Frumvarpi til laga um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda lagt fram á Alþingi

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem unnið hefur verið að á undanförnu eina og hálfu ári í mjög góðu samstarfi allra hagsmunaaðila. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir öflugt og virkt samráð, enda er mjög breið samstaða um öll meginatriði frumvarpsins. Að samráðinu komu félags og tryggingarmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samband Íslenskra Sveitarfélaga, Blindrafélagið, foreldradeild Blindrafélagsins, Daufblindrafélagið, starfsfólk Sjónstöðvar Íslands og kennsluráagjafar blindra og sjónskertra nemenda.

Á tímabili leit út fyrir að þetta mál myndi ekki ná inn á þing fyrir áramót og hefði það haft í för með sér mikið upplausnarástand í málaflokki sem hefur verið vanræktur til margra ára. Eftir að ég og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins áttum stuttan fund með Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir milligöngu okkar öfluga liðsmanns Helga Hjörvar, komst hreyfing á málið. Í kjölfarið sendi stjórn Blindrafélagsins bréf til allra þeirra þriggja ráðherra sem komið hafa að málinu og afrit til forsætisráðherra, þar sem grein var gerð fyrir hversu alvarlegar afleiðingar það gæti haft ef málið yrði ekki lagt fram og samþykkt fyrir áramót.

Nú er málið komið á dagskrá sem ríkisstjórnarfrumvarp og ber að fær ríkisstjórninni þakkir fyrir sinn þátt í málinu. Nú er hinsvegar komið að Alþingi og vil ég hvetja þingmenn til að afgreiða málið, enda er um það breiða samstaða allra megin hagsmunaaðila og allur undirbúningur og samráð við frágang málsins hefur verið til fyrirmyndar.   

Grein