Frétt af Mbl.is
Hljóðbókamarkaðurinn stækkar
Eftir Ásgeir H. Ingólfsson asgeirhi@mbl.is
Hljóðbókaútgáfa á Íslandi er lítill en ört stækkandi markaður. Stór hluti hljóðbóka sem framleiddar eru fer þó aldrei á almennan markað og eru sumar aðeins fáanlegar til útláns hjá Blindrabókasafninu eða í gegnum Námsgagnastofnun fyrir nemendur með lestrarörðugleika.
Hljóðbók.is varð til í kjölfar þess að hljóðbókaklúbbur Blindrafélagsins hætti störfum og nú hefur Hljóðbók.is keypt réttinn að útgáfu Blindrafélagsins. "Nú er meiningin að færa allar þessar bækur yfir á geisladiska og gefa út, eftir því sem samningar nást við höfunda," segir Gísli Helgason hjá Hljóðbók.is. Þetta voru aðallega skáldsögur og þá voru Íslendingasögurnar stór hluti útgáfunnar og framhald verður á því.
Það er misjafnt hverja samið er við. "Yfirleitt semjum við beint við höfunda, stundum við útgáfurnar, það fer eftir því hvernig útgáfurétturinn er. Við höfum átt mjög gott samstarf við flest forlög en stærri forlögin hafa þó verið frekar treg til."
Gísli segir að hljóðbækur verði alltaf hlutfallslega dýrari í framleiðslu sökum smæðar markaðarins en þó að titlar séu fáir séu notendur hljóðbóka fjölbreyttur hópur. "Blindir og sjónskertir eru hverfandi lítill kaupendahópur, ég held það sé yfir 99,5 fullsjáandi fólk sem kaupir þær."
Lesarar eru ýmist höfundar eða leikarar, en oftast hafa þau samráð við höfunda og þýðendur um hverjir lesa. Það er þó lítið brot jólabókaflóðsins sem ratar á hljóðbækur. "Enn er hægt að telja þá titla sem koma út hvert haust á fingrum beggja handa," segir Gísli. "Við stöndum í þessu sjálf og greiðum allan kostnað og höfum fengið frekar litla styrki í þetta enn sem komið er." En hefur komið til greina að kaupa efni sem Blindrabókasafnið hefur unnið? "Blindrabókasafnið er fyrst og fremst framleiðslufyrirtæki og á ríkisfjárlögum sem slíkt og því væri slíkt brot á samkeppnislögum. En gæði á hljóðritunum blindrabókasafnsins eru þannig að þær standast ekki almennar markaðskröfur."
Bannað að gefa út
Blindrabókasafnið framleiðir mikið af hljóðbókum en aðeins til útláns. "Við erum með samning við Rithöfundasambandið þess efnis að það megi breyta bókum í annað form ef það er fyrir þennan hóp, það eru forsendurnar fyrir því að safnið sé til," segir Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður safnsins. En Blindrabókasafnið gaf þó út bækur áður fyrr. "Hér var hljóðbókaútgáfa sem hét Orð í eyra, þar voru búnar til bækur og seldar á almennum markaði. En keppinautur úti í bæ kærði safnið með þeim rökum að það væri raunverulega verið að nýta ríkispeninga inni á safninu til að framleiða eitthvað fyrir almennan markað, okkur var bara settur stóllinn fyrir dyrnar þannig að við getum ekki nýtt þetta sem tekjulind." Fyrir síðustu jól gaf Forlagið út fimm hljóðbækur í samvinnu við Blindrabókasafnið þar sem Forlagið nýtti sér aðstöðu safnsins til upplestrar. "Við gerðum samstarfssamning, þeir gáfu út bækurnar en við deildum hagnaðinum." Óvíst er þó um framhaldið, bæði vegna nýs úrskurðar samkeppniseftirlitsins og eins vegna þess að salan stóðst ekki þær væntingar sem Forlagið hafði.
Grein