Miðvikudaginn 30 janúar var fyrsti leiðsöghundur Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga formlega afhentur við hátíðlega athöfn á Patreksfirði að viðstöddum stórum hóp bæjarbúa. . Sebastían, sem er af Golden Retriever kyni hefur verið úthlutað til Fríðu Eyrúnar Sæmundsdóttur sem býr á Patreksfirði.
Sebastían er íslenskur hundur og var þjálfaður á Íslandi, ólíkt þeim leiðsöguhundum sem nú þegar eru í notkun. Mikil vinna felst í þjálfun leiðsöguhunda og hefur Sebastían verið í þjálfun hjá leiðsöguhundaþjálfara Miðstöðvarinnar undanfarið ár.
Óhætt er að segja að Sebastían muni hafa mikil áhrif á sjálfstæði Fríðu, en hún er einungis 38 ára gömul og missti sjónina nýlega af völdum sykursýki.
Miðstöðin hefur í samvinnu við Blindrafélagið unnið að þróunarverkefni með leiðsöguhunda, sem felst í kaupum og þjálfun á íslenskum hundum. Þörfin fyrir leiðsöguhunda er mikil og Sebastían er sjötti leiðsöguhundurinn sem verður í notkun á Íslandi núna en áætlað er að a.m.k. 16 hundar þurfi að vera í notkun á hverjum tíma til að uppfylla þörfina fyrir leiðsöguhunda.
Blindrafélagið hefur staðið dyggilega á bak við verkefnið með fjáröflun, m.a. með sölu dagatala en allar myndir í dagatalinu eru af núverandi leiðsöguhundum, unghundum í þjálfun og hvolpum sem keyptir hafa verið í verkefnið.