Á myndinni eru frá vinstri Aðalsteinn Sigfússon félagsmálastjóri Kópavogs, Theódóra S Þorsteinsdóttir forseti bæjarstjórnar, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Sigþór U Hallfreðsson formaður Blindrafélagsins, Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri Blindrafélagsins og Guðlaug Ósk Gísladóttir deildarstjóri þjónustu og ráðgjafadeild fatlaða fólks.
Þann 14. mars undirrituðu Blindrafélagið og Kópavogsbær þjónustusamning um að Blindrafélagið taki að sér að reka ferðaþjónustu fyrir íbúa Kópavogsbæjar sem eru greindir lögblindir af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar.
Samningurinn er afrakstur eins og hálfs árs viðræðulotu sem var leidd af Kristini Halldóri Einarssyni framkvæmdastjóra Blindrafélagsins fyrir hönd félagsins. Blindrafélagið hefur í áratugi reynt að fá samskonar ferðaþjónustusamning við Kópavog og í gildi hefur verið í Reykjavík frá 1997.
Formaður Blindrafélagsins, Sigþór U Hallfreðsson segir að með þessum samningi sé langþráðu markmiði náð og að samningurinn muni stuðla að bættum lífsgæðum fjölmargra lögblindra kópavogsbúa, en í Kópavogi búa 75 lögblindir einstaklingar. Það er einungis í Reykjavík þar sem að fleiri lögblindir einstaklingar eiga lögheimili.
Tilgangurinn með samningnum er að gera lögblindum kópavogsbúum kleift að leggja stund á nám, sækja vinnu, heilbrigðisþjónustu, hæfingu og endurhæfingu og taka þátt í tómstundum. Til ferðaþjónustu samkvæmt samningnum notar Blindrafélagið leigubifreiðar frá Hreyfli.
Þjónustusvæði ferðaþjónustunnar er Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.
Umsóknir um ferðaþjónustu
Nýir umsækjendur skulu sækja um aðgang að ferðaþjónustu Blindrafélagsins til velferðarsviðs Kópavogsbæjar, sem fjallar um umsóknina og ákveður fjölda ferða í samræmi við gildandi reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
Sótt er um ferðaþjónustu á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að prenta út af heimasíðunni eða sækja í þjónustuver einnig er hægt að senda inn rafræna umsókn í gegnum íbúagáttina. Með umsókn þarf að fylgja vottorð frá fagaðila sem staðfestir fötlun viðkomandi. Í umsókn þurfa að koma fram ástæður fyrir umsókn, svo og óskir um fjölda ferða.
Samkvæmt núgildandi reglum Kópavogsbæjar þá er er hámarksfjöldi ferða fyrir fatlað fólk 68 ferðir á mánuði, þar af eru 44 ferðir ætlar til vinnu, skóla og hæfingu og 24 ferðir til einkaerinda. Frekari upplýsingar um ferðaþjónustu fatlaðra..
Blindrafélagið gerir sérstakan samning við hvern notanda um þjónustuna og er félaginu aðeins heimilt að gera samning við þá sem hafa fengið samþykki fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá velferðarsviði Kópavogs.
Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur frá A til B innan þjónustusvæðis.
Skráning ferða
Blindrafélagið leggur til rafræn kort fyrir hvern notanda til notkunar í leigubifreiðunum í samráði við velferðarsvið Kópavogs sem bílstjóri skal nota til að skrá hverja ferð.
Kostnaðarhlutdeild notenda
Blindrafélagið innheimtir af notendum þá kostnaðarhlutdeild sem í þeirra hlut kemur fyrir ferðaþjónustuna. Grunnkostnaðarhlutdeild notanda skal fylgja staðgreiðslufargjaldi hjá Strætó bs. eins og það er hverju sinni.
Við útreikning á kostnaðarþátttöku notanda skal notast við kostnaðarþrep og skal fyrsta þrep vera allt að: Startgjald + 25 km á dagtaxta samkvæmt gjaldskrá leigubílastöðvar sem veitir þjónustuna á hverjum tíma.[1] Annað kostnaðarþrep skal vera 2.000 kr. hærra en það fyrsta, þriðja kostnaðarþrep 2.000 kr. hærra en annað og svo koll af kolli. Kostnaðarhlutdeild notanda hækkar um sem nemur einu staðgreiðslufargjaldi Strætó fyrir hvert kostnaðarþrep.
Dæmi:
Kostnaður ferðar allt að: 690k r – 6.599 kr., kostnaðarhlutdeild notanda: 460 kr.
Kostnaður ferðar allt að: 6.600 – 8.599 kr., kostnaðarhlutdeild notanda: 920 kr.
Kostnaður ferðar allt að: 8.600 – 10.600 kr., kostnaðarhlutdeild notanda: 1.380 kr.
Kostnaðarhlutdeild notanda breytist sjálfkrafa í samræmivið breytingar á fargjöldum Strætó bs. og gjaldskrá leigubílastöðvar.
Velferðarsvið Kópavogs tekur ekki þátt í niðurgreiðslu fyrir ferðir notanda utan þjónustusvæðis eða utan tímabilsins kl. 06:30 - 24:00 og skal Blindrafélagið innheimta allan kostnað vegna slíkra ferða af notanda.