Alþjóða dagur hvíta stafsins kemur í ár upp á 15 október. Hvíti stafurinn er þekktasta og mest notaða umferlisverkfæri blindra og sjónskertra einstaklinga. Í tilefni dagsins mun Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, í samstarfi við sniglanna og Ökukennarafélag Íslands, gefa blindum og sjónskertum tækifæri á að aka um á mótorhjólum. Mun það fara fram á planinu við Kirkjusand og hefst kl 16:00. Auk þess mun verða kynning á merkilegri ferðaskrifstofu sem ber nafnið Traveleyes í Opnu húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17. Þessi ferðaskrifstofa er stofnuð af blindum einstaklingi og sérhæfir sig í fjölbreyttum ferðalögum það sem sjáandi, sjónskertir og blindir njóta þess að ferðast saman.
Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Blindrafélagið munu standa fyrir kynningu á hvíta stafnum á tveimur stöðum í Reykjavík í dag. á Háskólatorgi mun verða kynning í hádeginu og svo í Kringlunni seinni partinn, sjá nánar í fréttatilkynningu frá miðstöðinni.
Fréttatilkynning frá Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskertra og daufblinda einstaklinga í tilefni af degi Hvíta stafsins 15 október 2009
Fimmtudaginn 15. október 2009 verður Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga með kennslu í notkun hvíta stafsins á Háskólatorgi við Háskóla Íslands kl. 11-13 og í Kringlunni kl. 16-18. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á hvíta stafnum, þýðingu hans fyrir notandann og umhverfið og einnig að vekja athygli á umferli blindra og sjónskertra einstaklinga. Við hvetjum alla sem áhuga hafa á málefninu að vera með okkur þennan dag, annaðhvort á Háskólatorgi eða í Kringlunni, og fræðast um hvíta stafinn og umferli.
Hvað er hvíti stafurinn?
Hvíti stafurinn er mikilvægt hjálpartæki sem notað er til að afla upplýsinga í umhverfinu sem ferðast er um.
Hvíti stafurinn minnir jafnframt sjáandi vegfarendur á að notandi hvíta stafsins er sjónskertur og upplifir því umhverfið og umferðina ekki á sama hátt og hinn sjáandi vegfarandi.
Hvíti stafurinn er hjálpartæki sem getur aðstoðað blinda og sjónskerta mikið og aukið sjálfstæði og öryggi við að komast leiðar sinnar.
Til eru nokkrar gerðir stafa:
Þreifistafur: Hefðbundinn hvítur stafur sem notaður er í umferli. Hann er langur og oftast samanbrjótanlegur. Á göngu er honum haldið fyrir framan vegfarandann til að upplýsa hann um hugsanlegar hindranir eða misfellur í veginum eða til að fullvissa notandann um að leiðin sé greið. Hann er líka notaður til að finna hluti og kennileiti og aðstoðar þannig einstaklinginn við að staðsetja sig.
Merkistafur: Stuttur og samanbrjótanlegur stafur sem er merki til umhverfisins um að notandinn sé sjónskertur. Stafinn má einnig nota til að þreifa á og finna hluti í umhverfinu.
Göngustafur: Stafur sem hægt er að stilla lengdina á. Stafurinn er notaður til stuðnings og til að halda betur jafnvægi.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sér um úthlutun hvíta stafsins. Miðstöðin er til húsa að Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík, á fimmtu hæð og þar eru veittar upplýsingar um hvíta stafinn. Einnig eru upplýsingar um hvíta stafinn og umferli á heimasíðu Miðstöðvarinnar á http://www.midstod.is/ og í síma 545 5800
Fréttatilkynning frá World Blind Union
Möguleikinn til að ferðast á öruggan og sjálfstæðan máta er öllum einstaklingum mikilvægur og öll viljum við komast á áfangastað á eins fljótlegan og öruggan hátt og kostur er. Þetta á ekkert síður við um blinda og sjónskerta einstaklinga en þá sem eru með fulla sjón.
Þrátt fyrir að ný tækni sé að ryðja sér til rúms, sem meðal annars leggur áherslu á notkun GPS staðsetningarbúnaðar og talþjóna í GSM símum, og getur þannig auðveldað umferli í borgum, þá er slík tækni langt frá því að vera öllum aðgengileg. Af þeim sökum mun hvíti stafurinn áfram verða helsta umferlisverkfæri þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.
