Hér fer að neðan meginpartur bréfs sem barst ráðgjafa Blindrafélagsins. Forvitnilegt er að birta bréfið í ljósi umræðna um réttindi fatlaðs fólks og þekkingar almennings á þeim. Tilvalið er að nota þetta bréf til að vekja athygli á 23 greininni í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hún fjallar um Virðing fyrir heimilis- og fjölskyldulífi.
Bréfið er svohljóðandi:
".. Við erum lítill hópur í sálfræði áfanga um fötlun/hömlun og erum að gera verkefni um barneignir blindra.
Við vorum þess vegna að spá hver viðhorf séu til barneignir blindra en dæmið sem við eigum að ræða um er kona sem hefur 10% sjón og maðurinn hennar undir 5%. Þau búa í húsum blindrafélagsins og nú er hún orðin ólétt og spurning okkar er: hvað finnst ykkur að hún ætti að gera? ..
Eru einhver réttindi blindra til barneigna? Þá hjálp við uppeldið kannski? Hvernig hefur það áður gengið að tveir blindir einstaklingar eigi barn saman. ..."
Úr Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:
"23. gr. Virðing fyrir heimilis- og fjölskyldulífi.
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðum í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:
a) að réttur allra fatlaðra, sem til þess hafa náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,
b) að réttur fatlaðra til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, þar sem tekið er tillit til aldurs, að upplýsingum og fræðslu um getnað og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að þeim séu tiltæk nauðsynleg ráð sem gera þeim kleift að nýta sér þennan rétt. c) að fatlaðir, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðra með tilliti til lögráða, forráða, fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum, og skal setja hagsmuni barnsins ofar öllu. Aðildarríkin skulu veita fötluðum viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra tímanlegar og alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.
4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum sakir fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að fá annan aðila innan stórfjölskyldunnar til þess að annast barnið og reynist það ekki unnt þá ráðstafa því til fjölskyldu innan samfélagsins."