11. Stjórnarfundur Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Fimmtudaginn 12. mars 2009
Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri, Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.
Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari kom þegar 15 mín voru liðnar af fundinum.
Í símanum frá Akureyri: Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) meðstjórnandi.
Forföll boðaði: Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður.
Fundarsetning
KHE setti fundinn kl. 16:35 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.
Fundargerðir síðustu funda
Fundargerð 10. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.
Bréf
Styrkumsókn frá Ungblind – Beðið er um styrk að upphæð kr. 100.000 til að halda skyndihjálparnámskeið. Beiðnin er samþykkt. Jafnframt er Ungblind bent á að leita tilboðs frá Félagi slökkviliðsmanna um að halda námskeiðið þar eð fyrirliggjandi tilboð frá Rauða krossinum þykir nokkuð hátt.
Aðildarumsóknir
6 aðildarumsóknir hafa borist í febrúar og voru þær samþykktar samhljóða. Vottorð frá ÞÞM liggja fyrir.
Skýrslur
Í upphafi sögðu formaður og framkvæmdastjóri frá því að Rebekkustúkan Bergþóra innan Oddfellowreglunnar hefði ákveðið að gefa ÞÞM nýja blindraletursprentvél að andvirði 10 – 11 m.kr. Einnig ætlar stúkan að gefa Blindrafélaginu nýjan blindraletursprentara að andvirði 700 þús. kr. til nota á skrifstofu félagsins. Formlega verður tilkynnt um þessar gjafir í næstu viku. Stjórnarmenn lýstu allir sem ánægju sinni og þakklæti með þessa stórkostlegu gjafir kvennanna sem eru gefnar í tilefni 80 ára afmælis stúkunnar.
Skýrsla formanns
Formaður lagði fram skriflega skýrslu sem send var út fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við skýrsluna
Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn. Eftirfarandi atriði voru rædd sérstaklega:
Úthlutun úr Námssjóði blindra - Í skýrslunni kom fram að 8 umsóknir hafa borist um námstyrki úr sjóðnum sem allar eru metnar gildar. Samþykkt að 7 umsóknir skulu fá 50.000 kr styrk hver og ein umsókn 25.000 kr. styrk.
Ferðaþjónusta í Hafnarfirði – Í skýrslunni kom fram að félagsmálaráð Hafnarfjarðar hefur svarað neitandi beiðni Blindrafélagsins um eingreiðslu að upphæð kr. 730.640 til að mæta uppsöfnuðum halla á ferðaþjónustu blindra þar í bæ. Ennfremur hefur bærinn látið í það skína að ekki verði fært að hækka greiðslur til ferðaþjónustunnar umfram það sem nú er. Þessi niðurstaða mun að líkindum leiða til skertrar þjónustu við Hafnfirðinga en kostnaður við ferðaþjónustuna er orðinn mun meiri en bærinn greiðir samkvæmt samningi. Samþykkt að formaður og framkvæmdastjóri skulu freista þess að taka málið upp við bæjarstjóra Hafnarfjarðar.
Aðgengismál á netinu
Formaður hóf umræðuna og sagði frá viðbrögðum sem honum hafa borist vegna athugasemda sem gerðar hafa verið við heimasíður nokkurra félagasamtaka og opinberra aðila þar sem kvartað hefur verið yfir aðgengi. Fór hann sérstaklega yfir harkaleg viðbrögð frá Neytendasamtökunum.
Í framhaldi af þessari umræðu var rætt um aðgengi í víðara samhengi svo sem við umferðarljós, á göngustígum, gangstéttum og víðar í borginni. Samþykkt var að beina því til borgaryfirvalda að það væri upplagt verkefni fyrir ungmenni í sumarvinnu að skoða og skrá ýmsar hindranir og torfærur sem eru víða til staðar. Margar af þessum hindrunum er auðvelt að lagfæra, einungis þarf rétt hugarfar.
Foreldrastarf Blindrafélagsins - skipulag
Formaður tók til máls og taldi að foreldrastarfið væri ómarkvisst og að mörgu leiti í molum. Hann velti því fyrir sér hvort breytinga væri þörf. Hann taldi vel koma til greina að fela trúnaðarmönnum félagsins stærra hlutverk í foreldrastarfinu. Foreldrar og trúnaðarmenn gætu síðan haft greiðan aðgang að einhverjum starfsmanni félagsins sem sæi, ásamt þeim, um framkvæmd verkefna.
BO tók næstur til máls og vakti athygli á því að ekki væri starfandi aðstandendafélag eða deild innan félagsins.
SUH lagði til að starfsmanni félagsins verði falið að blása lífi í foreldra og barnastarfið.
HSG vill skoða hvort efla eigi æskulýðsstarf innan félagsins með því að ráða sérstakan æskulýðsfulltrúa.
KHE ítrekar þá skoðun sína að trúnaðarmannakerfið eigi að hafa stærra hlutverk varðandi barna og foreldrastarfið.
Að lokum var samþykkt að fela formanni að móta ákveðnari tillögur varðandi tilhögun foreldrastarfsins. Þessar hugmyndir skulu teknar nánar fyrir í stefnumótunarvinnu félagsins.
Aðalfundur Blindrafélagsins 2009
Samþykkt var að aðalfundur Blindrafélagsins 2009 verði haldinn laugardaginn 23. maí.
Félagsfundur á vormisseri 2009
Samþykkt var að halda félagsfund fimmtudaginn 26. mars, kl. 17:00 þar sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði kynntur. Sérstaklega skal farið yfir atriði sem tengjast réttindum blindra og sjónskertra.
Sjóðir og styrkir á vettvangi Blindrafélagsins, kynning, umfjöllun, ákvarðanataka.
Samkvæmt ákvörðun síðasta fundar lögðu formaður og framkvæmdastjóri fram tillögur að reglum fyrir styrkveitingar og sjóði innan félagsins.
Eftirfarandi styrkir og sjóðir voru teknir til umfjöllunar:
Styrkir til fagfólks sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra til þátttöku á ráðstefnum, sýningum og námsskeiðum erlendis á árinu 2009. Lögð voru fram drög að reglum vegna styrkjanna. Eftir stutta umræðu voru drögin samþykkt samhljóða og ákveðið að auglýsa styrkina sem fyrst á miðlum félagsins (sjá fylgiskjal 1).
Hvatningarstyrkir Blindrafélagsins – Hvatningarstyrkir voru fyrst veittir á aðalfundi félagsins í maí 2008 og mæltust vel fyrir. Ástæður þess að stjórn kom á fót hvatningarstyrkjum Blindrafélagsins voru að hún vildi hvetja félagsmenn til að takast á við ný og ögrandi verkefni. Um leið vildi stjórnin koma öllum styrkbeiðnum frá félagsmönnum í einn farveg og búa til um þær ákveðnar reglur.
Farið var yfir reglur um hvatningarstyrki Blindrafélagsins og samþykkt samhljóða að veita slíka styrki á aðalfundi Blindrafélagsins í maí n.k. og verja til þeirra allt að 1,5 m.kr. úr Verkefnasjóði félagsins. Úthlutunarreglur og upphæð styrkja verði sú sama og á síðasta ári (sjá fylgiskjöl 2 – 4).
Hjálpatækjastyrkir – Lögð voru fram drög að reglum um úthlutun hjálpartækjastyrkja í samræmi við fyrri ákvörðun stjórnar. Fjármagn til styrkjanna skal sótt í Verkefnasjóð félagsins. Eftir stuttar umræður voru lítilsháttar breytingar á framlögðum drögum samþykktar og ákveðið að styrkirnir verði auglýstir í fyrsta sinn fyrir 1. október 2009 (sjá nánar samþykktar reglur á fylgiskjali 5).
Önnur mál
BO – Spyr hvort dagskrá vegna 70 ára afmælis félagsins 19. ágúst hafi verið ákveðin. Formaður segir ekki svo vera.
BO – Vekur athygli á því að ungliða vanti í félagslega trúnaðarmannakerfið. Fundarmenn sammála að gott væri að fá fleira ungt fólk í það starf. Engin samþykkt gerð.
KS – Leggur til að húsaleiga félagsmanna sem leigi íbúðarhúsnæði í Hamrahlíð 17 verði tekin úr sambandi við vísitölu neysluverðs auk þess sem hún verði lækkuð um 10%. BO taldi tímabært að gefa leigjendum afslátt af húsaleigu eða taka vísitöluna úr sambandi. Eftir nokkrar umræður var samþykkt að formaður og framkvæmdastjóri skoði málið og komi með hugmyndir fyrir næsta stjórnarfund.
HSG vekur máls á ákvörðun síðasta stjórnarfundar um hækkun á leigugjaldi gestaíbúðar og gestaherbergis og segir að gæta þurfi hagsmuna félagsmanna utan af landi þegar þessi leigugjöld séu ákveðin. ÓH bendir á að hægt sé að veita félagsmönnum sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins sérstakan afslátt af leigugjaldinu. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að kanna þetta nánar og leggja fram tillögur fyrir stjórn.
HSG spyr um útgáfu á ritgerð Helgu Einarsdóttur. Formaður svarar og segir útgáfuna vera í undirbúningi. Samningur hafi verður gerður við Háskólaútgáfuna. Einnig hafi samtök blindra og sjónskertra á öðrum Norðurlöndum sýnt því áhuga að ritgerðin verði þýdd.
SUH spyr hvort næsti fundur stjórnar og starfsmanna félagsins hafi verið ákveðin. Ákveðið var að á næsta fundi verði rætt um siðareglur og gildi í samskiptum félags- og starfsmanna. Formanni og framkvæmdastjóra falið að undirbúa fundinn og ákveða tímasetningu.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19:10.
Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson