Októbermánuður hjá Blindrafélaginu: Vitundarvakning og stuðningur við samfélag blindra- og sjónskertra.

Október hefur verið einstaklega viðburðaríkur hjá Blindrafélaginu, þar sem fjölbreyttir viðburðir hafa verið haldnir í tengslum við Alþjóðlega Sjónverndardaginn og Dag Hvíta Stafsins. Þessir dagar eru mikilvægir til að vekja athygli á blindu, sjónskerðingu og aðgengismálum fyrir blinda- og sjónskerta einstaklinga.

Alþjóðlegi Sjónverndardagurinn – 10. október

Alþjóðlegi Sjónverndardagurinn var haldinn þann 10. október og er honum ætlað að beina sjónum almennings að blindu, sjónskerðingu og mikilvægi sjónverndar um allan heim. Dagurinn er árlegur og haldinn á öðrum fimmtudegi í októbermánuði. Með viðburðum og fræðslu er leitast við að efla vitund almennings um mikilvægi sjónverndar og stuðnings við þau sem búa við skerðingu.

Dagur Hvíta Stafsins 15. október

Dagur Hvíta Stafsins, haldinn 15. október, er alþjóðlegur vitundar- og baráttudagur fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga. Hvíti stafurinn er grundvallartæki í daglegu lífi blindra, en hann gegnir hlutverki merkis, leiðarstafs og stuðnings. Deginum er ætlað að vekja athygli á hvíta stafnum, en einnig á hagsmunamálum blindra og sjónskertra, sérstaklega þegar kemur að aðgengismálum í samfélaginu.

Hlutverk hvíta stafsins

-       Þreifistafur: Langur, samanbrjótanlegur stafur sem skynjar hindranir.

-       Merkistafur: Stuttur stafur sem gefur merki um sjónskerðingu

-       Göngustafur: Veitir stuðning og jafnvægi í daglegu lífi

Í tilefni dagsins var hvatt til þess að notendur tækju stafinn með sér á almannafæri til að auka sýnileika hans og skilning almennings á mikilvægi hans.

Sjónverndarvika með fjölbreyttum viðburðum

Blindrafélagið skipulagði viðburðarríka Sjónverndarviku til að efla vitundarvakningu og bæta aðgengi fyrir blinda og sjónskerta. Meðal viðburða vikunnar voru

-       11. október: Sjónlýsing á knattspyrnuleik Íslands og Wales á Laugardalsvelli, þar sem Knattspyrnusamband Íslands fékk Samfélagslampann fyrir frumkvæði að sjónlýsingu íþróttaviðburða.

-       14. október: Sjónlýsing á knattspyrnuleik Íslands og Tyrklands á Laugardalsvelli.

-       11.-13. október: Færnibúðir í Reykjadal fyrir blind eða sjónskert börn og ungmenni.

-       15. október: Sjónlýsing á frumsýningu heimildarmyndarinnar Acting Normal with CVI í Bíó Paradís, bíóhúsið hlaut Samfélagslampann fyrir að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að kvikmyndum.

-       17. október: Sjónlýsing á Landnámssýningunni fyrir blind og sjónskert börn.

-       31. október: Sjónvernd Lions. Fræðsluerindið Augndropar í stað stungunála. 30 ára vísindasamstarf Einars og Þorsteins Loftssonar.

Færnibúðir 2024 – Valdefling og stuðningur fyrir börn og ungmenni

Dagana 11.-13. október hélt Blindrafélagið, í samstarfi við ýmsar innlendar og erlendar stofnanir, Færnibúðir fyrir börn og ungmenni með samþætta sjón og heyrnarskerðingu. Um var að ræða valdeflandi helgi þar sem tæplega 20 þátttakendur á aldrinum 10-25 ára tóku þátt í íþróttum og leikjum undir handleiðslu sérfræðinga. Markmið búðanna er að veita þessum ungmennum tækifæri til að prófa nýjar áskoranir og efla sjálfsöryggi þeirra.

Acting Normal with CVI – Að varpa ljósi á heilatengda sjónskerðingu

Í heimildarmyndinni Acting Normal with CVI fáum við að kynnast lífi Dagbjartar Andrésdóttur, sem fæddist með heilatengda sjónskerðingu (CVI). Sagan hennar opnar augu áhorfenda fyrir því hvernig er að lifa með aðeins 4% sjón og hvað það felur í sér að glíma við sjúkdóm sem hún var ekki greind með fyrr en hún var orðin 26 ára. Heimildarmyndin er mikilvæg vitundarvakning fyrir heilatengda sjónskerðingu, en áhugasamir geta haft samband við Dagbjörtu fyrir fræðslusýningar.

Samfélagslampinn – Virðingarverð verðlaun

Samfélagslampinn, einstakt silfurlistaverk hannað af gullsmiðnum Sigmari Ó. Maríussyni, er veittur fyrirtækjum og stofnunum sem  hafa lagt sitt af mörkum til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. Fyrirtæki sem hlutu Samfélagslampann árið 2024 voru:

  1. Knattspyrnusambandi Íslands fyrir að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að íþróttaviðburðum með sjónlýsingu.
  2. Bíó Paradís fyrir að opna aðgengi blindra og sjónskertra að íslenskum kvikmyndum með sjónlýsingu.

Sjónvernd Lions

Október er mánuður sjónverndar hjá Lionshreyfingunni og þá hafa Lionsfélagar unnið að sjónvernd og staðið fyrir fræðslu um augnsjúkdóma og blindu. Þann 31. október buðu þau upp á fræðsluerindi í samvinnu við Blindrafélagið í húsi félagsins að Hamrahlíð 17. Þar kynnti Einar Stefánsson, prófessor, yfirlæknir á sviði augnlækninga og frumkvöðull, nýjungar á sviði augnlækninga. Augndropar í stað stungunála. 30 ára vísindasamstarf Einars og Þorsteins Loftssonar.

 

Segja því má að októbermánuður reyndist afar árangursríkur hjá Blindrafélaginu með fjölbreyttum viðburðum, stuðningi og upplyftingu fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga. Áframhaldandi vitundarvakning og aðgengisumbætur eru í fyrirrúmi í starfi félagsins, sem eflir tækifæri þessa hóps til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi í samfélaginu.

Stuðningur til sjálfstæðis!

Kær kveðja Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.