Fundargerð félagsfundar 9. og 10. febrúar 2016

Fundargerð.

1. Starfandi formaður Blindrafélagsins, Halldór Sævar Guðbergsson  setti fund kl. 17:03 og bauð fundarmenn velkomna. Hann vonaðist eftir að fundarmenn yrðu málefnalegir þegar þeir tækju til máls.
 
2. Fundarmenn kynntu sig og voru rúmlega 50 félagsmenn mættir en fjölgaði eftir því sem á leið fundinn. Auk þess voru sannleiksnefndarmenn mættir á fundinn ásamt starfsmanni nefndarinnar og nokkrum starfsmönnum Blindrafélagsins.
 
3. Þá var gengið til kjörs fundarstjóra og fundarritara. Stjórn lagði til að Kolbeinn Óttarsson Proppe yrði fundarstjóri. Var það samþykkt.
Þá lagði stjórn til að Gísli Helgason yrði kjörinn fundarritari. Stungið var upp á utanaðkomandi fundarstjóra, Ólafi Haraldssyni. Kosið var um þá tvo. Gísli hlaut 33 atkvæði og Ólafur 17 atkvæði. Gísli Helgason var því rétt kjörinn fundarritari.

 4. Þá var fundargerð síðasta félagsfundar borin upp til samþykktar. Ein athugasemd kom sem byggðist á misskilningi, en fundargerðin var samþykkt samhljóða.

5. Fundarstjóri kynnti sannleiksnefnd Blindrafélagsins og kvað kynninguna á skýrslu sannleiksnefndar verða nokkurs konar upphaf af því hvað Blindrafélagið hyggist gera við skýrsluna, en allir í sannleiksnefnd voru á fundinum, þau  Gestur Páll Reynisson, Helga Baldvins og Bjargardóttir, og Salvör Nordal Auk Gunnars Matthíassonar starfsmanns nefndarinnar.
Síðan fengu nefndarmenn orðið og fóru þau Gestur Páll, Salvör og Helga Björg yfir niðurstöður skýrslunnar. Þau lögðu  áherslu á að fólk kynnti sér efni skýrslunnar í heild. Í lok kynningar sannleiksnefndar fór Gestur Páll yfir þá aðferðafræði sem beitt var við gerð skýrslunnar.
Skýrsla sannleiksnefndar er fylgiskjal með þessari fundargerð.

Þá hófust umræður þar sem fundarmönnum gafst færi á að ræða efni skýrslunnar og spyrja sannleiksnefndarmenn út úr.
Margrét Guðný Hannesdóttir tók fyrst til máls. Þar á eftir þeir Sigtryggur R. Eyþórsson og Gísli Helgason.
Vilhjálmur H. Gíslason lagði fram tillögu um að félagsfundurinn samþykkti að taka vantrauststillögu stjórnar til baka. Fundarstjóri kvað tillöguna ótæka þar sem félagsfundur gæti ekki dregið til baka ályktun eða tillögu stjórnar, en fundur gæti hvatt stjórn til ýmissa verka.
Umræður um skýrsluna héldu áfram. Til máls tóku Sigþór U. Hallfreðsson, Vilhjálmur H. Gíslason, Steinar Björgvinsson, Elín H. Bjarnadóttir og Ólafur Þór Jónsson.

Síðan las fundarstjóri upp tillögu frá Vilhjálmi h. Gíslasyni að ályktun félagsfundarins.

Reykjavík 9. Febrúar 2016.
Í ljósi þess að sannleiksnefnd Blindrafélagsins kemst að þeirri niðurstöðu að meiri hluti stjórnar hafi farið offari með framgöngu sinni með vantrauststillögu á hendur formanni og hafi ekki farið rétt að með orðum sínum og gerðum, ef tilgangurinn var að vernda orðspor Blindrafélagsins og hag hins unga félagsmanns, hvetur fundurinn stjórn Blindrafélagsins eindregið til þess að draga vantrauststillögu sína á Bergvin Oddsson til baka“.
Umræður um skýrslu sannleiksnefndar héldu svo áfram.
Til máls tóku Guðmundur Rafn Bjarnason, Halldór Sævar Guðbergsson, Vilhjálmur H. Gíslason, Sigríður Björnsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Marjakaisa Matthíasson og Bergvin Oddsson sem sagði m.a að miðað við þann tón sem væri í skýrslunni myndi hann mæta aftur til starfa sem formaður Blindrafélagsins á morgun, 10. febrúar. Umræður um skýrsluna héldu áfram og til máls tóku Sigurður Ármann Sigurjónsson, Gísli Helgason, Rósa María Hjörvar, Bergvin Oddsson, Elínborg Lárusdóttir og Friðgeir Þ. Jóhannesson. Allir sem til máls tóku lýstu mikilli ánægju með störf sannleiksnefndar. Fundarstjóri lauk umræðum um skýrsluna og fulltrúar í sannleiksnefndinni svöruðu ýmsum spurningum sem fundarmenn höfðu beint til þeirra.

6. Þá var tekin fyrir tillaga að ályktun fundarins, sem Vilhjálmur Gíslason bar fram. Beðið var um leynilega atkvæðagreiðslu. Til máls tóku: Bergvin Oddsson, Inga Sæland, Gestur Páll Reynisson, Gísli Helgason og Rósa María Hjörvar. Gert var fundarhlé á meðan kannað var um framkvæmd atkvæðagreiðslu og hljóp mikill hiti í suma fundarmenn og mátti heyra óvarleg orð frá nokkrum þeirra. Í ljós kom að mikinn undirbúning þurfti fyrir leynilega atkvæðagreiðslu. Að lokum ákvað fundarstjóri að fresta fundi til morguns, miðvikudags 10. febrúar klukkan 17:00. Hann bar upp tillögu þess efnis sem var samþykkt með 21 atkvæði gegn 5. Fundi var frestað kl. 19:30.

Framhald félagsfundarins 10. febrúar.

Fundarstjóri hélt áfram fundinum kl. 17:00 og kynntu fundarmenn sig.
Þá las fundarstjóri upp tillögu Vilhjálms H. Gíslasonar sem kom fram á fyrri hluta fundarins daginn áður.

Borist hafði frávísunartillaga á tillögu Vilhjálms:
„“Við undirrituð gerum það að tillögu okkar að tillögu Vilhjálms H. Gíslasonar sem liggur fyrir fundinum verði vísað frá. Við teljum að verði tillagan borin undir atkvæði muni það hafa í för með sér djúpstæðan klofning innan Blindrafélagsins. Við þá afgreiðslu mun frá okkur öllum verða tekinn möguleikinn á yfirvegaðri skoðun á skýrslu sannleiksnefndar, með það sem forgangsatriði að skapa frið innan félagsins okkar. Gefum öllum félagsmönnum og stjórn Blindrafélagsins rými til að leggja sjálfstætt mat á efni skýrslunnar, bregðast við tillögum og ábendingum sannleiksnefndarinnar og vísum frá ótímabærri ályktunartillögu Vilhjálms H. Gíslasonar“.
Undir frávísunartillöguna rituðu Halldór Sævar Guðbergsson, Rósa María Hjörvar, Lilja Sveinsdóttir, Baldur Snær Sigurðsson og Rósa Ragnarsdóttir.
 
Fundarstjóri gaf Halldóri Sævari orðið og fylgdi hann tillögunni úr hlaði.
Síðan var orðið gefið laust um frávísunartillöguna. Til máls tóku: Vilhjálmur H. Gíslason, Rósa María Hjörvar, Elín H. Bjarnadóttir, Steinar Björgvinsson, Haraldur Matthíasson, Friðgeir Þ. Jóhannesson, Guðmundur Rafn Bjarnason, Ragnar Þór Steingrímsson, Edith Jónsson, Vilhjálmur H. Gíslason, Marjakaisa Matthíasson, Bergvin Oddsson, Elín H. Bjarnadóttir, Rósa Ragnarsdóttir, Friðgeir Þ. Jóhannesson, Sigtryggur R. Eyþórsson, Oddur Stefánsson, Sigríður Björnsdóttir, Sigþór U. Hallfreðsson, Gísli Helgason, Þórarinn Þórhallsson og Halldór Sævar Guðbergsson. Þar með lauk umræðum um frávísunartillöguna.
Fundarstjóri las upp frávísunartillöguna og gengið var til leynilegrar kosningar þar sem beiðni hafði komið um slíkt.
Að loknum kosningum greindi fundarstjóri frá niðurstöðum þeirra.
56 fundarmenn greiddu atkvæði. Já sögðu 43, nei sögðu 11. Tillögu Vilhjálms H. Gíslasonar var hér með vísað frá.

7. Önnur mál.

Gísli Helgason sagði frá því að hann væri að leita að efni með gömlum félaga okkar Jónasi Tryggvasyni frá Blönduósi og sagði aðeins frá honum. Fór með eftirfarandi vísu Jónasar sem hann sendi Gísla á leið til Færeyja árið 1974.

„Áhyggju hef ég ekki stóra
Uppi í himnarann.
Skömm er að eiga skemmtistjóra
Og skeyta lítt um hann“.
Halldór Sævar Guðbergsson deildi reynslu sinni af aðgengi á Landspítalanum, en þar mætti margt gera betur t.d. Fyrir blint og sjónskert fólk. Þá greindi Halldór frá fyrirhuguðum styrktarsamningi Hreyfils við Blindrafélagið, en Hreyfill mun styrkja Blindrafélagið um 1 prósent af veltu ferðaþjónustu Blindrafélagsins í 3 ár. Upphæð gæti numið tæpri milljón á ári.
María Hauksdóttir reifaði aðkomu sína að þessu máli sem fundurinn snérist fyrst og fremst um.
Ólafur Þór Jónsson ræddi um innra starf og kallaði eftir námskeiði í fundarstjórn og ræðumennsku.
Sigþór U. Hallfreðsson skaut fram eftirfarandi frumsaminni limru:
„Þó einhverjum þyki það leitt
Þagna ég ekki yfirleitt.
Því verð ég að segja
Ég vil ekki þegja
Og blaðra því bara út í eitt“.
Vakti síðan athygli á fræðslufundi RP-nefndar Blindrafélagsins í næsta mánuði.
Bergvin Oddsson beindi spurningum til framkvæmdastjóra um kostnað við sannleiksnefndina, spurði nokkra stjórnarmenn út í stjórnarsetu þeirra og tilkynnti um framboð sitt til formanns á næsta aðalfundi. Sagðist enn stíga til hliðar.
Rósa Ragnarsdóttir vakti athygli á gönguferðum ferða og útivistarnefndar og aðgengismálum.
Kristinn H. Einarsson upplýsti að kostnaður vegna sannleiksnefndar yrði um 2 milljónir króna.

Þar með lauk fundinum og fundastjóri sleit fundi um kl. 19:10. Þá hafði fundurinn staðið í á sjötta klukkutíma.
Hljóðritun af fundinum er á heimasíðu Blindrafélagsins, www.blind.is
17. október 2016
Gísli Helgason fundarritari.