8. Stjórnarfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Fimmtudaginn 15. Janúar 2009
Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari, Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) meðstjórnandi, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður, Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.
Forföll boðaði: Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður
Fundarsetning
KHE setti fundinn kl. 16:35 og bauð alla velkomna á fundinn.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 7. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.
Bréf
Bréf frá Félags- og tryggingarmálaráðuneytinu dags. 7. jan. 2009 þar sem Blindrafélaginu er boðið að tilnefna einn aðalmann og einn varamann í samráðsnefnd sem á að vera ráðherra og forstöðumanni Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga til ráðgjafar um fagleg málefni og gjaldtöku.
Samþykkt samhljóða að tilnefna KHE sem aðalmann og ÁEG sem varamann.
Snemma í desember barst skemmtilegt bréf frá einum félagsmanna þar sem kvartað er fyrir því að jólahlaðborð félagsins hafi verið blásið af ótímabært og með of stuttum fyrirvara. Í stuttum umræðum um bréfið, kom fram að þetta tiltekna mál leystist farsællega með því að bjóða upp á jólamat í opnu húsi. Rætt var um að skemmtanir og uppákomur á vegum félagsins þyrfti að skipuleggja þannig að vitað væri fyrirfram hver lágmarks þátttaka þyrfti að vera til að auglýst skemmtun væri haldin.
Bréf dags. 30.12.2008 frá formanni SÍBS þar sem óskað er eftir viðræðum við Blindrafélagið og ÖBÍ um sameiningu vinnustaða samtakanna.
KHE segir að málið hafi þegar verið reifað milli þessara þriggja félaga og full alvara hafi verið í þeim viðræðum.
HSG tók næst til máls og segir að vinnustaðirnir séu allir svipaðir á stærð og veltutölur áþekkar. Hinsvegar sé eigið fé þeirra misjafnt.
Aðrir stjórnarmenn sem tóku til máls, þóttu eðlilegt að farið verði í viðræðurnar af fullri alvöru. Því næst var samþykkt samhljóða að taka þátt við viðræðunum og skyldi KHE leiða þær fyrir hönd félagsins.
Skýrslur
Skýrsla formanns.
Formaður lagði fram skriflega skýrslu. Engar athugasemdir voru gerðar.
Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn.
Stutt umræða var um einstök atriði en engar athugasemdir voru gerðar.
Fjárhagsáætlun Blindrafélagsins 2009
Drög af fjárhagsáætluninni voru send stjórnarmönnum viku fyrir fundinn og höfðu þeir því haft tækifæri til að kynna sér hana vel.
Formaður tók fyrstur til máls og bað framkvæmdastjóra að fara yfir helstu tölur í áætluninni. ÓH fór síðan yfir hana og skýrði helstu tölur og niðurstöður. Gert er ráð fyrir að starfsmannahald breytist ekki umfram það sem þegar hefur verið ákveðið og launakostnaður hækki einungis um samningsbundnar breytingar. Gert er ráð fyrir að annar rekstrarkostnaður lækki um 7% á árinu. Munar þar mestu um lækkun á ýmsum liðum vegna sérstakra verkefna, erlendra samskipta og útgáfumála. Gert er ráð fyrir að heildartekjur lækki um tæp 5% í krónum talið milli ára. Þar munar helst um að tekjur vegna fjáraflana eru almennt áætlaðar minni en á síðasta ári. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir 5,3 milljóna tapi á rekstri félagsins á árinu 2009. Eftir nokkrar umræður var áætlunin samþykkt samhljóða. Einnig var samþykkt að taka hana til endurskoðunar síðar á árinu ef sýnt væri að tekjur minnkuðu meira en nú er áætlað.
Styrkbeiðnir
Fyrir fundinum lá styrkbeiðni frá Ungblind vegna norrænna sumarbúða sem eiga að haldast á Íslandi í júní n.k. Styrkbeiðninni fylgdi fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir að hægt verði að fá styrki frá ungmennaprógrammi Evrópusambandsins og öðrum aðilum. Eftir nokkrar umræður var samþykkt að Blindrafélagið leggi í verkefnið allt að kr. 500.000. Einnig var samþykkt að verkefninu skuli stýrt frá skrifstofu félagsins og fjárreiður í verði í höndum hennar.
Styrkbeiðni hefur borist frá Einari Lee þar sem hann biður um 200.000 kr. til að sækja sýningu og ráðstefnu um hjálpartæki í Los Angeles sem haldin verður í mars n.k. Eftir nokkrar umræður var samþykkt að verða við beiðninni með því skilyrði að styrkþegi skili skriflegri skýrslu til félagsins um ferðina ásamt því að koma á fund með tæknihópi félagsins og gera honum grein fyrir ferðinni.
Blindraletur og staða þess á Íslandi
Umræðu um þennan lið frestað vegna fjarveru varaformanns.
Önnur mál
Hjálpartækjasjóður – Samþykkt að leggja fyrir næsta stjórnarfund skipulagsskrá fyrir hjálpartækjasjóð í samræmi við niðurstöður vinnuhóps um málið.
HSG varpar fram þeirri hugmynd að Blindrafélagið leggi fram peninga sem verði notaðir til að greiða vinnuferðir til útlanda fyrir starfsfólk Þekkingar- og þjónustumiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra. Hann stingur upp á að Verkefnissjóður félagsins leggi fram eina milljón króna gegn því að Blindravinafélagið leggi fram samsvarandi upphæð. Samþykkt að formaður og framkvæmdastjóri skoði þetta mál.
Afmælisnefnd – HSG vill hætta sem formaður nefndarinnar og leggur til að stjórn félagsins taki að sér störf nefndarinnar. Tillagan samþykkt.
KS – varpar fram þeirri hugmynd að gefin verði út sérstakur minjagripur vegna 70 ára afmælis félagsins á þessu ári.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson