Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS) ritari, Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ) meðstjórnandi, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður, Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður, Patrekur Andrés Axelsson (PAA) varamaður, María Hauksdóttir (MH) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Forföll: Rósa María Hjörvar (RMH) gjaldkeri.
1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.
Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna. Tillaga að dagskrá var samþykkt.
Lýst eftir öðrum málum:
MH – talstöðvar.
LS – Aðgengi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 1. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum, var samþykkt.
4. Skýrslur
Í munnlegri skýrslu formanns var fjallað um:
Opið hús á laugardegi.
Þátttöku fulltrúar félagsins á NSK, NKK og NUK fundi.
Viðtal við formann í Skessuhorni.
Fyrirhugaða heimsókn til Suðurlandsdeildar.
Fund með Rauða krossinum vegna flóttamannafjölskyldu þar sem heimilisfaðirinn er alblindur. En þau munu vera í þjálfunaríbúð félagsins fram í júní og njóta þjónustu ÞÞM.
EL bað um að fært yrði til bókar að hún væri mjög stolt af Blindrafélaginu fyrir að taka að sér að liðsinna flóttafólki.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
Úthlutun styrkja úr styrktarsjóðnum Stuðningur til sjálfstæðis.
Ferðaþjónustusamningur við Mosfellsbæ.
Fund með fulltrúum Innanríkisráðuneytisins vegna fyrirhugaðra forsetakosninga.
Zenter appið.
Hundagerði.
Stjórn félagsins staðfesti úthlutun STS. HSG sagði frá því að stjórn STS hefði hug á að endurskoða úthlutunarreglur STS og leggja fyrir stjórn Blindrafélagsins.
5. Bréf og erindi.
Stjórn Stuðning til sjálfstæðis vísaði styrkumsókn Kristínar Gunnarsdóttur til stjórnar Blindrafélagsins. Kristín sótti um 170 þúsund króna styrk til að taka þátt í verkefni með sænskum samtökum Vision For All sem útdeila notuðum gleraugum til fátæks fólks sem á þeim þarf að halda. Verkefnið sem Kristín sækir um styrk til þátttöku í er í Suður Ameríku í fátækum fiskiþorpum í Chile og Páskaeyju. Styrkumsóknin var samþykkt samhljóða.
Boð á aðalfund Öldrunarráðs Íslands 29. apríl. Blindrafélagið á einn fulltrúa. Samþykkt að bjóða Ólafi Þór Jónssyni að verða fulltrúi Blindrafélagsins. Formaður tekur að sér að tala við Ólaf.
ÖBÍ óskar eftir tilnefningu í notendaráð fatlaðra í Mosfellsbæ. Formaður gerði tillögu um að félagið tilnefndi Sigurð G. Tómasson til ÖBÍ og var það samþykkt.
6. Stefnu-Mót.
Formaður gerði grein fyrir tillögu um samstarf við Sigurborgu Ragnarsdóttur sem rekur ráðgjafarfyrirtækið Ildi um að hún taki að sér að halda utan um samráðsfundi félagsins um þá vinnu sem aðalfundur félagsins fól stjórn að setja í gang. Hugmyndir að fundarformum auk kostnaðaráætlunar var send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Kostnaðaráætlun fyrir undirbúning, utanumhald og frágang eins fundar er upp á 556 þúsund krónur. Stefnt væri að því að fundurinn verði haldinn fyrir sumarið.
Umræður sköpuðust um mikilvægi þess að félagsmönnum utan af landi verði gefinn kostur á þátttöku í þessu starfi og að niðurstöðurnar verði vel kynntar.
Samþykkt var að ganga til samstarfs við Sigurborgu og stefna að því að halda fundinn laugardaginn 4. júní.
7. Útgáfumál (vefur, víðsjá, valdar greinar)
Formaður opnaði umræðuna og spurði hvort að samnýta mætti betur efni á milli miðlanna og óskaði eftir sjónarmiðum stjórnarmanna. Í umræðum voru eftirfarandi atriði nefnd:
Uppfærslu á vef Blindrafélagsins.
Að miðlar félagsins og samskipti við félagsmenn eru einnig í gegnum vefvarpið, Facebókar síðu félagsins, YouTube, blindlist, tölvupóstar.
Efni og efnistök á milli miðla eru mismunandi.
Setja saman ritstjórnarhóp.
Vera með útgáfustjóra.
Vera með ritstjórnar og dreifingarstefnu fyrir hvern miðil.
Samþykkt að stofna vinnuhóp um málið með formanni, BSS, RMH, Gísla Helgasyni og KHE.
8. Rafræn aðgengismál.
Formaður opnaði umræðuna og fór vítt og breytt yfir sviðið og spurði hvernig félagið gæti best unnið að bættu aðgengi á netinu.
BSS fór yfir hvað félagið er að gera í dag og hvaða verkefni væru fyrirsjáanleg og hver aðkoma félagsins gæti verið að þeim. Hann gerði að tillögu sinni að boðað yrði til fundar með áhugamönnum og sérfræðingum félagsins til að kortleggja stöðuna og leggja drög að stefnumótun fyrir aðkomu félagsins að þessum málum.
Umræður sköpuðust um flækjustig þessara mála og hver næstu skref gætu og ættu að vera.
Samþykkt var að boða til fundar þar sem kallað verði eftir viðhorfum félagsmanna og sérfræðinga um hvaða áherslur Blindrafélagið ætti að leggja í málaflokknum. Í framhaldi af því yrði sett í gang stefnumótunarvinna í málaflokknum.
9. Jafningjastuðningur og trúnaðarmannakerfið.
Formaður reifaði hugmyndir um hvort ekki mætti byggja upp skipulagðan jafningjastuðning innan félagsins, tengt eða ótengt trúnaðarmannakerfinu.
Vel var tekið í hugmyndina af stjórnamönnum og í umræðu var ýmislegt nefnt til sögunnar sem gera mætti í þessum efnum.
Ákveðið var að halda þessari umræðu áfram.
10. Önnur mál.
MH kynnti mini talstöðvar sem hún hefur notað í skíðagönguferðum í Finnlandi sem hún sagði virka mjög vel fyrir blinda einstaklinga sem eru að notast við leiðsögumann. Einnig kynnti hún yfirvesti með blindramerkingu til notkunar i útivist. Rætt var hvort að þetta væru vörur sem ættu að vera í boði í hjálpartækjaverslun Blindrafélagsins.
LS gerði að umtalsefni slæma þjónustu við blinda og sjónskerta á Keflavíkurflugvelli og hvort félagið ætti að bregðast við með því að gera athugasemdir við Samgöngustofu. Formaður mun vera í sambandi við Isavia vegna málsins.
Fundi slitið kl. 18:10
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.