Fundargerð stjórnar nr. 12. 2008-2009

12. stjórnarfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

Fimmtudaginn 2. apríl 2009

Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður, Halldór Sævar Guðbergsson, meðstjórnandi, Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.

Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari kom kl. 17:00

Forföll boðaði: Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri.

Fundarsetning

KHE setti fundinn kl. 16:40 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.

Fundargerðir síðustu funda

Fundargerð 11. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.

Bréf

Bréf frá Blindrabókasafninu dagsett í mars 2009.Í bréfinu er sótt um styrk til Blindrafélagsins að upphæð kr. 500.000 til að ljúka átaksverkefni sem snýst um að flytja allt efni af spólum yfir á diska, þ.e. að gera bókakost safnsins rafrænan. Formaður tók fyrstur til máls og sagðist styðja þessa styrkbeiðni. Eftir stuttar umræður var samþykkt samhljóða að veita umbeðinn styrk sem greiðast skal úr Verkefnasjóði félagsins.

International Congress Visually Impaired 2009 – framhald frá síðasta fundi – umrædd ráðstefna er haldin 18 – 20. júní 2009 til að minnast 200 ára fæðingarafmælis Louis Braille. Eftir stuttar umræður var samþykkt að félagið taki þátt í ráðstefnunni og sendi allt að 2 fulltrúa þangað. Formaður og varaformaður skulu velja þátttakendur á ráðstefnuna.

Skýrslur

Skýrsla formanns

Formaður flutti munnlega skýrslu sem hann mun senda stjórnarmönnum skriflega eftir fundinn.

Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn. Ræddar voru sérstaklega fyrirhugaðar breytingar á vorhappdrætti félagsins. Stjórnarmenn lýstu sig meðmælta þeim breytingum, þ.e. að senda rafræna miða á alla landsmenn á aldrinum 30 – 85 ára. Miðar verða einnig sendir á pappír til þeirra sem eru 65 ára og eldri. Allir miðar verða stílaðir á nöfn. Miðaverð verður kr. 1.939 og þar er skírskotað í stofnár félagsins. Sjóntrygging til næstu áramóta mun fylgja til þeirra sem greiða miða.

Skipulag á foreldrastarfi Blindrafélagsins – Á að ráða sérstakan foreldrafulltrúa til starfa?

Inga Dóra Guðmundsdóttir, formaður foreldradeildarinnar, kom á fundinn og tók þátt í umræðum um þennan lið.

KHE hóf umræðuna og sagði frá því að einn félagsmaður hafi sótt um starf foreldrafulltrúa að eigin frumkvæði en starfið hefur ekki verið auglýst laust til umsóknar. Í starfsumsókninni telur umsækjandi upp ýmis atriði sem hann álítur að starfið eigi að snúast um.

Inga Dóra tók næst til máls og taldi ekki vera grundvöll fyrir þessu starfi í þeirri mynd sem þarna væri talað um. Þessi starfslýsing væri mjög áþekk þeirri sem hún sjálf vann eftir þegar hún gegndi starfi foreldrafulltrúa hjá félaginu. Taldi hún foreldra ekki hafa áhuga fyrir starfsmanni sem ynni á þessum grunni. Taldi hún upp mörg dæmi máli sínu til stuðnings.

KS sagðist ekki vera hissa á þessu sjónarmiði.

HSG lýsti yfir vonbrigðum sínum með meintu áhugaleysi foreldra á starfi foreldrafulltrúa.

KHE tók næstur til máls og sagði að taka þyrfti ákvörðun um hvort ráða skyldi foreldrafulltrúa eða ekki.

Inga Dóra ítrekaði skoðun sína og sagði síðan að hún teldi frekar þörf fyrir æskulýðsfulltrúa en foreldrafulltrúa hjá félaginu.

KHE sagðist sammála þessari nálgun. HSG var einnig sammála og lagði til að starfið yrði skilgreint betur og síðan auglýst meðal félagsmanna.

ÁEG vill sameina betur barna- og foreldrastarf félagsins. Hún styður þetta verkefni en vill skilgreina það mun betur.

Að loknum ítarlegum umræðum var samþykkt að fela KHE að skilgreina þetta verkefni betur sem starf æskulýðsfulltrúa og heimild veitt til að ráða í það til reynslu. Ekki var talin þörf á því að auglýsa starfið þar sem um tímabundið starf til reynslu verður að ræða.

Að lokinni þessari samþykkt vék Inga Dóra máli sínu að þjónustu ÞÞM sem hún taldi vera ómarkvissa og að mörgu leiti í molum. Nefndi hún sem dæmi að þar vanti tölvukennslu, sálfræðiaðstoð og iðjuþjálfun.

