Blindrafélagið ræður aðgegnisfulltrúa

Birkir Gunnarsson ráðinn í starfið

Þann 1. október sl. hóf Brikir Gunnarsson starf sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins í hlutastarfi.Sjálfur segir Birkir frá væntingum sínum til starfsins á eftirfarandi hátt: 

"Ég hef lengi barist fyrir meiri samstöðu, þrýstingi og fræðslu um aðgengilegar vefsíður bæði til fyrirtækja, skóla og stjórnvalda.

Hluti starfsins verður að búa til kynningar og stutta kúrsa á íslensku fyrir vefsíðugerðarfólk og koma þeim inn í námsskrá helstu skóla eða halda kynningu hjá fyrirtækjum, en annar hluti er að safna saman ábendingum um íslenskar vefsíður sem eru ekki aðgengilegar og fylgja slíkum málum eftir.

Ég hef tekið saman það sem ég hef séð nýlega á blindlist og þætti vænt um allar þær ábendingar sem þið hafið fram að færa.

Sjálfur hef ég gert athugasemdir t.d. við að atvinnulauglýsingar mbl.is birtist einungis sem mynd og að ekki sé hægt að bóka flug á IcelandExpress.is sökum þess að dagatalið þar sem velja skal dagsetingar flugs er alls óaðgengilegt, svo eitthvað sé nefnt. Ég verð einnig í sambandi bæði við banka og Reykjavíkurborg, sem ég veit hafa gert vel í´mörgu en virðast þurfa smá auka kvatningu og fræðslu til þess að gera sína tækni aðgengilegri. Mun ég þar t.d. skoða betri veflykla eða ókeypis sms skilaboð frá öllum bönkum með blinda notendur og einnig skoða hvernig innleiðingu kortalesara líður og hvort sú lausn reynist aðgengileg.

En sendið mér endilega vefslóð síðu og vandamálið sem þið eigið við að glíma á síðunni og ég skal safna þessu saman og fylgja svo þessum málum eftir fyrir hönd félagsins.

Þið megið einnig endilega senda póst beint á þá sem hanna síðuna en þá hafa mig í CC svo ég fái afrit af póstinum.

Ég ætla að reyna að komast hjá því að finna aðferðir til að láta skjálesara virka eða annað, og einbeita mér að almennu aðgengi, en ég mun reyna að aðstoða eftir föngum ef viðkomandi félagsmaður er ekki að sjá upplýsingar á síðu sem ég get hins vegar séð með mínum forritum (ég nota aðallega Jaws, en mun einnig nota Hal og NVDA sem er ókeypis skjálesari ), til þess að skoða síður.

Að lokum ætla ég að skoða hvort aðgengi að heimasíðum sé á einhvern hátt tryggt með lögum eða reglugerðum, og ef svo er ekki  skoða hvernig aðstæður eru í nágrannalöndum okkar og beita mér fyrir því að við reynum að fá sömu lagastoðir í íslensk lög.

 Verkefnalistinn er langur en mér finnst það sé orðin mikil þörf fyrir að við stöndum saman og stöndum vörð um það frelsi sem vefaðgangur hefur fært okkur og berjumst fyrir því að hann batni frekar en hitt.

Vonast eftir samstarfi og ábendingum sem flestra.

Þið megið senda þær til mín á birkir.gunnarsson@gmail.com eða á Blindlist ef þið teljið gott að umræða skapist um slíkt."

Stjórn Blindrafélagsins vill hvetja félagsmenn til að koma ábendingum um óaðgegnileg mikilvæg vefsvæði til Birkis. Hann mun síðan kanna nánar í hverju vandamálið liggur og senda athugasemdir og óskir um lagfæringar á viðkomandi vefstjóra.