Blindrafélagið auglýsir eftir umsóknum um hvatningarstyrki

Tilgangur styrkjanna er að veita félagsmönnum 18 ára og eldri hvatningarstyrki sem tengjast atvinnusköpun, listum, menningu, afreksíþróttum og öðrum aðstæðum þar sem félagsmenn eru að takast á við spennandi og óhefðbundin verkefni. Eingöngu skal veita styrki til verkefna sem ekki eiga kost á styrkjum úr öðrum sjóðum á vegum Blindrafélagsins.

 Ástæður þess að stjórn Blindrafélagsins ákvað á síðasta ári að koma á fót hvatningarstyrkjum Blindrafélagsins voru einkum þær að hún taldi brýnt að hvetja félagsmenn til að takast á við ný og ögrandi verkefni. Stjórninni hafa borist beiðnir um styrki frá félagsmönnum sem eru að vinna að sérstökum verkefnum á eigin vegum en hefur ekki verið hægt að bregðast við slíkum beiðnum með viðunandi hætti þar sem engar vinnureglur hafa gilt um slíka fjárstyrki. Með veitingu hvatningarstyrkja einu sinni á ári, vill stjórnin koma öllum slíkum styrkbeiðnum í einn farveg.

Hver styrkur getur numið allt að 300.000 kr. en heildarupphæð allra styrkja að þessu sinni má nema 1.500.000 kr.

Umsóknir um styrki skulu berast til ráðgjafa Blindrafélagsins á sérstökum umsóknareyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu félagsins og á heimasíðu þess.

Umsóknarfrestur rennur út 30. apríl 2009 og stefnt er að því að styrkjum verði úthlutað á aðalfundi félagsins, 23. maí 2009.

Ákvarðanir um veitingu og upphæð styrkja verða teknar af sérstakri þriggja manna úthlutunarnefnd sem þegar hefur verið skipuð og í sitja eingöngu utanfélagsmenn.

Þeir sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til framkvæmdastjóra eða ráðgjafa Blindrafélagsins.

 

Stjórn Blindrafélagsins