Innan Blindrafélagsins hefur um nokkurt skeið verið til umfjöllunar mikilvægi þess að á vettvangi félagsins sé til staðar aðgerðaráætlun gegn kynferðisbrotum. Eftir töluverða vinnu og samráð við fagaðila var það niðurstaðan að rétt væri að kanna möguleikann á að setja á fót fagráð um kynferðisbrot gegn fötluðu fólki og bjóða nokkrum samtökum fatlaðs fólks til samstarfs um mótun og skipulag þess.
Þau samtök sem Blindrafélagið hefur óskað eftir samstarfi við eru: Félaga heyrnarlausra, Geðhjálp, Landssamtökin Þroskahjálp og Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra. Jafnframt hefur verið óskað eftir samstarfi við Stígamót, enn fréttir hafa verið sagðar af áformum Stígamóta um að ráða sérstakan starfsmann til að sinna fötluðu fólki sem þangað leitar. Auk þess mun málið verða sérstaklega kynnt fyrir forustu ÖBÍ.
Fyrstu hugmyndir ganga út á að fagráðið verði skipað aðilum með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks og kynferðisafbrotum og í þeim hópi verði lögfræðimenntaður einstaklingur, heilbrigðisstarfsmaður, félagsráðgjafi og þroskaþjálfi.
Þjónusta fagráðsins verður opin opið öllu fötluðu fólki.
Það er mat stjórnar Blindrafélagsins að þörf sé á sérstökum faglegum vettvangi sem veitir þeim fötluðu einstaklingum sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi sérstakan stuðning við að ná fram þeirri úrlausn sem brotaþoli óskar eftir og lög gefa tilefni til. Eins er mikilvægt að samtökin setji sér skýrar reglur um viðbrögð ef fram koma ásakanir um, kynferðisbrot á vettvangi samtakanna.
Fréttir af ofbeldi gegn fötluðu fólki hér á landi eru margar og í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aðstæður fólks með fötlun sem kom út árið 2011 eru dregnar fram sláandi upplýsingar sem sýna að fatlað fólk býr við mun meiri hættu á því að vera beitt ofbeldi en aðrir. Jafnframt má benda á niðurstöður nýrrar eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið veita mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur.