Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG) varaformaður, Sigþór U Hallfreðsson (SUH) ritari, Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.
Í símanum frá Akureyri: Bergvin Oddsson (BO) gjaldkeri
Fundarsetning
KHE setti fundinn kl. 16:40 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.
Fundargerðir síðustu funda
Fundargerð 9. stjórnarfundar var send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Hún var samþykkt samhljóða.
Bréf
Bréf hefur borist um ráðstefnu sem halda á í París 18 – 20. júní n.k. í tilefni 200 ára fæðingarafmælis Louis Braille. Samþykkt að taka málið fyrir síðar.
Styrkumsókn hefur borist frá Blindrabókasafninu dagsett í feb. 2009 þar sem beðið er um 1 m.kr. styrk frá Blindrafélaginu til lesturs á 10 – 15 bókatitlum en safninu er gert að draga saman seglin á árinu vegna minnkandi fjárveitinga frá ríkinu. Samþykkt að formaður ræði málið við forstöðumann safnsins og það verði síðan tekið til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi.
BO lagði fram bréf þar sem hann gagnrýnir starfsmenn félagsins fyrir að umorða tilkynningar frá nefndum félagsins sem birtar eru á miðlum þess. Samþykkt að beina tilmælum til starfsmanna um að bera breytingar á tilkynningum og auglýsingum undir viðkomandi félagsmenn áður en þær eru birtar ef um er að ræða meira en einfaldar leiðréttingar.
Skýrslur
Skýrsla formanns
Formaður lagði fram skriflega skýrslu sem send var út fyrir fundinn. Hann svaraði nokkrum spurningum um efni skýrslunnar, m.a. um erfiðleika sem upp hafa komið hjá einum leiðsöguhundanotanda.
Skýrsla framkvæmdastjóra var send fundarmönnum fyrir fundinn.
Stutt umræða var um nokkur atriði, m.a. var samþykkt tillaga framkvæmdastjóra um launabreytingar samkvæmt kjarasamningum og hækkun á leiguverði gestaíbúðar, gestaherbergis og samkomusalar. Jafnframt samþykkti stjórnin að tímabært væri að lagfæra gestaíbúðirnar í húsinu og framkvæmdastjóra falið að vinna að því.
Útgáfumál
Framhald umræðu frá síðasta fundi.
Formaður tók til máls og fór yfir umræðuna á síðasta fundi og hvernig staðið skyldi að útgáfu afmælisrits félagsins.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt að sett verði á laggirnar ritnefnd sem síðan ráði ritstjóra að afmælisblaðinu. Samþykkt var að leita til eftirtalinna einstaklinga um setu í nefndinni: Ragnar R. Magnússon, Kristinn H. Einarsson, Ágústa E. Gunnarsdóttir og Eva Þengilsdóttir.
Ráðning forstjóra ÞÞM
Formaður hóf umræðuna og gerði grein fyrir samskiptum sínum við félagsmálaráðuneytið varðandi ráðninguna. Vinnubrögð ráðuneytisins hvað varðar kynningu á ráðningunni voru harðlega gagnrýnd. Að öðru leiti óskar stjórnin eftir góðu samstarfi við nýráðinn forstjóra enda skiptir þjónusta stofnunarinnar félagsmenn ákaflega miklu máli.
Eftir allmiklar umræður lagði formaður fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt samhljóða:
„Félagsmálaráðherra hefur ráðið Huld Magnúsdóttur í stöðu forstjóra Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en stofnunin hóf starfsemi þann 1 janúar 2009.
Blindrafélagið leggur mikið upp úr því að eiga sem best samstarf við alla þá aðila sem koma að þeim hagsmunamálum sem félagið sinnir og býður því hinn nýja forstjóra velkominn til starfa.
Að mati forystu Blindrafélagsins voru í hópi umsækjenda mjög hæfir einstaklingar sem Blindrafélagið þekkir vel til og jafnframt eru vel kunnugir málefnum blindra og sjónskertra. Enginn þeirra varð fyrir valinu í stöðu forstjóra miðstöðvarinnar.
Að því gefnu að félags- og tryggingarmálaráðuneytið hafi staðið faglega að ráðningunni, má ljóst vera að Blindrafélagið getur haft miklar væntingar til starfa og þekkingar hins nýráðna forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.“
HSG kom á fundinn meðan umræður um þennan lið stóðu yfir.
Styrkir til fagfólks til þátttöku á ráðstefnum, sýningum og námsskeiðum
Vísað er til tillögu sem HSG lagði fram á 8. stjórnarfundi, 15. Jan. 2009 (sjá 8. lið b) – önnur mál). Þar er gerð tillaga um að Blindrafélagið leggi fram 1 m.kr. í sjóð sem styrki starfsfólk ÞÞM til vinnuferða erlendis gegn því að Blindravinafélagið leggi fram samsvarandi upphæð.
Eftir stutta umræðu var samþykkt að veita umrædda fjárhæð úr Verkefnasjóði til verkefnisins að því tilskyldu að sama upphæð komi frá Blindravinafélaginu. Einnig var samþykkt að allt fagfólk sem vinni að málefnum blindra og sjónskertra geti sótt um styrkina. Að lokum var samþykkt var að fela formanni og framkvæmdastjóra að gera tillögur að reglum varðandi umsóknir og úthlutanir.
Önnur mál
HSG spyr hvernig starfræksla mötuneytisins hafi gengið? Framkvæmdastjóri upplýsti að upphafleg markmið um að matarverð dekki hráefniskostnað hafi í aðalatriðum gengið eftir. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að mötuneytið skuli halda áfram með svipuðu móti næsta vetur en því skuli lokað í allt að 8 vikur í sumar og framkvæmdastjóra falið að útfæra það nánar í samráði við starfsfólk mötuneytisins.
BO boðar tillögur um lagabreytingar á næsta aðalfundi félagsins. Samþykkt að halda óformlegan fund á næstunni þar sem þessi mál verði rædd.
Formaður kallaði eftir hugmyndum um efni fyrir félagsfund sem hann taldi að halda ætti á næstunni. Nokkrar hugmyndir voru ræddar og formanni falið að vinna að málinu.
HSG vekur athygli á fundarröð ÖBÍ um stöðu öryrkja í kreppu. Hvetur hann alla til að mæta á þessa athyglisverðu fundi.
ÓH og SUH hafa sent stjórnarmönnum stöðuskýrslu vegna vinnu sinnar um kortlagningu á starfssemi Blindrafélagsins og gerð nýs skipurits fyrir félagið. Samþykkt var að senda skýrsluna til stefnuhópsins sem nú starfar og verði hún tekin inn í þá vinnu.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:50.
Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson