Stjórn Styrktarsjóðs Margrétar Jónsdóttur, sem stofnaður var í ársbyrjun 2006 í samræmi við erfðaskrá Margrétar Jónsdóttur (06.11.1905 - 30.09.2003), auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og skulu skriflegar umsóknir berast Ólafi Haraldssyni, framkvæmdastjóra Blindrafélagsins eigi síðar en 14. október 2011.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja foreldra/forráðamenn barna allt að 18 ára aldri sem greinst hafa blind eða með alvarlega augnsjúkdóma. Sjóðurinn veitir einungis styrki vegna verkefna eða hluta sem eru ekki styrktir af almannatryggingum, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, félagsþjónustu sveitafélaga eða af öðrum opinberum stofnunum eða sjóðum sem koma að málum blindra og sjónskertra barna.
Í umsókninni skal lýsa nákvæmlega því verkefni sem sótt er um styrk til, gera grein fyrir mikilvægi þess fyrir skjólstæðinginn auk þess sem kostnaðaráætlun skal fylgja.
Stjórn sjóðsins mun ákveða upphæð veittra styrkja en skipulagsskrá sjóðsins setur henni reglur um hámark þeirrar upphæðar sem veita má í styrki hverju sinni.
Úthlutaður styrkur skal nýttur innan árs frá úthlutun.
Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna umsóknum sem hún telur eigi uppfylla þær kröfur sem hún gerir.
Nánari upplýsingar veita Klara Hilmarsdóttir, ráðgjafi Blindrafélagsins og Ólafur Haraldsson.
Skipulagsskrá styrktarsjóðsins má finna á hér á heimasíðu Blindrafélagsins.
Reykjavík 6. september 2011.
F.h. stjórnar Styrktarsjóðs Margrétar Jónsdóttur,
Ólafur Haraldsson,
framkvæmdastjóri Blindrafélagsins.