KHE bað um að félagið verði látið vita þegar þjónusta ÞÞM sé ekki að virka. Þá sé hægt að gera athugasemdir við stofnunina.

SUH taldi að félagið þurfi að fylgjast vel með starfi ÞÞM. Félagið þurfi bæði að veita stofnuninni þrýsting og stuðning.

HSG taldi að vandamál ÞÞM væri fyrst og fremst peningaleysi.

Að lokinni þessari umræðu vék Inga Dóra Guðmundsdóttir af fundinum.

Aðgengisverkefni - Tillaga um að fá Ungblind í samstarfi við Hitt húsið og ÞÞM til að vinna að úttekt á aðgengismálum í sumar.

Formaður hóf umræðuna og taldi þetta verðugt verkefni fyrir Ungblind og góða sumarvinnu fyrir unga félagsmenn. HSG tók undir skoðun formanns og vakti athygli á fyrirtækinu Aðgengi ehf. sem hefur sérhæft sig í aðgengismálum fyrir fatlaða og lagði til að hópurinn hafi samstarf við fyrirtækið um þessa úttekt.

Samþykkt samhljóða að hvetja til og taka þátt í umræddri úttekt og hafa samstarf um hana við Aðgengi ehf. ef til kemur.

70 ára afmæli Blindrafélagsins
Hvernig á að standa að meginhátíðarhöldunum í ágúst?
Á að halda afmælisveislu og þá hvar og hverjum á að bjóða?
Á félagið að setja fé í gerð fræðslumyndar?

KHE hóf umræðuna og sagði að ritnefnd hefði tekið til starfa varðandi afmælisrit félagsins. Hann taldi heppilegt að halda afmælishófið úti í bæ

AEG minnti á að opið hús hafi verið í Hamrahlíð 17 á 50 og 60 ára afmæli félagsins. Þar hafi m.a. listamenn meðal félagsmanna sýnt og flutt verk sín.

HSG lagði til að haldið verði kaffisamsæti, t.d. á hóteli úti í bæ.

KHE tók undir þessa hugmynd og taldi að Forseti Íslands yrði verðugur heiðursgestur félagsins.

ÁEG vill beina afmælinu meira inn á við. Hún studdi hugmynd um að gera sjónvarpsmynd þar sem fjallað verði um getu blindra til að takast á við lífið þar sem viðmiðið væri að blindir væru færir í flestan sjó.

Samþykkt að KHE og ÁEG vinni málið áfram og komi með hugmyndir að dagskrá afmælishófs.

Mannaráðningar hjá ÞÞM

KHE hóf umræðuna og lagði fram drög að ályktun stjórnarinnar vegna ráðningar á sérfræðingi í blindraletri hjá ÞÞM (sjá fylgiskjal 1).

Eftir nokkrar umræður var ályktunin samþykkt samhljóða og formanni falið að koma henni á framfæri auk þess sem hún verði birt á heimasíðu félagsins.

Húsaleiga í íbúðum í Hamrahlíð 17

Hver er hún í samanburði við aðra sambærilega valkosti?

Hvað hefur vísitalan hækkað frá því í haust?

Hvernig er eðlilegt að stjórnin bregðist við?

Formaður hóf umræðuna og gaf framkvæmdastjóra orðið.

Framkvæmdastjóri lagði fram greinargerð um málið (sjá fskj. 2). Þar kom fram að húsaleiga í Hamrahlíð 17 er mjög svipuð og á sambærilegum íbúðum hjá Brynju, hússjóði ÖBÍ. Húsaleiga hjá Félagsbústöðum og í námsmannaíbúðum er um 20% hærri.

Vísitala neysluverðs hefur hækkað sem hér segir: síðustu 3 mánuði um 0,5%, síðustu 6 mánuði um 6% og síðustu 12 mánuði um 18%.

Brynja og Félagsbústaðir hafa ekki afnumið vísitölutengingu en það hefur verið gert hjá Félagsstofnun stúdenta.

Framkvæmdastjóri telur af ofansögðu að húsaleiga hjá félaginu sé ekki óeðlileg, og ekki sé tilefni að afnema vísitölutenginguna enda sé ekki von á verulegum hækkunum á henni á næstunni.

Eftir stutta umræðu var samþykkt að breyta ekki húsaleigusamningum hjá leigjendum félagsins í Hamrahlíð 17.

Önnur mál

Lausar íbúðir í Hamrahlíð 17.

Spurt er hvort umsóknir hafi borist um lausar íbúðir í húsinu. Framkvæmdastjóri segir eina umsókn frá félagsmanni hafa borist en íbúðin hafi ekki verið leigð.

SUH spurði hvenær halda ætti næsta fund stjórnar og starfsfólks. KHE og ÓH vinna að því að koma honum á dagskrá en hann hefur ekki enn verið tímasettur.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19:05.

Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson