Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, gefur út 1. tölublað Víðsjár fyrir árið 2015.

Víðsjá 7. árg. 1. tölublað 2015 

Vantar 3 milljarða til málefna fatlaðs fólks

Ríkið verður að setja þrjá milljarða í málefni fatlaðs fólks til að hægt sé að standa undir þjónustu, að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélögin telja að þrjá milljarða vanti frá ríkinu til að hægt sé að standa undir þjónustu við fatlað fólk. Málaflokkurinn var færður frá ríki til sveitarfélaga árið 2011, en nokkuð skortir á að fjármunir hafi fylgt. „Samtals þarf ríkið því að leggja til rúmlega 3,1 milljarða króna á næsta ári til málaflokksins umfram það sem nú er,“ segir í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þetta er á meðal efnis Víðsjár, tímarits Blindrafélags Íslands, sem er komið út. Þar er fjallað um málefni blindra og sjónskertra og að þessu sinni er blaðið stútfullt af áhugaverðum greinum.

Atvinnuþátttaka blindra og sjónskertra skilar um 800 milljónum króna árlega
Beinar tekjur blindra og sjónskertra á vinnumarkaði námu 261 milljón króna árið 2014. Heildarhagnaður samfélagsins var þó um 800 milljónir króna.

Ferðaþjónusta blindra gengur vel
Mikil óánægja hefur verið með ferðaþjónustu fatlaðra undanfarna mánuði. Ferðaþjónusta blindra gengur vel og mikil ánægja mælist hjá notendum hennar.

Sér blindum og sjónskertum fyrir bókum
Um 200 bækur voru framleiddar á Hljóðbókasafni Íslands í fyrra og alls um 600 komu inn í safnið á árinu. Tækninýjungar hafa gjörbreytt safninu, en það er gríðarlega mikilvæg þjónustustofnun fyrir blinda og sjónskerta, þó lesblindir séu stærsti notendahópurinn.

Mun meiri möguleikar á Akureyri
Svanhildur Anna Sveinsdóttir flutti frá Akranesi til Akureyrar, þar sem hún telur sig hafa meiri möguleika og fá betri þjónustu.

Fær enga þjónustu
María Hauksdóttir býr í Reykjanesbæ. Hún segir að lögblindir eigi engin réttindi hjá bæjarfélaginu.

Það er í lagi að mistakast
Rósa Ragnarsdóttir garðyrkjufræðingur segir að blindir og sjónskertir verði að þora að taka að sér ýmis störf. Hún hefur lengi unnið í garðyrkju en starfar í dag við matseld.

Nýir vinir
Halldór Sævar Guðbergsson og Bónó eru orðnir vinir. Víðsjá fylgdi þeim eftir á göngu um Klambratún þar sem samband manns og leiðsöguhunds var styrkt.

  

Víðsjá er kynningarrit Blindrafélagsins og er því ætlað að auka þekkingu á högum blindra og sjónskertra auk þess að veita innsýn í líf og starf félagsmanna. Viðsjá skipar lykilhlutverk í fjáröflunarmálum Blindrafélagsins en félagið þarf að afla 90% af tekjum sínum með eigin fjáröflun til að standa undir nauðsynlegri starfsemi og þjónustu.

Viðsjá kemur út tvisvar á ári, að vori og að hausti. Upplag blaðsins er 18.000 eintök.

Því er dreift til félagsmanna, styrktarfélaga, bakhjarla og annarra sem stutt hafa félagið á síðastliðnum árum. Auk þess er blaðið sent til ýmissa félaga, fyrirtækja og opinberra aðila með áherslu á þá sem tengjast heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt könnun Capacent sem gerð var fyrir hönd Blindrafélagsins þá lásu það um 74% þeirra sem voru á póstlista Blindrafélagsins sem gerir það að verkum að um 15 þúsund manns skoðuðu blaðið. Af lesendum voru 82% ánægðir með efnistök blaðsins sem sýnir að ritstjórnarstefna blaðsins höfðar vel til markhópsins.

 

Tilgangur Víðsjár er að stuðla að sem viðtækustum skilningi og stuðningi, meðal félagsmanna og almennings á:

 

  • ·         Lífsgæðum og mannréttindum blinds og sjónskerts fólks á Íslandi.
  • ·         Nýjustu rannsóknum og meðferðartilraunum á sviði augnlækninga.
  • ·         Verkefnum sem eru á vettvangi Blindrafélagsins eða studd af félaginu og heimasíðu félagins, blind.is. 

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Nýjasta verkefni Blindrafélagsins er Vefvarp Blindrafélagsins en það er nettengd lestölva sem les upphátt í rauntíma skýringatexta í sjónvarpi, Morgunblaðið, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands og margt fleira. Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.

Á þessu ári eru 76 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Í allan þann tíma hefur félagið barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi.