Aðalfundur Blindrafélagsins var haldinn í húsnæði félagsins að Hamrahlíð 17 laugardaginn 11. maí. Góð þátttaka var meðal félagsmanna, þeir þátttakendur sem ekki sáu sér fært að mæta tóku þátt í gegnum zoom fjarfundarbúnað.
Á fundinum lauk kosningu til trúnaðarstarfa sem staðið hafði yfir rafrænt frá 30. apríl þar til fundarstjóri lokaði fyrir atkvæðagreiðslu kosninga.
Kosið var til embættis formanns Blindrafélagsins og voru tveir í framboði.
Kosningar fór þannig að:
Sigþór U. Hallfreðsson hlaut 91 atkvæði eða 93,81% atkvæða.
Bergvin Oddsson hlaut 4 atkvæði eða 4,12% atkvæða. (Atkvæði Bergvins voru ógild þar sem frambjóðandi dró framboð sitt til baka á aðalfundi.)
Tveir skiluðu auðu eða 2,06% atkvæða.
Einnig voru kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn til stjórnar félagsins.
Kosningar fóru þannig að:
Rósa María Hjörvar hlaut 89 atkvæði eða 90,82% atkvæða.
Sandra Dögg Guðmundsdóttir 74 atkvæði eða 75,51% atkvæða.
Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir 74 atkvæði eða 75,51% atkvæða.
Þórarinn Þórhallsson 66 atkvæði eða 67,35% atkvæða.
Eliona Gjecaj 38 atkvæði eða 38,78% atkvæða.
Bergvin Oddsson 7 atkvæði 7,14% atkvæða. (Atkvæði Bergvins voru ógild þar sem frambjóðandi dró framboð sitt til baka á aðalfundi.)
Rósa María og Sandra Dögg taka sæti í stjórn sem aðalmenn og Ásdís og Þórarinn taka sæti sem varamenn.
Mikill og sterkur einhugur var meðal fundargesta.
Fundurinn samþykkti svohljóðandi ályktun.
Ályktun Aðalfundar Blindrafélagsins 2024
Aðalfundur Blindrafélagsins 2024 hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga í allri stefnumótun og allri þróun á nýjum lausnum innan upplýsingatækni og innleiðingu stafrænnar þjónustu. Aðalfundur ítrekar einnig mikilvægi þess að viðhalda því aðgengi sem þó hefur áunnist og krefur stjórnvöld um að standa vörð um sjálfstæði og starfsemi Hljóðbókasafns Íslands, en safnið er gott dæmi um það hvernig hægt er að veita aðgengi að efni sem annars væri okkur lokuð bók.
Greinargerð:
Blindir og sjónskertir hafa lengi verið leiðandi afl í þróun tæknilausna, enda er það i okkar hag að samfélagið verði eins stafrænt og kostur er. Því miður hefur borið á því að þær lausnir sem þróaðar eru séu ekki aðgengilegar okkar hóp, þó að þær ættu að geta verið það. Vandinn virðist oft á tíðum vera skortur á heilstæðri stefnumótun og eftirfylgd. Við hvetjum stjórnvöld til þess að tryggja að allar þær lausnir sem þróaðar eru séu í samræmi við WCAG 2.1 staðalinn og það sé þannig tryggt að blindir og sjónskertir hafi aðgang af þeim. Blindir og sjónskertir eiga, og skulu eiga rétt á, að sækja sér upplýsingar, hvort sem það er vegna vinnu eða náms, eða til dægrastyttingar, og þá er það stjórnvalda að tryggja jafnan rétt okkar til upplýsinga í lýðræðis og velferðarþjóðfélagi.