Fundargerð stjórnar nr. 9. 2008-2009

9. Stjórnarfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

Fimmtudaginn 5. febrúar 2009.

Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður , Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) meðstjórnandi, Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.

Í símanum frá Akureyri: Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri

Fundarsetning

KHE setti fundinn kl. 16:40 og bauð alla velkomna á fundinn.

Fundargerðir síðustu funda

Fundargerð 8. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.

Bréf

Bréf hefur borist frá ungmennasamtökum norsku blindrasamtakanna þar sem félaginu er boðið er að senda 2 áheyrnarfulltrúa á þing samtakanna 3. – 5. apríl í Noregi. Samþykkt að vísa erindinu til Ungblind.

NSK fundur – Næsti NSK fundur verður haldinn í Hurdal í Noregi dagana 9. – 10. Mars. Samþykkt að KHE og ÓH fari yfir dagskrá fundarins og ákveði hverjir sæki hann fyrir hönd félagsins.

Bréf frá Íþróttafélagi fatlaðra dags. 27. jan. 2009 þar sem sótt er um styrk til Blindrafélagsins að upphæð kr. 45.000. Styrkurinn er ætlaður til að greiða laun eins hjálparmanns við sumarbúðir ÍF. Samþykkt samhljóða að veita ÍF umbeðinn styrk.

3. nýir félagsmenn í desember 2008 og janúar 2009 voru samþykktir samhljóða og boðnir velkomnir í félagið. Vottorð frá Sjónstöð Íslands liggja fyrir

Styrkumsókn vegna náms í Hringsjá og einkaþjálfun hefur borist frá utanfélagsmanni. Félagið styrkir ekki utanfélagsmenn til slíkra verkefna og er umsókninni því hafnað.

Skýrslur

Skýrsla formanns

Formaður lagði fram skriflega skýrslu. Engar athugasemdir voru gerðar.

Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn.

Stutt umræða var um einstök atriði, m.a. sölu smá hjálpartækja

Blindraletur og staða þess á Íslandi

ÁEG hóf umræðuna og sagði frá vandamálum sem tengd væru íslenskri stöðlun á blindraletrinu. Ekki væri ljóst hver ætti að sjá um slíka stöðlun. Allmikil umræða var um málið og samþykkt var að ræða það við ÞÞM og athuga hvort þau gætu haft forræði í slíkri stöðlun. Einnig þarf að athuga hvort menntamálaráðuneytið muni taka þátt í því starfi.

ÓH lagði fram tillögu um að keyptur væri nýr blindraletursprentari fyrir skrifstofuna. Komið hefur í ljós að ekki er hægt að nettengja núverandi prentara og hefur Örtækni boðist til að taka hann upp í nýja gerð af Everest nettengjanlegum prentara. Kaupverð er um 700 þús kr. Samþykkt samhljóða að kaupa slíkan prentara og reyna að fá einhverja til að styrkja þau kaup.

Einnig var rætt um þann möguleika að Blindrafélagið biði opinberum aðilum og öðrum upp á blindraletursþjónustu gegn gjaldi. Engin samþykkt gerð í málinu.

Útgáfumál

KHE leggur til að gefið verið út eitt blað á árinu (Blindrasýn) og það látið tengjast 70 ára afmæli félagsins í ágúst n.k. Nokkrar umræður urðu um tillöguna sem síðan var samþykkt samhljóða.

Að því loknu voru lagðar fram nokkrar spurningar til umhugsunar:

Hver eiga efnistökin að vera?

Hver á að verða ritstjóri?

Samþykkt að leggja fram tillögu á næsta stjórnarfundi um ritnefnd og val á ritstjóra.

KHE minnti á að nú styttist í að gefa eigi út mastersritgerð Helgu Einarsdóttur sem er eitt að verkefnum tengdum afmæli félagsins. Samþykkt var samhljóða að leggja mætti í verkefnið allt að 500 þús kr. og greiða þá upphæð úr Verkefnasjóði félagsins.

Húsnæðismál

KHE hóf umræðuna og sagði ljóst vera að húsnæði í Hamrahlíð 17. muni verða laust á næstu mánuðum eða misserum, þ.e. þegar ÞÞM (áður Sjónstöð) flytur úr húsinu. Ræddir voru ýmsir möguleikar um nýtingu húsnæðisins.

Önnur mál

ÁEG spurði hvort nýr forstjóri hafi verið ráðin fyrir ÞÞM og fékk þau svör að það hafi ekki verið gert svo vitað sé. Nokkrar umræður sköpuðust um stöðuveitinguna og voru menn sammála að það skipti félagsmenn miklu máli að aðili með góða menntun og þekkingu á málaflokknum yrði ráðin. Engin samþykkt var gerð varðandi málið.

Engin önnur mál voru rædd.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.

Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson