Aðalfundur Blindrafélagsins verður haldinn laugardaginn 11 maí 2019 í samkomusal félagsins að Hamrahlíð 17 og hefst hann kl. 13:00.
Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.
Auglýst er eftir framboðum í embætti tveggja aðalstjórnarmanna og tveggja varamanna.
Minnt er á að framboðum til stjórnar skal skila á skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund og rennur því framboðsfrestur út kl. 13:00 laugardaginn 20. apríl.
Framboðum má skila með eftirfarandi hætti; í tölvupósti, á venjulegu letri og á punktaletri. Framboð skal senda með sannarlegum hætti bréflega, í símbréfi í síma 525 0001 eða í tölvupósti til Kristins Halldórs Einarssonar, framkvæmdastjóra Blindrafélagsins á netfangið: khe@blind.is.
Athygli er vakin á því að réttur til setu á aðalfundi og þar með talið kjörgengi fellur niður ef félagsgjöld eru ógreidd.
Tillögum til breytinga á lögum félagsins þarf að skila til skrifstofu fyrir sama tíma, (þ.e. 20. apríl 2019, kl. 13:00)
Í 8 grein laga Blindrafélagsins segir:
Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund.
Falli atkvæði í kosningum jafnt á frambjóðendur skal hlutkesti látið ráða röð.
Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.
Í 9. grein segir:
Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:
- Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu starfsári. Afgreiddir reikningar félagsins og sjálfstæðra rekstrareininga þess fyrir næsta ár á undan. Ákveðið árstillag félagsmanna og gjalddagi þess.
- Kosning formanns félagsins til tveggja ára.
- Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn til tveggja ára, samanber 10 gr. Kosning tveggja skoðunarmanna og jafnmargra varamanna til tveggja ára. Kosning í kjörnefnd.
- Lagabreytingar.
- Aðalfundur ákveði laun stjórnarmanna.
- Önnur mál.
Í 10. grein segir:.
Stjórn Blindrafélagsins skal kjörin á aðalfundi, hana skipa fimm aðalmenn og fjórir varamenn. Atkvæðamagn ræður hverjir eru kjörnir í aðalstjórn eða varastjórn. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára. Stjórnin velur úr hópi sínum varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.
Stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að árlega skulu kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn og jafnmargir gangi úr stjórn. Varamenn taka sæti aðalmanna er kosnir voru til sama tíma í forföllum þeirra, fyrst sá er fleiri atkvæði hefur að baki sér. Séu varamenn, er kosnir voru til sama tíma, ekki tiltækir skal varamaður, sem kjörinn hefur verið á öðrum aðalfundi, taka sæti stjórnarmanns eftir sömu reglu um atkvæðamagn. Falli stjórnarmaður frá eða gangi úr stjórn félagsins tekur varamaður sæti hans á sama hátt og situr út kjörtíma þess stjórnarmanns.
Félagsmenn og bakhjarlar Blindrafélagsins eru kjörgengir til stjórnar. Þó mega ekki fleiri en tveir úr hópi bakhjarla sitja í stjórn félagsins hverju sinni.
Fyrir hönd stjórnar Blindrafélagsins,
Kristinn Halldór Einarsson.
Framkvæmdastjóri.