Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS), Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) , Rósa María Hjörvar (RMH), Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ), Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður, Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður, Patrekur Andrés Axelsson (PAA) varamaður, María Hauksdóttir (MH) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.
SUH setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna á þennan fyrsta fund nýkjörinnar stjórnar og lýsti þeirri von sinni að þessi stjórn næði að vera samhent í störfum sínum.
Tillaga að dagskrá var samþykkt.
Lýst eftir öðrum málum:
BSS
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerðir fundar nr. 17. frá seinustu stjórn, sem send hafði verið stjórnarmönnum, var samþykkt.
4. Stjórn skiptir með sér verkum.
SUH lagði til að HSG yrði varaformaður, RMH gjaldkeri, BSS ritari og SHJ meðstjórnandi. Tillagan var samþykkt samhljóða.
5. Fundartími stjórnar og starfsskrá.
SUH gerði það að tillögu sinni að fastir fundartímar stjórnar yrðu annan hvern þriðjudag kl. 16:00 fram á sumar. Fundaráætlunin stjórnar fram í ágúst er eftirfarandi:
19 apríl: Stjórnarfundur nr. 2
3. maí: Stjórnarfundur nr. 3
17. maí: Stjórnarfundur nr. 4
31. maí: Stjórnarfundur nr. 5
14. júní: Stjórnarfundur nr. 6
28. júní: Stjórnarfundur nr. 7
26. júlí: Stjórnarfundur nr. 8
16. ágúst: Stjórnarfundur nr. 9
SUH lagði til að þær nefndir sem nú þegar væru starfandi myndu starfa fram á sumar. Var tillagan samþykkt samhljóða.
SUH opnaði umræðu á hvernig stjórnarmenn sjá fyrir sér að vinna að þeim verkefnum sem stjórninni var falið af aðalfundi. Hann bauð öllum stjórnarmönnum að tjá sig og boðaði að af lokinni umræðu væri hægt að forma tillögu að því hvernig þessi vinna færi fram og væri skipulögð.
Ályktun aðalfundar var eftirfarandi:
„Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn þann 19. mars 2016, felur stjórn félagsins að hefja vinnu við að endurskoða og móta lög, siðareglur og verklagsferla fyrir starfsemi Blindrafélagsins.
Endurskoða lög félagsins með það að markmiði að færa lögin betur að starfsemi félagsins, gera lögin skýrari og færa inn í þau venjur, hefðir og óskráðar reglur sem breið samstaða er um. Tillögur að nýjum lögum Blindrafélagsins skulu lagðar fyrir aðalfund félagsins 2017.
Að gera tillögu að siðareglum Blindrafélagsins. Siðareglurnar skulu byggja á gildum Blindrafélagsins og meðal annars fjalla um ábyrgð allra þeirra sem starfa á vettvangi félagsins og samskipti bæði inná og útá við.
Tillaga að nýjum siðareglum fái umfjöllun og staðfestingu félagsfundar Blindrafélagsins.
Að setja niður verklagsferla fyrir starfsemi félagsins. Þar með talið fyrir stjórn félagsins, deildir, nefndir og skrifstofu.
Við þessa vinnu verði lögð á það rík áhersla að kalla fram sjónarmið félagsmanna og starfsmanna og leita ráðgjafar fagfólks eftir því sem við á.
Rökstuðningur:
Blindrafélagið fagnaði nýverið 75 ára afmæli sínu. Félagið er öflugt hagsmunaafl sem ítrekað hefur skipt sköpum þegar kemur að því að tryggja blindum og sjónskertum öryggi og jafnrétti. Félagið er mannréttindafélag og hefur gengið vel að kynna og efla mannréttindi félagsmanna sinna.
Blindrafélagið hefur yfir 660 aðalfélaga og er það mikil fjölgun frá því sem var þegar félagið var stofnað og starfið mótað. Umhverfið hefur einnig breyst töluvert frá stofnun félagsins. Alþjóðavæðing, upplýsingaaðgengi og ríkari kröfur almennings um innsæi í málefni þeirra félaga sem þau styrkja hafa komið til.
Undanfarið misseri hefur reynt á lög og venjur félagsins. Starf Sannleiksnefndarinnar leiddi ennfremur í ljós að mikið vantar upp á þegar kemur að verkferlum og starfsháttum félagsins.
Þess vegna leggur stjórn til þessa ályktun fyrir aðalfund 2016.
Það er sannfæring stjórnar að með breiðri þátttöku félagsmanna í þessu starfi verði það skemmtilegt og árangursríkt. Hægt verði að ná góðri samvinnu og sátt um lög, siðareglur og verkferla félagins. Blindrafélagið er til fyrir blinda og sjónskerta og við viljum virkja alla félagsmenn til góðra starfa. Félagsmenn okkar búa yfir rödd og reynslu sem þarf að heyrast í, hvort sem það er innan félagsins eða utan. Í stað þess að einbeita okkur að því sem er ábótavant er lykilatriði að sjá tækifærin í stöðunni. Tækifæri til þess að gera gott félag enn betra.“
Stjórnarmenn voru nokkuð samhljóma um mikilvægi þessara verkefna, að hvaða leiti þau væru ólík, mikilvægi þátttöku félagsmanna, hvernig best væri að skipuleggja starfið, kosti þess að leita ráðgjafar og stuðnings frá utanaðkomandi fagfólki, að notast við opin fundarform við vinnu að siðareglum og mikilvægi þess að verkefnin séu unnin í réttri röð. Samþykkt var að fela formanni að koma með tillögu að verkfyrirkomulag á næsta fund byggða á umræðum og viðhorfum stjórnarmanna.
6. Bréf og erindi.
Erindi frá Innanríkisráðuneytinu þar sem óskað er eftir samráðsfundi vegna fyrrhugaðra forsetakosninga. Samþykkt var að KHE og Benjamín Júlíusson, sérfræðingur ÞÞM, færu á fundinn.
Erindi frá Noisy Vision á Ítalíu um stuðning upp á 1000 evrur (ca 150.000 kr.) til að taka þátt í kostnaði við að gera video um 120 km vitundargöngu blindra og sjónskertra einstaklinga á milli Bolognia og Flórens í ítölsku ölpunum. Verkefnið hefur fengið nafnið The gods like it yellow. Valdir hafa verið 16 þátttakendur til þátttöku í göngunni og koma þeir frá Íslandi, Írlandi, Spáni, Hollandi, Þýskalandi, Finnlandi og Ítalíu. Erindið var samþykkt samhljóða.
7. Skýrslur
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um eftirfarandi mál:
Upplýsingar um starfsmannamál.
Sight City í Frankfurt.
Fjáröflun Víðsjár.
Ávöxtun á sjóðum Blindrafélagsins.
Stigahlíð 71.
Ferðaþjónustusamningur við Mosfellsbæ.
Hækkun á ferðaþjónustugjaldi.
Fundur með forstjóra ÞÞM.
Úthlutun leiðsöguhunds.
Umsóknir um styrki frá úr sjóðnum Stuðningur til sjálfsæðis.
Samskipti við Ivona.
Retina International ráðstefna 2020.
Upplýsingaaðgengi.
Samningur Blindravinnustofunnar og Reykjavíkurborgar.
Baldur tók til umræðu mikilvægi upplýsingaaðgengis og kallaði eftir því að fram færi vinna við stefnumótun í þessum málaflokki. Nokkur umræða varð um möguleikanna sem væru í þessum málaflokki og mikilvægi þess að fara í ítarlega stefnumótun um aðkomu félagsins að þessum verkefnum.
8. Önnur mál
BSS sagði frá því að hann hafi fengið símtal frá móður drengs sem er blindur af völdum sykursýki sem ekki vissi hvaða þjónustu henni stæði til boða, en þau höfðu ekki fengið tilvísun á ÞÞM. Nokkur umræða skapaðist og var bent á að viðkomandi hefði átt að fá tilvísun á ÞÞM. Rætt var um að hafa samband við Rauða krossinn varðandi samstarf um hjálparsímasvörun fyrir þá sem á þurfa að halda vegna sjónmissis.
Að lokum bað formaður þá sem til þekkja að fara yfir þá viðburði sem eru framundan á vettvangi félagsins.
Fundi slitið kl. 18:00
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.