Heljarmennafélagið á Hvannadalshnjúk

 

Löng hefð er komin á Hvítasunnuferðir á Hvannadalshnúk og kom því ekki á óvart hversu fjölmennt var á Öræfajökli á sjálfan Hvítasunnudaginn. Þar voru 11 leiðsögumenn á vegum Fjallaleiðsögumanna með fólk á sínum snærum og talsverður hópur frá FÍ auk annarra. Veðurspáin hafði gert ráð fyrir sæmilegasta veðri þennan dag en augljóst er að ekki má treysta um of á spár fyrir Öræfajökul sem virðist láta sig slík fyrirbæri engu varða og stjórnar sjálfur sínu veðri. Sæmilegasta veður var þó alveg upp í uþb 1100 m hæð en eftir það hvelfdist hrímþoka og síðar snjókoma yfir göngufólkið og útsýn var lítil sem engin, í besta falli inn á við. Með Fjallaleiðsöjúkgumönnum í för var sterkur hópur frá Blindrafélaginu á snærum tveggja leiðsögumanna. Í hópnum voru tveir lögblindir einstaklingar og er þetta að því að best er vitað í fyrsta skiptið sem lögblint fólk nær toppi Hvannadalshnúks. Ferðin gekk frábærlega í alla staði þrátt fyrir mjög þungt færi. Þegar komið var að rótum Hnúksins voru aðstæður óhagstæðar, rok og snjókoma og mjög takmarkað skyggni sem bætist við það það sem allir þurfa að glíma við sem halda á Hnúkinn að yfir erfitt, bratt og sprungið svæði er að fara. Þegar hópurinn var að undirbúa uppgönguna í rokinu og velta fyrir sér aðstæðunum í slæmu skyggninu, sagði einn lögblindu ferðafélaganna að skyggnið væri bara eins og vanalega og bætti svo við „welcome to my world“ áður en hann bauðst til að leiða hópinn í óvissuferð um jökulinn. Toppnum var náð í takmörkuðu skyggni, en upplifunin og sigurvíman var þeim mun sterkari.
Hópurinn stóð sig einstaklega vel og sérstaklega var eftirminnilegt hversu góð samvinnan í hópnum var og hversu hópurinn tókst á við alla erfiðleika með bros á vör.

Tengill inn á fréttina.