Hvíti stafurinn er hvoru tveggja, orðinn þekkt tákn umferlis og tákn um að þeir sem hann bera eru annað hvort blindir eða sjónskertir og er notaður af blindum og sjónskertum einstaklingum um allan heim. Leiðsöguhundar eru einnig mikið notaðir í mörgum löndum.
Á degi Hvíta stafsins, 15. október 2009, vill World Blind Union, sem eru samtök um 160 milljón blindra og sjónskertra í heiminum í dag, vekja athygli á því að vissar tækninýjungar og breytingar geta verið ógn við öruggan og sjálfstæðan ferðamáta blinds og sjónskerts fólks.
Upplýsingar á hljóðformi eru mikilvægustu upplýsingar fyrir blinda og sjónskerta í umferli, t.d. til að ákvarða hvenær bílaumferð er stopp - frekar en hvenær merki hefur verið gefið um að umferðin eigi að stoppa. Þegar verið er að fara yfir götur sem ekki eru með umferðarljós er eina leiðin sú að hlusta eftir því hvort að umferð sé að koma til að ákvarða hvenær óhætt sé að fara yfir götu.
Allt veltur þetta á því að hægt sé að heyra í umferðinni. Á seinustu árum hafa mjög hljóðlátar bílvélar hins vegar orðið æ algengari. Þegar blindur eða sjónskertur einstaklingur heyrir í farartæki sem fer mjög hljóðlega, þá kann að vera orðið of seint að afstýra slysi þegar reynt er að fara yfir götur.
Þörfin fyrir að framleiða umhverfisvænni farartæki er óumdeild og við viljum ekki standa í vegi fyrir að slíkt gerist. Það er hins vegar mikilvægt að framleiðendur slíkra bifreiða hanni þær með það í huga að bifreiðarnar gefi frá sér einhver hljóð svo öryggi og sjálfstæði blindra og sjónskertra vegfarenda verði ekki teflt í tvísýnu. Í þessu samhengi má nefna að til er tækni til að framkalla hljóð sem tekur tillit til hljóðstyrks á umhverfishávaða án þess að kalla fram ónauðsynlega hávaðamengun.
Önnur ógn, sem verður algengari og snýr að hönnun, eru götur sem eru hvoru tveggja, göngugötur og fyrir bíla. Tilgangurinn er að skapa skemmtilegt umhverfi fyrir gangandi umferð og með minni og hægari bílaumferð. Hönnunin er oftast þannig að engar gangstéttarbrúnir eru á milli göngu- og aksturssvæða og enginn munur er á yfirborði þeirra. Þannig fara skilaboð á milli ökumanna og gangandi vegfarenda fram með samskiptum með augunum, t.d. koma menn sér saman um, í gegnum augnsamskipti, hvernig eða hvenær farið er yfir „götu".
Þetta fyrirkomulag grefur undan umferlismöguleikum blindra og sjónskertra á tvennan hátt: Í fyrsta lagi reiða blindir og sjónskertir einstaklingar sig á gangstéttarbrúnir, þær eru mikilvægar til rötunar og átta-skynjunar; og í öðru lagi þá eru samskipti í gegnum augnatillit ekki möguleg fyrir blint og sjónskert fólk.
Í upphafi 21. aldarinnar ættum við að leggja áherslu á að skapa bæi og götur sem eru öllum aðgengilegar og endurspegla samfélag þar sem mið er tekið af þeim meginreglum sem eru í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
World Blind Union skorar á ríkisstjórnir, stjórnvöld, hönnuði og framleiðendur að koma á og framfylgja alþjóðlegum stöðlum sem tryggja munu aðgengi allra fatlaðra einstaklinga. Sérstaklega eru hönnuðir og framleiðendur hvattir til að leita ráðgjafar hjá World Blind Union eða aðildarsamtökum þeirra og samstarfsaðilum, í þeim tilgangi að fara yfir hvaða afleiðingar breytingar á hönnun eða ný hönnun getur haft. Með þeim hætti má gera viðeigandi ráðstafanir snemma í ferlinu. Með þessu móti má stuðla að sjálfstæðum og öruggum ferðamáta allra, einnig þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.
Fréttatilkynning frá World Blind Union, sem Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, eiga aðild að.
Article