Fyrirspurn á Alþingi um menntunarmál blindra og sjónskertra nemenda

Fram kom í máli Helga að þrjú ár væru nú liðin frá því starfshópur á vegum Menntamálaráðuneytisins skilaði tillögum til úrbóta og þar væri m.a. að finna tillögu um stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar.

í svari ráðherra kom fram að mikill vilji væri innan ráðuneytisins til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir vegna skorts á úrræðum í menntakerfinu fyrir blind og alvarlega sjónskert börn. Ráðherra upplýsti að þessa dagana væri verið að setja á laggirnar framkvæmdahóp sem hefði það að markmiði að vinna að úrbótum í samræmi við þær tillögur sem fram komu í skýrslu breskra sérfræðinga og kynnt var fyrir skömmu.
Ein af tillögunum er sú að sett verði á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð sem hefði það hlutverk að veita skólum og einstökum kennurum faglega aðstoð og kennslu um þjónustu við blinda og sjónskerta nemendur.
Í framkvæmdahópnum eiga sæti fulltrúar Menntamála-, Heilbrigðis- og Félagsmálaráðuneytis, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi Reykjavíkurborgar og Blindrafélagsins.

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna tóku til máls og hvöttu stjórnvöld til aðgerða sem allra fyrst.
Í seinna svari sínu hnykkti ráðherra enn betur á því að markmið framkvæmdahópsins ætti að vera að koma umræddri ráðgjafar- og þekkingarmiðstöð á fót.