Blindrafélagið gerir athugasemd við fjárlög til Sjónstöðvarinnar eða eins og hún nefnist í lögum Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Töluvert fjármagn vantar upp á til að Sjónstöðin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.
Notendum stöðvarinnar hefur fjölgað undanfarin ár og þjónustuþörf þeirra vaxið. Árið 2009 voru notendur 1200 á skrá en eru nú 1700. Helst má sjá fjölgun í tengslum við börn með heilatengda sjónskerðingu en einnig má rekja hana til aukinnar vitundarvakningar á meðal augnlækna á sjónskerðingu eldra fólks.
Sjónstöðin hefur undanfarin ár verið rekin með halla og er uppsafnaður halli síðastliðinna ára orðinn 40 milljónir.
Frá árinu 2009 hefur orðið um 12% aukning á fólki með annað móðurmál en íslensku. Í dag eru þetta um 100 einstaklingar og fer þeim fjölgandi með tilkomu aukins fjölda flóttamanna. Tekið er tillit til greiðslu túlka þegar kemur að heilbrigðismálum en ekki er tekið tillit til túlkaþjónustu þegar kemur að t.d. kennsluráðgjöf. Sú kennsla tekur lengri tíma og gengur hægar.
Kaup og rekstur leiðsöguhunda er nú orðið lögbundið hlutverk Sjónstöðvarinnar en ekki hefur verið tekið tillit til þess nema að hluta. 10 milljónir sem komu inn í reksturinn á síðastliðnu ári en það nægir rétt til að greiða laun þjálfara leiðsöguhunda. Með auknum fjölda hunda þ.e. 3 hundar á ári þarf að huga að rekstri þeirra og afleysingu við þjálfara og möguleika að öðru stöðugildi.
Tryggja þarf úthlutun á nýjum sjónhjálpatækjum, höfuðborin stækkunartæki sem hvert um sig kostar á bilinu 500 þús. – 1 milljón. Þau eru bylting í lífi sjónskertra í dag og gefa sjónskertum möguleika á þátttöku í samfélaginu sem þeir höfðu ekki áður s.s. til að sjá á töflu í skólanum, horfa á sjónvarp, nota snjallsíma, lesa af tölvu og margt fleira.
Til að tryggja að úthlutanir verði í samræmi við þarfir fjölda einstaklinga þarf að grípa til aðgerða og úthluta fjármagni sérstaklega til þessara sjónhjálpatækja. Talið er að um 150 manns muni geta nýtt sér þessa tækni en þetta er hrein viðbót við hóp sem ekki gat nýtt sér stækkun og hjálpartækjaúthlutun áður.
Með þessu væri verið að tryggja jafnrétti til náms og bætt aðgengi sjónskertra að samfélaginu.
Að þessari upptalningu má vera ljóst að það vantar töluvert fjármagn upp á að Sjónstöðin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.
Blindrafélagið mælir með því að fjárlaganefnd bjóði forstjóra Sjónstöðvarinnar á fund nefndarinnar til að fá nánari upplýsingar um stöðuna.