Fundargerð stjórnar nr. 1. 2009-2010

Mættir: Kristinn Halldór Einarsson (KHE) formaður, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG), Ágústa Eir Gunnarsdóttir (AEG), Sigþór U Hallfreðsson (SUH), Arnheiður Björnsdóttir (AB), Kolbrún Sigurjónsdóttir (KS) varamaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varamaður, Haukur Sigtryggsson (HS) varamaður, Ólafur Þór Jónsson (ÓÞJ) varamaður og Ólafur Haraldsson (ÓH) framkvæmdastjóri.

Fundarsetning

Formaður setti fundinn kl. 16:40 og bauð nýja stjórn velkomna til starfa og óskaði góðs og samstarfs við alla stjórnarmenn á starfstímabilinu.

Fundargerð 15. stjórnarfundar síðustu stjórnar

Fundargerðin var samþykkt af öllum stjórnar- og varastjórnarmönnum sem sátu síðasta stjórnarfund án athugasemda.

Bréf

Bréf frá Helga Hjörvari, alþingismanni og félaga í Blindrafélaginu þar sem hann tilkynnir að hann hafi sagt af sér stjórnarsetu í Sjónverndarsjóði Íslands og bendir á að hann hafi setið í stjórninni tilnefndur af Blindrafélaginu. Formaður, KHE lýsti sig reiðubúinn að taka sæti Blindrafélagsins í stjórn Sjónverndarsjóðs og var það samþykkt samhljóða.

Styrkbeiðni frá Elínborgu Lárusdóttur, félagsráðgjafa hjá ÞÞM þar sem hún sækir um fagstyrk til að komast á ráðstefnu í Dublin er varðar starf hennar sem félagsráðgjafi blindra og sjónskertra. Samþykkt samhljóða að veita henni umbeðinn styrk sem verði greiddur í samræmi við úthlutunarreglur um styrki til fagfólks og verði skoðaður sem hluti af þeirri úthlutun. Blindravinafélagið hefur samþykkt styrkveitinguna fyrir sitt leiti.

Aðildarumsóknir.

Einn hefur sótt um aðild að Blindrafélaginu frá síðasta aðalfundi til maíloka: Var hann samþykktur samhljóða og boðinn velkominn í félagið: Vottorð frá ÞÞM liggur fyrir.

Skýrslur

Skrifleg skýrsla formanns var send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Formaður skýrði skýrsluna lið fyrir lið en engar athugasemdir voru gerðar.

Skrifleg skýrsla framkvæmdastjóra var send út fyrir fundinn. Eftirfarandi atriði voru rædd sérstaklega:

Hólfun (lokun) á skrifstofu – Lögð var fram ný kostnaðaráætlun vegna hólfunar á skrifstofu félagsins. Þar er lagt til að notað verði ódýrara efni en fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Kostnaður er nú áætlaður kr. 1.150.000 – 1.200.000 kr. Samþykkt samhljóða að gera umræddar breytingar enda í samræmi við eindregnar óskir starfsmanna. Kristmundi Eggertssyni verði falið framkvæmd verksins.

Samþykkt var að sækja um fjárveitingu á fjárlögum ársins 2010. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá umsókn félagsins.

Stjórn skiptir með sér verkum

Formaður tók fyrstur til máls og lagði fram tillögu að verkaskiptingu stjórnar en tillagan var hluti af dagskrá fundarins. Allir sem til máls tóku lýstu sig sammála tillögunni og eftir stuttar umræður var hún samþykkt samhljóða.

Stjórnin skiptir þannig með sér verkum á starfsárinu:

Formaður: Kristinn Halldór Einarsson

Varaformaður: Ágústa Eir Gunnarsdóttir

Ritari: Sigþór U Hallfreðsson

Gjaldkeri: Halldór Sævar Guðbergsson

Meðstjórnandi: Arnheiður Björnsdóttir

Varamenn eru: Kolbrún Sigurjónsdóttir, Lilja Sveinsdóttir, Haukur Sigtryggsson og Ólafur Þór Jónsson.

Blindravinnustofan

Aðalfundur Blindravinnustofunnar var haldinn 4. Júní s.l Stjórn vinnustofunnar var endurkjörin, en hana skipa:

Guðmundur Rafn Bjarnason

Þorsteinn Jóhannsson

Kristinn Halldór Einarsson

Hanna Björg Sigurjónsdóttir

Olga Björg Jónsdóttir

Rekstur Blindravinnustofunnar gekk vel megnið af síðasta ári og var hagnaður á rekstrinum um 11 m.kr. Búist er við mun lakari afkomu á þessu ári en sala hefur dregist tilfinnanlega saman síðan bankahrunið dundi yfir s.l. haust.

Formaður félagsins gerði síðan grein fyrir stöðu mála í viðræðum Blindrafélagsins, ÖBÍ og SÍBS um hugsanlega sameiningu vinnustaða þessara samtaka. Niðurstaða í viðræðunum hefur tafist einkum vegna þess að ekki hafa fengist skýrar línur í húsnæðismálin og hvort sameinað félag geti starfað í húsnæði SÍBS við Hátún. SUH tók næstur til máls og bað um að skýrsla Hrannar Pétursdóttur um sameiningu vinnustaðanna verði send stjórnarmönnum til skoðunar. Var það samþykkt.

70 ára afmælishátíð Blindrafélagsins

Formaður hóf umræðuna og fór yfir fyrirhugaða dagskrá afmælishófs sem ákveðið hefur verið að halda á Hótel Nordica þann 19. ágúst n.k. Dagskrárdrögin voru samþykkt og að félagsmálaráðherra verði boðið að vera heiðursgestur samkomunnar.

Stjórnarmenn voru einnig sammála um að afmælishátíðin væri verðugt tilefni til að veita gulllampa félagsins. Tilnefningar skulu liggja fyrir til afgreiðslu á næsta fundi.

Formaður vakti síðan máls á því að gulllampann megi aðeins veita einstaklingum. Taldi hann viðeigandi að veita fyrirtækjum og stofnunum sem sýnt hafa blindum og sjónskertum sérstaka velvild og þjónustu samsvarandi viðurkenningu. Lagði hann til að viðurkenningin yrði í formi silfurlampa sem settur verði upp á veglegan hátt og skyldi minna á lampann í merki félagsins.

ÓH fór næst yfir nokkrar hugmyndir um útlit viðurkenningarinnar og kostnað við smíði hennar.

Ítarlegar umræður urðu um málið og voru allir sem til máls tóku sammála um að rétt og viðeigandi væri að veita slíka viðurkenningu. Þá bar formaður upp tillögu um að viðurkenningin verði veitt á afmælishátíð félagsins og verði kölluð „Samfélagslampi Blindrafélagsins“. Lagði hann til að eftirtaldir aðilar yrðu tilnefndir til að hljóta viðurkenninguna:

Reykjavíkurborg fyrir þá framsýni og myndarskap sem borgin sýndi með gerð samnings við Blindrafélagið um ferðaþjónustu fyrir blinda í Reykjavík sem tók gildi 1. janúar 1997 og starfað hefur verið eftir allar götur síðan.

Bónus verslunarkeðjunni fyrir mikla tryggð og velvild sem fyrirtækið hefur sýnt blindum og sjónskertum með áralöngum viðskiptum við Blindravinnustofuna en Bónus er mikilvægasti dreifingaraðili landsins á vörum vinnustofunnar. Hafa þau viðskipti á beinan hátt veitt fjölda manns úr röðum félagsmanna atvinnu allt frá stofnun Bónus fyrir 20 árum síðan.

Stjórnarmenn samþykktu samhljóða að stofna til þessarar viðurkenningar og veita báðum þessum aðilum „Samfélagslampa Blindrafélagsins“ á afmælishátíð félagsins.

Formaður vék síðan máli sínu að afmælisriti félagsins sem koma mun út í ágúst n.k. Hann lagði til að ritið verði ekki kallað Blindrasýn heldur fái annað nafn. Eftir stuttar umræður var samþykkt að fela ritnefnd að finna nafn á afmælisritið.

Sumarstarfsáætlun Blindrafélagsins 2009

Formaður lagði fram til upplýsingar starfsáætlun félagsins til ágústloka 2009. Þar eru tilgreindir helstu viðburðir sem þegar eru ákveðnir og tillögur að dagsetningum stjórnarfunda. Lagði hann áherslu að dagsetningarnar væru einungis til viðmiðunar og alls ekki endanlegar.

Meðal fyrirhugaðra viðburða er NSK ráðstefna sem haldin verður í Almosa í Svíþjóð 23 – 27. ágúst n.k. Samþykkt var að senda 6 fulltrúa frá félaginu á ráðstefnuna og leitast verði við að hafa kynjaskiptingu jafna. Var formanni og framkvæmdastjóra falið að finna fulltrúa.

Önnur mál

HS – Leggur til að nefnd verði skipuð til að vinna að vetrarstarfi Opins húss næsta vetur. Samþykkt var að HS, ÓÞJ og ÓH skipi stýrihóp til að undirbúa vetrarstarfið. Þeir munu kveða fleira fólk til þátttöku í stýrihópnum eftir þörfum.

LS – Leggur til að Harpa Völundardóttir taki þátt í tómstundarnefnd næsta vetur. Samþykkt.

KS – Vill að Hreyfill/Bæjarleiðir sendi tilkynningar til félagsins um taxtabreytingar hjá leigubílunum. Samþykkt að framkvæmdastjóri fylgi þessu eftir.

HSG varpaði fram hugmynd um að gera könnun á fyrirkomulagi varðandi ferðaþjónustu. Hverjir eru valkostirnir? Hvað kosta þeir? Hver eru gæði valkostanna? – Stjórnarmenn lýstu áhuga sínum á slíkri könnun en enginn samþykkt var gerð.

ÓJÞ – Vill stofna klúbb sykursjúkra innan félagsins. Var hvattur af öðrum stjórnarmönnum til að hafa frumkvæði af slíkri klúbbstofnun sjálfur.

ÓÞJ – Vill að gengið verði harðar eftir skýrslum frá félagsmönnum sem fara í ferðir á vegum félagsins eða með styrk frá félaginu og slíkar skýrslur verði birtar á miðlum félagsins.

ÓÞJ – Vill að rætt verið við Sjónvarpið um að fá lesnar íslenskar þýðingar á erlendu sjónvarpsefni.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19:10

Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson