópavogs um að ekki megi mismuna eftir fötlunarhópum eru fráleit. Þau fela það í sér að það sé lögmætara fyrir stjórnvaldið að brjóta alltaf lög en að brjóta þau einungis stundum.
Með þessum rökum bæjarstjórans ættu allir sjúklingar að fá sömu lyfjameðferð óháð því hvaða sjúkdóm þeir væru með. Þetta er mikil afbökun á jafnræðisreglunni. Jafnræðisreglan felur það ekki í sér að allir séu alltaf alveg eins. Ef svo væri þá væri ólögmætt að vera með kalla og kvennaklefa í sundlaug Kópavogs. Jafnræðisreglan felur það í sér að sambærilegir aðila í sömu stöðu eigi að njóta sama réttar. Það rétta er því að allir fatlaðir sem eru eins settir eigi að búa við sama rétt.
Hið rétta er að Kópavogsbær sniðgengur lögboðnar skyldur sínar og slíkt getur aldrei verið lögmætt. Sveitastjórnum ber að taka mið af þörfum einstakling þegar verið er að veita þeim þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum um málefni fatlaðra – ef það væri ekki gert þá væri ómögulegt að ná markmiði laganna um að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við getu hvers og eins.
Þetta er í góðu samræmi við jafnræðisreglu íslensks réttar enda felur hún það ekki í sér að allir eigi alltaf að vera eins settir – þvert á móti felur hún það í sér að sambærilegar einstaklingar í samskonar stöðu eigi að vera eins settir.
Kjarni deilunnar
Kjarninn í deilu Blindrafélagsins og Kópavogsbæjar snýst ekki um leigubíla eða að blindir eigi að njóta betri ferðaþjónustu en aðrir, heldur um rétt fatlaðra einstaklinga til þjónustu sem tekur mið af persónulegum þörfum hvers einstaklings fyrir sig.
Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nú um áramót var lögfest að framkvæmd laga um málefni fatlaðra skyldi taka mið af samningnum. Marmið samningsins er meðal annars að „stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra". Í þriðju grein sáttmálans segir að meginreglur samningsins séu meðal annars „að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar" og „virðing fyrir því sjónarmiði að fatlað fólk sé ólíkt og viðurkennt í þeim skilningi að um mannlega f fjölbreytni og mannlegt eðli sé að ræða".
Í tuttugustu grein samningsins er svo fjallað um ferlimál einstaklinga og þar segir meðal annars: „Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi ."
Stjórnsýslukæran á Kópavog er tilkomin vegna þess að Kópavogsbær hefur hafnað því að veita 17 ára pilti, sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur sökum fötlunar, ferðaþjónustu sem tekur mið af persónulegum þörfum hans. Með þeirri ákvörðun sinni hefur Kópavogur gengið gegn ákvæðum 35 greinar laga um málefni fatlaðra og að minnsta kosti 20 greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, að mati Blindrafélagsins. Stjórnsýsla Kópavogs við málsmeðferðina er einnig ámælisverð að mati lögmanns Blindrafélagsins. Kópavogur braut þannig jafnræðisreglu, sinnti ekki nauðsynlegri rannsóknarskyldu og virti ekki andmælarétt.