Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG), Sigþór U Hallfreðsson (SUH), Arnheiður Björnsdóttir (AB), Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.
Fundarsetning
Formaður setti fundinn kl. 16:35 og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar.
Fundargerð 1. stjórnarfundar
Fundargerðin var samþykkt samhljóða án athugasemda.
Bréf
Engin bréf lágu fyrir fundinum.
Skýrslur
Skrifleg skýrsla formanns var send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Farið var lauslega yfir fyrirhugað afmælishóf en engar athugasemdir gerðar.
Skrifleg skýrsla framkvæmdastjóra var send út fyrir fundinn. Stutt umræða var um vorhappdrætti félagsins og voru stjórnarmenn ánægðir með útkomuna úr happdrættinu.
Samþykkt að félagið greiði skjólagjöld formanns hjá Endurmenntun HÍ í leiðtogaþjálfum og verkefnastjórnun, kr. 450.000.
70 ára afmælishátíð félagsins
Hátíðardagskrá.
Formaður lagði fram drög af dagskránni sem haldin verður á Hilton Nordica Hótel. HSG taldi vænlegt að hafa dagskrána létta í sniðum. Að öðru leiti voru dagskrárdrögin samþykkt og formanni falið að vinna áfram samkvæmt þeim.
Samfélagslampinn
Í samræmi við ákvörðun stjórnar á 1. stjórnarfundi verður Samfélagslampi félagsins veittur í fyrsta skipti á afmælishátíðinni. Borgarstjórinn í Reykjavík mun veita lampanum viðtöku fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri fyrir hönd verslana Bónuss.
Gulllampinn
Tillaga var lögð fram um að eftirtaldir aðilar verði sæmdir Gulllampa Blindrafélagsins á afmælishátíðinni:
Arnþór Helgason,
Dóra Hannesdóttir,
Elínborg Lárusdóttir,
Gísli Helgason,
Svavar Þorvaldsson.
Allir viðstaddir stjórnarmenn samþykktu tillöguna. Formaður upplýsti einnig að fjarstaddir stjórnar- og varastjórnarmenn hefðu samþykkt fyrir sitt leiti að ofangreindum aðilum yrði veittur lampinn. Ákvæði 19. greinar laga félagsins um þetta efni er því fullnægt.
Formaður lagði þvínæst fram eftirfarandi rökstuðning fyrir veitingunni sem var samþykktur samhljóða:
Svavar Þorvaldsson
Svavar Þorvaldsson hóf störf fyrir Bindaravinnustofuna í október árið 1966 í sölu og dreifingu og hefur hann starfað fyrir vinnustofuna allar götur síðan eða í 43 ár. Vinnusamband Svavar og Blindravinnustofunnar hefur ýmist verið launþega- eða verktakasamband. Árið 2002 stofnaði Svavar ásamt fjölskyldu sinni fyrirtækið Sala og Þjónusta og hefur það eingöngu þjónustað Blindravinnustofuna frá þeim tíma og gerir enn. Trúmennska Svavars við hagsmuni Blindravinnustofunnar er, og hefur verið, einstök í bráðum hálfa öld.
Með því að veita Svavari Þorvaldssyni gulllampa Blindrafélagsins, vill stjórn félagsins sína þakklætisvott sinn í garð Svavars og fjölskyldu hans fyrir að hafa skarað framúr í trúmennsku og vel unnum störfum í þágu blindra og sjónskertra á Íslandi með störfum sínum fyrir Blindravinnustofuna.
Elínborg Lárusdóttir
Elínborg hóf störf sem blindraráðgjafi hjá Blindrafélaginu í júlí árið 1973, sem fyrsti sérmenntaði ráðgjafinn fyrir blinda. Elínborg starfaði síðar hjá Sjónstöðinni fram að þeim tíma að Þjónustu og þekkingarmiðstöðin leysti hana af hólmi nú um áramót og starfar þar sem félagsráðgjafi í dag. Elínborg hefur um margt verið brautryðjandi í þjónustu og ráðgjöf við blinda og sjónskerta einstaklinga. Hún náði á fyrstu starfsárum sínum til fleiri blindra og sjónskertra en áður hafði verið gert og hefur opnað dyr að bættum lífgæðum fyrir fjöldann allan af blindum og sjónskertum einstaklingum. Elínborg er ennþá mikill eldhugi í baráttunni fyrir bættum hagsmunum blindra og sjónskertra.
Með því að veita Elínborgu Lárusdóttur Gulllampa Blindrafélagsins, vill stjórn félagsins sýna þakklætisvott sinn í garð Elínborgar fyrir að hafa skarað framúr í að ryðja brautina í ráðgjöf og þjónustu fyrir blinda og sjónskertra einstaklinga og þá trúmennsku sem hún hefur sýnt málefnum blindra og sjónskertra á Íslandi.
Dóra Hannesdóttir
Dóra hóf störf fyrir Blindrafélagið í september árið 1974 og starfaði fyrir félagið til marsloka 1999. Á þeim tíma sem Dóra starfaði fyrir félagið gekk hún í fjölmörg störf sem sjálfboðaliði og vann oft langt umfram vinnuskyldu sína. Allt þetta gerði Dóra af mikilli gleði svo eftir var tekið af félagmönnum og hefur hún og er enn í miklum metum meðal félagsmanna. Eftir að Dóra lét af störfum fyrir Blindrafélagið hefur hún haldið áfram að gefa kost á sér til hinna ýmsu starfa fyrir Blindrafélagið, fjölmörgum félagsmönnum til mikillar gleði.
Með því að veita Dóru Hannesdóttur Gulllampa Blindrafélagsins, vill stjórn félagsins sína þakklætisvott sinn í garð Dóru fyrir að hafa skarað framúr við að sinna af mikilli óeigingirni og af jákvæðum hug, dýrmætu starfi í þágu blindra og sjónskertra á Íslandi.
Arnþór Helgason
Arnþór Helgason hefur frá unga aldri látið sig málefni blindra sig miklu varða og á sama tíma verið um langt skeið mjög virkur í réttindabaráttu fatlaðra og meðal annars verið þar í fremstu línu.
Arnþór hefur afþakkað að veita Gulllampanum viðtöku.
Gísli Helgason
Gísli Helgason hefur frá unga aldri látið til sín taka í mörgum málum sem snúa að hagsmunamálum blindra og sjónskertra á Íslandi og verið áberandi, sjálfstæður og virkur í þjóðlífinu. Gísli hefur lengi starfað að hljóðbókargerð ásamt því að hafa gegnt forystustörfum fyrir Blindrafélagið. Gísli hefur að mörgu leiti verið frumherji í að auka útbreiðslu hljóðbóka hér á landi.
Gísli hefur afþakkað að veita Gulllampanum viðtöku.
Kynningarbæklingar
Í upphafi dreifði formaður sýnishorni af nýjum kynningarbæklingi fyrir Blindrafélagið sem er í vinnslu og mun verða tilbúinn fyrir afmælishátíð félagsins. Stjórnarmenn sem tóku til máls voru sammála um útlit og efnistök í þessum nýja bæklingi. Einnig er stefnt að því að gefa út fleiri bæklinga á næstu mánuðum og misserum. Þar má nefna bæklinga um eftirtalin atriði:
Bækling fyrir almenning
Bækling fyrir styrktarfélaga
Bækling fyrir félagsmenn
Bækling foreldra og fjölskyldur blindra og sjónskertra barna.
Gestalisti afmælishátíðar.
Ákveðið var að senda boðsbréf til allra félagsmanna, alþingismanna og ýmissa annarra gesta úr stjórnsýslunni, velunnara, gamalla starfsmanna og fl. Heiðursgestur hátíðarinnar verður félagsmálaráðherra. Ákveðið var að bjóða ekki gestum erlendis frá. Boðsbréf verða send út til um 700 manns.
NSK ráðstefnan í Almåsa í Svíþjóð, 23 – 27. Ágúst.
Formaður lagði fram lista um þátttakendur í NSK ráðstefnunni sem haldinn verður í Svíþjóð í ágúst. Samþykkt var að formaður og framkvæmdastjóri tækju endanlega ákvörðum um hverjir yrðu fulltrúar félagsins á ráðstefnunni. Á undan ráðstefnunni verður haldinn NSK fundur sem formaður og framkvæmdastjóri munu sækja. Einnig verður haldinn á sama tíma NKK fundur sem 2 konur úr hópi ráðstefnufulltrúa munu sækja.
Önnur mál
KS sagði frá óánægju sem hún hefur heyrt vegna sumarlokunar mötuneytisins í rúmar 8 vikur. Engin samþykkt gerð vegna málsins.
ÓH leggur til að auglýst verði starf ritstjóra Valdra greina meðal félagsmanna. Tillagan samþykkt.
HSG upplýsir að hann eigi erfitt með að lesa texta á blaði þar sem prentað er ofaní með punktaletri á sömu síðu. Þetta verði athugað þegar afmælisborðskort verður prentað.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19:00
Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson