Fundargerð stjórnar nr. 13. 2008-2009

13. Stjórnarfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

Fimmtudaginn 16. apríl 2009

Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður, Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri, Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.

Fundarsetning

KHE setti fundinn kl. 16:35 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 12. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.

Bréf

Engin bréf lágu fyrir fundinum

Skýrslur

Skýrsla formanns

Skýrsla formanns var send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar

Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar.

Leiðsöguhundaverkefnið

Formaður lagði fram minnispunkta vegna leiðsöguhundaverkefnis Blindrafélagsins og Heilbrigðisráðuneytis sem hann lagði fram á fundi með heilbrigðisráðherra 8. apríl s.l. Þar er sett fram tillaga um að verkefnið sem átti að taka til 5 hunda, verði einungis látið taka til 4 hunda og að við greiðslur áranna 2010, 2011 of 2012 verði bætt alls 4,7 m.kr. en það er sá umframkostnaður sem liggur á Blindrafélaginu vegna hækkun erlenda kostnaðarins. Lækkun á gengi íslensku krónunnar hefur valdið því að upphaflegur samningur Heilbrigðisráðuneytisins og Blindrafélagsins stendur engan veginn undir þeim kostnaði sem ráð var fyrir gert.

Formaður sagði að ráðherra hafi tekið vel í þessa tillögu en formleg svör hafi ekki ennþá borist.

Stutt umræða var um þetta mál og stjórnarmenn sammála að þetta yrði ásættanleg lausn fyrir félagið, gengi þetta eftir.

Staða akstursþjónustusamninga

Formaður tók fyrstur til máls og sagði frá vandamálum sem félagið stæði frammi fyrir vegna þess að 2 sveitarfélög, þ.e. Hafnarfjörður og Akureyri hafi ekki ljáð máls á að hækka greiðslur til félagsins vegna ferðaþjónustu blindra en bæði sveitarfélögin borga félaginu fasta upphæð mánaðarlega. Bað hann síðan framkvæmdastjóra að gera nánari grein fyrir málinu.

ÓH sagði að samningur um ferðaþjónustu við Hafnarfjörð hefði fyrst verið undirritaður fyrir 3 árum síðan. Það hefði verið reynslusamningur til eins árs þar sem Blindrafélagið hafi fengið fasta upphæð til að sjá um þjónustuna og bera fjárhagslega ábyrgð á henni. Þeim samningi var síðan framlengt. Eftir því sem notendum hafi fjölgað án þess að viðbótargreiðslur kæmi, hefði hallað á ógæfuhliðina. Nú væri svo komið að kostnaður væri langt umfram greiðslur. Um síðustu áramót hefði uppsafnaður halli verið rúmar 700 þús. kr. Bæjaryfirvöld hefðu neitað að greiða hallann og einnig neitað að hækka mánaðarlegar greiðslur þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.

Formaður bætti við að hann hefði sjálfur rætt við bæjarstjóra Hafnarfjarðar um þetta en án árangurs..

ÓH sagði að nú væri svo komið að fækka þyrfti ferðum á hvern notanda niður í 8 á mánuði til að endar næðu saman. Sama staða virðist vera komin upp á Akureyri þar sem bæjaryfirvöld treysta sér ekki að hækka greiðslur vegna ferðaþjónustunnar. Ljóst væri að einnig þyrfti að grípa þar til aðgerða. Tillaga forstöðumanns félagsþjónustunnar þar er að 750 kr. þak verði sett á upphæð hverrar ferðar. Framkvæmdastjóri taldi að kr. 1.000 gæti dugað þegar tillit væri tekið til afsláttar leigubílastöðvarinnar.

Hvað varðar ferðaþjónustu í öðrum sveitarfélögum, þá hefði verið rætt við forseta bæjarstjórnar í Mosfellsbæ en ekki hefðu borist nein viðbrögð frá honum. Nýlega hefði verið sent bréf til forráðamanna í Árborg þar sem falast hefði verið eftir ferðaþjónustu þar. Viðbragða er að vænta þaðan.

BO tók næst til máls og taldi eðlilegra að setja fast gjald á notendur á Akureyri fyrir hverja ferð, t.d. eitt strætógjald í Reykjavík, frekar en að setja þak á upphæð hverrar ferðar.

Eftir allmiklar umræður var samþykkt að tilkynna notendum í Hafnarfirði að fækka þyrfti mánaðarlegum ferðafjölda pr. notanda. Hvað varðar Akureyri, þá skyldi bera upp við notendur sjálfa hvort þeir vildu þak á upphæð hverrar ferðar eða fast gjald fyrir hverja ferð. Samþykkt var að formaður og framkvæmdastjóri skyldu útfæra þetta nánar.

Viðhorfskönnun til blindu og sjónskerðingar

Formaður hóf umræðuna og skýrði frá því að tilboð hefði borist frá Capacent Gallup um viðhorfskönnun meðal almennings til blindu og sjónskerðingar.

Gert er ráð fyrir að spurt verði alls 24 spurninga og hljóðar tilboðið upp á kr. 1.070.000.

Samþykkt var eftir stutta umræðu að taka tilboðinu og að það skyldi greitt úr Verkefnasjóði félagsins.

Stjórnarmenn töldu einnig áhugavert að spyrja félagsmenn í Blindrafélaginu nokkurra sambærilegra spurninga og væru í aðalkönnuninni til að komast að því hvort viðhorf félagsmanna færu saman við viðhorf almennings. Samþykkt var að ræða þetta við Gallup og fá verð í slíka viðbótarkönnun.

Önnur mál

ÓH sagði að beiðni hefði borist frá félagsmálafulltrúa félagsins um að vera leyst undan þátttöku í ferðanefnd félagsins. Hún vill frekar vinna fyrir nefndina sem starfsmaður. Samþykkt var að verða við þessari ósk og stungið var upp á Rósu Ragnarsdóttur til að taka sæti í nefndinni.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:10

Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson