Dómsmálaráðuneytið hefur gengið frá fyrirkomulagi fyrir blinda og sjónskerta þess efnis að þeir geti haft sína eigin aðstoðarmenn í kosningum til stjórnlagaþings á laugardag.
Blindir og sjónskertir töldu mannréttindi sín brotin í kosningum til stjórnlagaþings þar sem þeim væri ekki gert kleift að fylla út kjörseðilinn sjálfstætt. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum okkar í gær þetta tæknilega örðugleika og ætlaði að koma til móts við kröfur þeirra. Nú virðist lausn vera fundin því gengið hefur verið frá fyrirkomulagi þannig að blindir og sjónskertir geti greitt atkvæði í kosningunum til stjórnlagaþings á laugardag án þess að fulltrúi kjörstjórnar verði með inni í kjörklefanum. Þeir velja sjálfir sinn aðstoðarmann.
Langar biðraðir mynduðust í Laugardalshöll í kvöld þar sem hægt var að kjósa utankjörfundar til klukkan 22 í kvöld. Þar verður einnig hægt að kjósa á milli klukkan 10 og 12 í fyrramálið en ekki eftir það eins og kjósendur hafa áður vanist. Á tíunda tímanum í kvöld höfðu ríflega 14 þúsund manns höfðu kosið utan kjörfundar á landinu öllu.