Félagsfundur miðvikudaginn 13. mars.
1. Fundarsetning
Formaður félagsins, Sigþór U. Hallfreðsson, setti fundinn kl. 16:30. Hann nefndi að yfirstandandi framkvæmdir á sjöttu hæð ætti að klárast í ágúst.
2. Kynning fundargesta
Fundinn sóttu 29 fundarmenn.
3. Kjör starfsmanna fundarins
Unnur Þöll Benediktsdóttir var kosin fundarstjóri og Marjakaisa Matthíasson fundarritari.
4. Afgreiðsla fundargerðar síðasta félagsfundar.
Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.
5. Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ kynnir tillögur að nýju örorkulífeyriskerfi
Nýr formaður ÖBI Alma Ýr sagði frá því að ÖBI hafi ekki verið boðið að taka þátt í hönnun nýja almannatryggingakerfisins. Breytingarnar koma fyrst og fremst vegna starfsgetu- og virkniúrræða. Frumvarpið er mjög langt, það telur tæpar 80 blaðsíður og gefin var um vika til að koma með athugasemdir við frumvarpið. Alma tók fram að frumvarpið innihaldi bestu breytingarnar hingað til en það hefur líka vankanta. Nú er talað um samþætt sérfræðimat í staðinn fyrir starfsgetumat en auk þess kemur einstaklingurinn með persónulegt sjálfsmat.
Helstu breytingarnar í lífeyriskerfinu eru þessar: það verða nýir flokkar hlutaörorkulífeyris og virknigreiðslur fyrir þá sem geta unnið, grunnlífeyrið mun hækka um 20.000 kr., greiðsluflokkum fækkar og búið verður til þjónustugátt sem á að grípa fólk sem greinist með fötlun þannig að viðkomandi þarf ekki að fara á milli stofnanna.
Ein af mikilvægustu spurningum er hvar á að finna hlutastörfin? Fólk á að vera í atvinnuleit og getur ferlið tekið allt að tvö ár. Einstaklingur sem þarfnast endurhæfingar sendir inn endurhæfingaráætlun og byrjar að fá greiðslur sem eiga að koma í veg fyrir tekjutap. Hins vegar eru endurhæfingarúrræði ekki fyrir hendi. Lögin gera ráð fyrir samhæfingarteymi sem á að finna þessi úrræði.
Lögin eiga taka gildi 1. janúar 2025 varðandi greiðslukerfið en sérfræðimat kemst í gagnið ári seinna.
Það kom fram að lögin breyta engu fyrir fólk með varanlega örorku. Almennt frítekjumark verður 350.000 kr. Spurt var hvort við værum betur sett með nýju lögin og hvort mögulegt sé að hafa áhrif á stjórnvöld?
Alma Ýr sagði að ÖBI sé búið að gera ítarlega umsögn um frumvarpið og að þetta sé fyrsti fasinn. Í umsögninni eru spurðar krefjandi spurningar sem þarf að svara til þess að hægt sé að taka afstöðu til málsins þegar það fer í umræðu hjá þinginu.
ÖBI tekur einnig fram í umsögn sinni að áhrifum af þessum breytingartillögum hefur hvergi verið mætt. Vinnumálastofnun hefur þó farið af stað með vinnumarkaðsaðgerðir sem eiga að hvetja til opnunar á hlutastörfum.
6. Jenný Kristín Valberg teymisstjóri kynnir starfsemi Bjarkarhlíðar
Bjarkahlíð er stofnun sem sinnir þjónustu fyrir þolendur ofbeldis og er búið að vera staðsett á Bústaðarvegi síðastliðin sjö ár. Einstaklingur sem hefur samband við Bjarkarhlíð getur fengið margskonar ókeypis þjónustu, m.a. lögfræðiaðstoð, fund með lögreglu án þess að þurfa að tilkynna brot og getur fengið upplýsingar um hvar mál hans sé statt í kerfinu. Viðkomandi ræður hvernig unnið er að hans málum og tekur ákvarðanir um framhaldið. Öll þjónustan er á einum stað.
Á hverju ári koma í kringum 1000 ný tilfelli í Bjarkarhlíð. Langflestir þolendanna eru íslenskar konur. Jaðarsettir hópar – fatlaðir, eldra fólk og útlendingar – eiga erfiðara með að nálgast þessa þjónustu. Jenný Kristín skilgreindi ofbeldi sem athæfi þar sem annar aðilinn óttast hinn, markmiðið er að brjóta niður hinn aðilann og ná honum á sitt vald. Ofbeldið kann að vera af ýmsum toga: andlegt, líkamlegt, kynbundið, kynferðislegt og fjárhagslegt.
Fjárhagslegt ofbeldi er mikið notað innan viðkvæmra hópa, m.a. geta fullorðin börn beitt honum á foreldra sína. Andlegt ofbeldi er alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis þar sem gerandinn setur þarfir sínar fram yfir þolendans.
Það urðu líflegar umræður um málið. Það var m.a. nefnt að margir af sjónskertum hafa örugglega mátt þola mismunun í skólanum sem líka má telja sem ofbeldi. Einnig var spurt hvernig best sé að hafa samband við Bjarkarhlíð. Hver sem er getur bókað tíma með því að hringja, nota símaforritið, í gegnum heimasíðu eða tölvupóst.
Jenný tók fram að ofbeldismálum hefur ekki fjölgað heldur tilkynningum. Stundum finnur þolandinn til léttis með því að tilkynna gamalt brot þótt hann viti að málið sé fyrnt.
7. Önnur mál
Gísli Helgason nefndi í sambandi við atvinnumál og örorkulífeyri að margir sjónskertir séu sennilega lengur að vinna en fullsjáandi fólk og taldi hann að margir vilja ekki vinna vegna þess að það skerðir lífeyrinn.
8. Fundarslit
Formaður þakkaði fundargestum fyrir góðan fund og sleit fundinn kl. 18:10.